Árni Gautur Arason markvörður er búinn að sækja knöttinn í netið og í baksýn má sjá Svía fagna.
Árni Gautur Arason markvörður er búinn að sækja knöttinn í netið og í baksýn má sjá Svía fagna. — Morgunblaðið/Árni Torfason
"VIÐ vorum manni færri í tvær mínútur og þeim tókst að skora á meðan úr skyndisókn og aftur skömmu síðar. Við vorum of fáliðaðir í vörninni í báðum tilfellum og eftir þessi tvö mörk þá var á brattann að sækja. Þeir keyrðu hreinlega yfir okkur á tíu mínútum og það stóð ekki steinn yfir steini hjá okkur," sagði Ólafur Örn Bjarnason, miðvörður íslenska liðsins, við Morgunblaðið eftir leikinn.

Ólafur sagði að hljóðið hefði verið mjög þungt í leikmönnum í leikhléinu. "Það var algjör jarðarfararstemning eins og vænta mátti en við ræddum um að reyna að rétta hlut okkar og það tókst. Við gleymdum okkur allt of oft í fyrri hálfleiknum og það getum við ekki leyft okkur gegn jafnsterku liði og Svíar hafa á að skipa. Við erum búnir að koma okkur í afar erfiða stöðu og ekkert annað sem við getum gert en að reyna að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Við erum búnir að spila fjóra frekar lélega leiki í röð og hver einn og einasti leikmaður veit að hann getur spilað mun betur en hann hefur gert," sagði Ólafur Örn.

Erfitt að koma inn á

Hjálmar Jónsson, sem skipti við Indriða Sigurðsson um miðjan fyrri hálfleik, var einn af ljósu punktunum í leik Íslendinga í gær en hann skilaði sínu verkefni vel.

"Það var erfitt að koma inn á í kjölfarið á marki þeirra og svo kom annað markið tveimur mínútum seinna. Við létum Svíana teygja okkur í sundur og saman og þeir sýndu svo virkilega hvað í þá er spunnið en þeir fengu líka frið og tíma til að gera hlutina í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn riðlaðist og það féll einhvern veginn allt með þeim," sagði Hjálmar sem leikur með Gautaborg í Svíþjóð.

,,Það var ansi þungt hljóð í klefanum í hálfleik en við sýndum þó smábaráttukraft í seinni hálfleik og tókst að vinna hann eins og við stefndum á. Ég get vel skilið að fólk er hundóánægt með gengi liðsins en við verðum bara að taka okkur saman í andlitinu og endurvekja þá stemningu sem var í liðinu í síðustu keppni. Við bítum á jaxlinn og komum sterkari til leiks á nýju ári," sagði Hjálmar.

Guðmundur Hilmarsson skrifar