Sveinn Kjartansson fæddist í Reykjavík 12. desember 1957. Hann lést 25. september 2000 og var minningarathöfn um hann í Grafarvogskirkju 6. október 2004.

Vegir lífsins eru ófyrirsjáanlegir.

Myrkrið getur skollið á okkur fyrirvaralaust.

En ljósið í myrkrinu er minningin sem varir að eilífu.

Elsku Dóra, Þuríður, Kjaran, Benedikt og aðrir aðstandendur.

Guð geymi ykkur og varðveiti að eilífu.

Rut Erla, Þórarinn og Magnús Breki.

Það eru margar skemmtilegar minningar sem koma upp í hugann þegar við gömlu skáta-stelpurnar hugsum um Svenna. Það fyrsta sem mér dettur í hug er heiti potturinn og svo er það blái náttsloppurinn sem þú varst svo oft í þegar þú sast í sófanum að kjafta við okkur.

Pottapartíin sem Þuríður bauð okkur í voru alveg milljón, við vorum oft tímunum saman í pottinum og stundum komuð þið Dóra með okkur í pottinn. Þú varst mikill stuðbolti og hafðir gaman af því að setjast með okkur og spjalla. Þú hlustaðir af miklum áhuga á allt slúðrið og kjaftasögurnar og vissir upp á hár hvað var að gerast hjá hverjum.

Þú reyndir mikið að koma okkur stelpunum á séns með strákunum sem voru að vinna hjá þér og fannst nú ekki leiðinlegt þegar við Þuríður komum stundum í matarhléinu okkar í Logafoldina að fá okkur í gogginn á sama tíma og þið vinnufélagarnir.

Við gömlu skáta-stelpurnar höfum farið nokkrum sinnum niður að Sundahöfn, kveikt á friðarkertum, skálað fyrir góðum manni, sungið lög með Bubba og rifjað upp gamlar og góðar stundir.

Það var gaman að fá að kynnast þér og ég veit að þú yrðir stoltur af fjölskyldu þinni í dag. Ég dáist mikið að Þuríði, hún hefur verið stoð og stytta bræðra sinna og eru þeir mjög heppnir að eiga slíka kjarnorkusystur.

Elsku Dóra, Þuríður, Kjaran, Benedikt og aðrir aðstandendur, ég samhryggist ykkur innilega í þessari miklu sorg sem þið hafið gengið í gegnum á seinustu árum. Minning um góðan mann lifir í hjarta okkar allra.

Guðrún Vala Jónsdóttir.