Halldor Laxness
Halldor Laxness
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BANDARÍSK og íslensk yfirvöld unnu saman að því á fimmta og sjötta áratugnum að rannsaka skattamál Halldórs Laxness.

BANDARÍSK og íslensk yfirvöld unnu saman að því á fimmta og sjötta áratugnum að rannsaka skattamál Halldórs Laxness. Í bók Halldórs Guðmundssonar, Halldór Laxness, ævisaga, sem kemur út á þriðjudag, kemur fram að árið 1947 hafi William Trimble, starfandi sendiherra á Íslandi, lýst áhyggjum af málflutningi Halldórs við yfirmenn sína. 16. júní sendir hann skeyti merkt trúnaðarmál og segist hafa "rætt málið við Bjarna Benediktsson og hafi utanríkisráðherra sagt að hann myndi mjög gjarnan vilja fá að vita hvað Halldór sé búinn að fá í höfundarlaun fyrir Sjálfstætt fólk í Bandaríkjunum". Síðan er vitnað í skeyti Trimbles: "Herra Benediktsson sagði að hann langaði sérstaklega til að vita hvaða meðal- mánaðargreiðslur herra Laxness hefði fengið það sem af er árinu 1947. Þessar upplýsingar, sagði hann, yrðu afar gagnlegar ríkisstjórn Íslands í tilraunum sínum til að finna þá sem helst fjármagna Kommúnistaflokk Íslands."

Í bókinni kemur fram að yfirmenn Trimbles hafi tekið ákefð hans með varúð. Í skeyti, sem Trimble sendir í febrúar 1948, mánuði áður en Atómstöðin kemur út, segir: "Athugið að orðstír Laxness myndi skaðast varanlega ef við komum því til skila að hann sé að reyna að komast undan tekjuskatti." Trimble er bent á að það sé hlutverk þeirra sem greiddu Halldóri höfundarlaunin að halda eftir því sem bandarísk skattyfirvöld eiga að fá. Engu að síður er málið kannað og fær sendiráðið nákvæmt yfirlit yfir höfundarlaun Halldórs fyrir Sjálfstætt fólk.

Í ársbyrjun 1949 kemur fram að Ragnar Ólafsson, lögmaður Laxness, á fundi með skattyfirvöldum á Íslandi vegna tekna skáldsins í Bandaríkjunum. Þá um sumarið birtir sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu auglýsingu í Lögbirtingablaðinu um að fasteignin Gljúfrasteinn verði boðin upp á nauðungaruppboði ásamt tveimur bifreiðum vegna 225 þúsund króna skattskulda.

Um þessi mál var hart deilt. Sagði í Tímanum að nú biðu allir "með öndina í hálsinum, að slíkt hið sama gangi yfir heildsala og burgeisa, sem eiga tugmilljónir innistandandi í öðrum löndum."

Allt bendir til að skattamálinu hafi lokið með því að Halldór Laxness var látinn greiða 70 þúsund krónur. Þá voru eftir málaferli vegna brota á ákvæðum gjaldeyrislaga, sem einnig voru rannsökuð. Í maí 1952 var Halldór dæmdur til að greiða tíu þúsund króna sekt í ríkissjóð, en hann áfrýjaði til Hæstaréttar sem árið 1955 dæmdi hann til að greiða 1500 krónur í sekt auk málskostnaðar. Eftir að Halldór fékk Nóbelsverðlaunin tókust sættir milli hans og Bjarna Benediktssonar. Árið 1967 bað Bjarni Matthías Johannessen að bera það undir Halldór hvort hann vildi ekki bjóða sig fram til forseta. Þegar Bjarni lést skrifaði Halldór um hann minningargrein.