Það er ávallt áhugavert að sjá hvaða bækur tengdar viðskiptum The Economist og BusinessWeek velja sem bækur ársins hverju sinni. Undirritaður hefur lesið nokkrar bækur sem þessi rit hafa mælt með og sjaldan verið svikinn.
Það er ávallt áhugavert að sjá hvaða bækur tengdar viðskiptum The Economist og BusinessWeek velja sem bækur ársins hverju sinni. Undirritaður hefur lesið nokkrar bækur sem þessi rit hafa mælt með og sjaldan verið svikinn. Lesturinn um bækur ársins er fróðlegur og verður hér lauslega farið yfir það helsta sem fram kemur hjá ofangreindum tímaritum.

Umræða The Economist er fjölþætt og skemmtileg. Bent er á hversu víðtæk skilgreiningin er um bækur tengdar viðskiptum. Erfitt er að bera saman bækur sem fjalla um fræðilegu hliðar fjárfestinga, rekstur fyrirtækja og sögulegar heimildir. Því má við bæta að bækur tengdar fyrst og fremst öðrum vísindum, eins og sögu og sálfræði, hafa oft á tíðum verið undirstaða ýmissa skrifa, meðvitað eða ekki, varðandi fjármál og viðskipti.

The Economist bendir fyrst á bókina, Managers Not MBA's, eftir Henry Mintzberg, en hún kemur inn á stjórnun fyrirtækja. Blaðið telur að hér sé um tímamótaverk að ræða, þá sérstaklega vegna þess að bókin gagnrýnir óhikað staðlaðar skoðunir um að meistaranám í viðskiptum þjálfi menn undir stjórnun fyrirtækja, með áherslu á greiningu einstakra vandamála. The Economistbendir á að Jeffrey Skilling, fyrrverandi forstjóri Enron, hafi verið afburða nemandi og snillingur í greiningu. Að samhæfa niðurstöður ólíkra vandamála er lykillinn að velgegni í stjórnun, samkvæmt blaðinu, ekki það að geta greint einstök vandamál.

Önnur bók sem er nefnd af The Economist er Pay Without Performance eftir Lucian Bebchuk og Jesse Fried. Sú bók tæklar algengt vandamál varðandi laun stjórnenda, sem oft eru í engu samræmi við árangur þeirra, því iðulega hækka laun þeirra þó að árangurinn láti á sér standa. Bent er á að þó svo að stjórnir fyrirtækja eigi sök á því sé einnig nauðsynlegt að minnka þá einangrun sem algeng er á milli þeirra og hluthafa.

Að mati The Economist var óvenju mikið af lélegum bókum útgefið á árinu varðandi innsýn í rekstur fyrirtækja. Nefnir tímaritið nokkrar bækur um flug- og bílaiðnaðinn sem því þykir sérstaklega leiðinlegar. Bækur varðandi stjórnun fengu ekki betri útreið. Bókin 52 Productivity Principles for Work and Life fær sérstaklega slæma útreið, og er tekið dæmi um 2 stig sem höfundur hennar, Dave Allen, telur að séu til að takast á við ófyrirséð tækifæri: 1. Hið andlega. Ef Guð er allt, og þú ert hluti af því, slakaðu bara á. 2. Allt hitt. Fyrir þetta verður þú að taka þig saman í andlitinu svo þú getir skipt um gír eins og til þarf. Einnig má velta fyrir sér til gamans að merkilegt er hversu margar bækur varðandi stjórnun eru með tölustaf í titlinum. Eru þær skrifaðar fyrir aðila sem stjórna fyrirtækjum? Það er nefnilega svo að sjaldan er stjórnun í raunverulegu lífi stjórnenda jafn einfaldlega aðgreind.

Engin bók útgefin í ár jafnaðist, að mati The Economist, á við bókina The Smartest Guys in the Room sem var gefin út árið áður. Sú bók fjallaði um ótrúlegt ris og fall Enron og var tekin til umfjöllunar hér á árinu; vonandi leynist ekkert hérlendis í sama anda og innan veggja Enron. Undirritaður taldi bókina vera mjög góða og mælti sterklega með henni, enda með ólíkindum hversu mikið magn upplýsinga höfundar náðu að draga saman á stuttum tíma og setja í heilsteyptan búning með sterkum persónulýsingum. The Economist ber bókina við Barbarians at the Gate - sem fjallað verður væntanlega um hér innan tíðar - enda um að ræða helstu bókina til að lýsa neikvæðum hliðum þessa tímabils í sögu fyrirtækjarekstrar.

