Björgvin Valdimarsson
Björgvin Valdimarsson
Frá og með nýliðnum áramótum þurfa skráð félög hér á landi sem gera samstæðureikningsskil að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Björgvin Valdimarsson segir umtalsverðar breytingar verða á reikningsskilum þessara félaga frá því sem lesendur íslenskra ársreikninga eiga að venjast.

Í reglugerð Evrópusambandsins nr. 1606/2002, sem tók gildi 1. janúar 2005, er kveðið á um að félög sem skráð eru í kauphöll í einhverju af aðildarríkjum sambandsins skuli nota alþjóðlega reikningsskilastaðla (IAS) við gerð samstæðureikningsskila. Þessi ákvörðun hefur einnig gildi hér á landi. Um innleiðingu staðlanna má segja að hún skýrist af alþjóðavæðingu í viðskiptum sem knýr á um samræmingu á reikningsskilastöðlum milli landa. Félag sem skráð er í ESB-landi og starfar í fleiru en einu landi þarf því að nota sömu staðla við gerð samstæðureikningsskila óháð því í hvaða landi starfsemin er, en það getur bæði sparað tíma og peninga. Jafnframt auka staðlarnir gegnsæi reikningsskila og þar með væntanlega traust erlendra samstarfsaðila. Þó er hætt við að taugatitrings gæti meðal fjárfesta á meðan þeir reyna að átta sig á hvort breyting á uppgjörsaðferð sé til þess fallin að auka eða rýra verðmæti fjárfestinga þeirra. Einnig er talið að mismunandi túlkun á matsaðferðum eigna, m.a. á milli landa, kunni að valda ósamræmi á milli uppgjöra til að byrja með. Unnið hefur verið að íslenskun þeirra staðla sem gilda hér á landi frá ársbyrjun 2005.

Helstu áhrif

Hjá þeim félögum sem beita munu stöðlunum verða ýmsar breytingar á ársreikningum. Breytingarnar snúa að framsetningu reikninganna sjálfra, mati eigna og því sem fram kemur í skýringum með ársreikningum. Segja má að framsetning ársreikninga samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sé nokkuð samþjappaðri en sú framsetning sem lesendur íslenskra ársreikninga eiga að venjast. Sem dæmi eru afskriftir og óreglulegir liðir ekki sérgreindir í rekstrarreikningi og skuldbindingar eru færðar á meðal langtímaskulda í efnahagsreikningi. Á móti kemur að ýmsar upplýsingar eru ýtarlegri en verið hafa í íslenskum reikningsskilum, s.s. umfjöllun um reikningsskilaaðferðir og þóknun til stjórnar og stjórnenda. Til að byrja með þurfa einungis skráð félög sem gera samstæðureikningsskil að beita stöðlunum en frá árinu 2007 bætast í hópinn samstæðureikningar félaga með skráð skuldabréf og frá árinu 2009 ársreikningar annarra skráðra félaga. Öðrum félögum sem ekki eru skráð á verðbréfmarkaði er heimilt að beita stöðlunum ef þau svo kjósa.

Gangvirði og virðisrýrnun

Í alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum er kveðið á um að sumar eignir sé heimilt að meta til gangvirðis en aðrar eignar sé skylt að meta með þeim hætti. Með gangvirði (e. fair value) er átt við þá fjárhæð sem hægt er að fá fyrir eign í viðskiptum á milli upplýstra, sjálfviljugra og óskyldra aðila. Þær eignir sem skylt er að meta til gangvirðis eru "seljanlegar fjáreignir" (e. available-for-sale investments), eignir í sölumeðferð (assets held for sale), fjáreignir/-skuldir (e. financial assets/liabilities), s.s. viðskiptakröfur og afleiðusamningar, og líffræðilegar eignir (e. biological assets). Eignir sem heimilt er að meta til gangvirðis eru varanlegir rekstrarfjármunir, fjárfestingareignir (e. investment properties), óáþreifanlegar eignir og birgðir. Almenna reglan er sú að ef eign er metin til gangvirðis skal meta allar eignir sem tilheyra sama eignaflokki til gangvirðis. Ef eign er reikningsfærð á gangvirði verður að notast við þá aðferð upp frá því.

Þess ber að geta að ákvæði í IAS staðli nr. 39 (e. IAS 39, Financial Instruments: Recognition and Measurement), um heimild til að færa fjáreignir á gangvirði í gegnum rekstrarreikning (viðkomandi fjáreign þarf að hafa verið skilgreind þannig fyrst þegar hún er færð til eignar) hafa sætt nokkurri gagnrýni. Evrópski seðlabankinn hefur varað við því að heimild til að færa gangvirði eigna í gegnum rekstrarreikning kunni að valda því að sveiflur í evrópskum hagkerfum verði dýpri en ella. Einnig hafa ýmsir eftirlitsaðilar bent á að slík heimild gefi fyrirtækjum aukið færi á að "eiga við" reikningsskil sín. Endurskoðun á umræddu ákvæði stendur yfir og er ljóst að heimildin mun ekki gilda fyrir evrópsk fyrirtæki við innleiðingu staðlanna í janúar 2005.

Ef breytingar í umhverfi benda til þess að virði fastafjármuna sé lægra en bókfært verð skal fara fram mat og eignir færðar niður í matsverð ef um virðisrýrnun (e. impairment) er að ræða. Þá er miðað við núvirðingu áætlaðs fjárstreymis eða viðskiptaverð svipaðra eigna hvort sem hærra reynist. Sérstaka athugun þarf að framkvæma á hverju ári á mögulegri virðisrýrnun viðskiptavildar.

Hverjir meta og hvernig?

Endurskoðendum er ekki heimilt að framkvæma mat á gangvirði eigna þeirra félaga sem þeir annast endurskoðun fyrir. Fyrirtækjunum er heimilt að láta eigin starfsmenn framkvæma þessa útreikninga. Í mörgum tilvikum getur þó verið heppilegt að fá aðstoð utanfrá og þá sérstaklega í upphafi þegar eignir eru metnar í fyrsta skipti.

Þegar velja skal aðferð við mat á eignum skal stuðst við markaðsverð sé það fyrir hendi. Sé eignin skráð á virkum markaði er notast við skráð verð, annars er notað viðskiptaverð í nýlegum viðskiptum eða samanburður á viðskiptum með svipaðar eignir. Ef ekki er hægt að nálgast markaðsverð er stuðst við eftirfarandi aðferðir: Gefi eignin af sér handbært fé er stuðst við núvirðingu áætlaðs fjárstreymis en annars er notuð svokölluð kostnaðaraðferð (e. cost approach), en þar er litið til sparnaðar við að eiga eignina.

Heimildir:

Jane Croft. Financial Times: London (UK): Dec 20, 2004 pg. 21: ´Fair Value´option creates accounting waves

Ólafur Þór Jóhannesson: Fyrirlestur á Reikningsskiladegi FLE, september 2004

Heimasíða IASB: http://www.iasb.org

Höfundur starfar sem fjármálaráðgjafi hjá ParX Viðskiptaráðgjöf IBM.