GERT er ráð fyrir því að allt að tvær milljónir pílagríma muni verða í hinni helgu borg og fæðingarstað Múhameðs, Mekka í Sádi-Arabíu, í dag til að taka þátt í mestu trúarhátíð múslíma, haj.

GERT er ráð fyrir því að allt að tvær milljónir pílagríma muni verða í hinni helgu borg og fæðingarstað Múhameðs, Mekka í Sádi-Arabíu, í dag til að taka þátt í mestu trúarhátíð múslíma, haj. Geysimiklar öryggisráðstafanir hafa verið gerðar, einkum til að reyna að koma í veg fyrir troðning sem oft hefur valdið dauða mörg hundruð manna. Mesta áfallið var 1990 en þá er talið að rúmlega 1.420 manns hafi látið lífið þegar skelfing greip um sig í undirgöngum. Einnig óttast menn hryðjuverk al-Qaeda og hafa um 50.000 liðsmenn öryggissveita tekið sér stöðu í Mekka og grennd.

Í fyrra fórust um 250 manns í troðningi þegar kastað var að venju steinum í súlurnar þrjár í Al Jamarat en súlurnar tákna vald Satans. Nú hafa verið reistar nýjar og mun stærri súlur og götur breikkaðar, geta þá fleiri komist að í einu. Einnig hefur verið kom upp hundruðum stórra upplýsingaskilta með rafeindabúnaði í tjaldbúðunum. Notaðir eru hátalarar til að leiðbeina fólki og það gert á sjö tungumálum.

Haj-ferðirnar að Kaaba, þar sem steinninn dularfulli er varðveittur, eiga sér forsögu sem er eldri en nærri 14 alda skeið íslams. Íbúar á svæðinu sýndu þar Al Lah (orðið merkir Guðinn) lotningu og múslímar álíta að sjálfur Adam hafi reist mannvirkið í Kaaba að skipan Guðs, beðið og og grátið þar missi Paradísar en staðurinn hafi fallið í gleymsku. Forfaðir araba (og gyðinga), Abraham og sonur hans og ambáttarinnar Hagars, Ísmael, hafi endurreist mannvirkið og gert Kaaba að helgasta stað hins eina, sanna Guðs.

En enginn nema múslími má heimsækja Mekka; villutrúarmönnum sem það gera er refsað með lífláti ef upp um þá kemst.