Grasrótarstarf meðal geðsjúkra og í þágu geðsjúkra er orðið býsna öflugt og að mörgu leyti vaxtarbroddurinn í því sem er að gerast í málefnum þeirra.

Grasrótarstarf meðal geðsjúkra og í þágu geðsjúkra er orðið býsna öflugt og að mörgu leyti vaxtarbroddurinn í því sem er að gerast í málefnum þeirra. Í fyrradag kynnti hópur, sem nefnist Hugarafl - en þar eru á ferð iðjuþjálfar með reynslu af geðheilbrigðismálum og einstaklingar sem eiga við geðræn vandamál að stríða - niðurstöður verkefnis sem nefnist Notandi spyr notanda.

Fyrirmyndin er sótt til Noregs en verkefnið fólst í því að notendur geðheilbrigðisþjónustu í bata spurðu sjúklinga á geðdeild um afstöðu þeirra til meðferðar og umhverfis. Verkefnisstjórar voru tveir iðjuþjálfanemar.

Niðurstöðurnar eru afar athyglisverðar. Þar kemur fram það grundvallaratriði, að sjúklingum finnst skipta máli, að þeir séu hafðir með í ráðum um þá meðferð sem þeir fá inni á geðdeild. Þessi svör endurspegla ákveðna lykilbreytingu sem orðið hefur á nokkrum áratugum í meðferð geðsjúkra. Sú var tíðin, að sjúklingar og aðstandendur fylgdu nánast gagnrýnislaust því sem læknar og hjúkrunarfræðingar lögðu til. Nú er augljóslega að skapast meira jafnvægi á milli sjónarmiða fagmanna, sjúklinga og aðstandenda.

Viðhorfið til lyfjameðferðar vekur einnig athygli. Sjúklingar voru á einu máli um að of mikil áherzla væri lögð á lyfjagjöf en voru sáttari við að taka inn lyf ef þeir fengju upplýsingar um þau og aukaverkanir þeirra. Ekki er nema rúmlega hálf öld liðin frá því að helztu geðlyfin komu á markað, sem gjörbreyttu öllum möguleikum á að takast á við geðsjúkdóma. Og þeir eru margir, sem telja, að lyfin hafi bjargað lífi þeirra og gert þeim kleift að lifa sæmilega eðlilegu lífi. Vaxandi gagnrýni á lyfjagjöf er sennilega til marks um aukið sjálfstraust þeirra sem hlut eiga að máli og er þess vegna jákvæð.

Í bæklingi, sem Hugarafl gaf út um niðurstöðurnar, segir m.a.:

"Notendur eru kvíðnir fyrir útskrift, því þeim finnst vanta stuðning, þegar heim er komið og upplifa mikið öryggisleysi við að fara heim. Þeir telja, að það væri gott að haldnir séu útskriftarfundir með aðstandendum og að þeir komi meira inn í útskriftarferlið. Einnig vilja þeir sjá eftirfylgni og upplýsingar um úrræði í samfélaginu að lokinni útskrift."

Fyrir nokkrum árum vakti Morgunblaðið máls á því, að í geðheilbrigðisþjónustu okkar Íslendinga vantaði millistig á milli geðdeildar og heimilis. Það má færa rök að því, að þegar sjúklingur er kominn á ákveðið batastig geti verið erfitt og jafnvel neikvætt fyrir heilsufar hans að vera á meðal mjög veiks fólks. En jafnframt getur verið að sjálfstraustið og öryggiskenndin sé ekki orðin nægilega mikil til að takast á við þau vandamál dagslegs lífs og áreiti úr ýmsum áttum sem tekur við þegar heim er komið.

Sjúkraheimili, sem býr fólk betur undir að takast á við hversdagslegs verkefni hins daglega lífs, getur verið mikilvægur þáttur í þessari meðferð til þess að mæta þeim kvíða og því öryggisleysi, sem sjúklingarnir lýsa, þegar komið er að útskrift.

Með verkefninu Notandi spyr notanda hefur verið unnið merkilegt starf sem á að auðvelda þeim sem mesta ábyrgð bera á geðheilbrigðisþjónustunni að laga hana að breyttum viðhorfum og nýjum sjónarmiðum sem augljóslega eru til staðar.

Það er ástæða til að óska öllum þeim, sem að þessu verki stóðu, til hamingju með þennan áfanga.