Aðrar bækur nefndar á jákvæðu nótunum eru Why Globalization Works eftir Martin Wolf, sem skrifað hefur margar áhugaverðar greinar í The Financial Times í gegnum tíðina, og The Wisdom of Crowds eftir James Surowiecki. Bók ársins að mati The Economister er hins vegar The Modern Firm eftir John Roberts, sem fjallar um uppbyggingu fyrirtækja. Greinarhöfundur er ófeiminn við stóru orðin og segir að enginn maður sé fullfær um að stjórna nútímalegu fyrirtæki án þess að hafa lesið þessa bók.

Ein bók á báðum listum

Umfjöllun BusinessWeek er auðlesnari, enda einfaldlega taldar upp tíu bestu bækurnar að mati tímaritsins, lýsing á þeim og af hverju þær urðu fyrir valinu. Athygli vekur að af þeim aragrúa bóka sem er gefinn út er ein bók sem komst á lista beggja tímarita; The Wisdom of Crowds. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna hefur almenningur oftar rétt fyrir sér en margur virðist halda. Höfundur lýsir ekki aðeins því hvernig hægt sé að nýta sér "visku" almúgans heldur einnig hvernig sú viska getur orðið öfugsnúin, samanber ásækni í áhættufjárfestingum sem fara úr böndunum.

Af þeim öðrum níu bókum sem helst vöktu athygli undirritaðs voru bækurnar Origins of the Crash eftir Roger Lowenstein, Confronting Reality eftir Larry Bossidy hjá Honeywell og Ram Charan og að lokum Alexander Hamilton eftir Ron Chernow. Origins of the Crash fjallar um þann hápunkt sem hlutabréfakaup náðu fyrir fimm árum síðan, þá í tengslum við veraldarvefinn, og aðdragandann að þessum hápunkti. Höfundur hefur meðal annars skrifað þekkta bók um Warren Buffett og frábæra bók, When Genius Failed, um ris og fall Long-Term Management Capital sem skók fjármálaheiminn síðla haust 1998. Efniviður Origins of the Crash er eitthvað sem flestir hafa nú þegar lesið sér mikið til um og því merkilegt að bókin hafi komist inn á þennan lista hjá BusinessWeek. Confronting Reality gefur lesandanum módel fyrir því hvernig þrír þættir í stjórnun fyrirtækja - staðreyndir um innviði, staðreyndir um ytri aðstæður fyrirtækis og fjárhagsleg markmið - samtvinnast og hvernig hægt sé að glíma við þær staðreyndir og vinna úr þeim.

Ævisagan á lista BusinessWeek um Alexander Hamilton, af sumum talinn faðir bandaríska kapítalismans, segir frá manni sem var leiðandi í stofnun fyrsta seðlabanka Bandaríkjanna, innleiðingu skattakerfis og fjárlagaáætlunar fyrir ríkið. Lýst er hvernig hann, í skjóli mikilla hæfileika og þess að vera oft rétti maðurinn á réttum tíma, hóf sig í fremstu röð manna við að skapa framtíð landsins og skapaði að mati BusinessWeekframtíð efnahags Bandaríkjanna.

Aðrar bækur sem komust inn á top tíu lista BusinessWeek voru Free Culture eftir Lawrence Lessig, The Future of Competition eftir Prahalad og Ramaswamy, In Defense of Globalization eftir Jagdish Bhagwati, Media Man (um Ted Turner) eftir Ken Auletta, My Life As a Quant eftir Emanuel Derman og að lokum The Paradox of Choice eftir Barry Schwartz. Viðfangsefni hennar er skemmtilegt; hvernig ákvörðunartökur eru oftar en ekki byggðar á veikum grunni og af hverju meira úrval getur leitt til ákvörðunarfælni hjá neytendum.

Af nýlegum innlendum bókum ber að mati undirritaðs helst að nefna Heilræði fyrir unga menn í verzlun og viðskiptum eftir George H.F. Schrader í þýðingu Steingríms Matthíassonar (lítil skemmtileg bók) og Hlutabréf og eignastýring sem Íslandsbanki gaf út (gott yfirgrip varðandi fjárfestingarfræði), báðar útgefnar síðla árs 2003.

mixa@vsp.is