Knut Haenschke
Knut Haenschke
ÍSLANDSVINURINN Knut Haenschke, sem verið hefur forstöðumaður Norðurlandaskrifstofu þýska ferðamálaráðsins í Kaupmannahöfn síðastliðin sjö ár, hefur nú snúið heim til Frankfurt í Þýskalandi þar sem hann mun enn um sinn starfa fyrir þýska ferðamálaráðið.

ÍSLANDSVINURINN Knut Haenschke, sem verið hefur forstöðumaður Norðurlandaskrifstofu þýska ferðamálaráðsins í Kaupmannahöfn síðastliðin sjö ár, hefur nú snúið heim til Frankfurt í Þýskalandi þar sem hann mun enn um sinn starfa fyrir þýska ferðamálaráðið. Knut lenti á dögunum í 60. sinn á Keflavíkurflugvelli en heimsóknir hans hingað eru orðnar um 40.

Það var reyndar í Frankfurt að Ísland og Íslendingar urðu fastur punktur í tilveru Knuts því þar starfaði hann fyrir Loftleiðir á árunum 1975 til 1982 en Knut hefur starfað að ferðamálum allar götur frá árinu 1960.

Nátengdur Norðurlöndunum og Íslandi

"Ég ætla að vinna fyrir ferðamálaráðið í tæp tvö ár í Frankfurt í viðbót en ég hef verið síðustu sextán árin erlendis. Að þeim tíma loknum ætla ég að hætta. En ég hefði reyndar mikinn áhuga á að lýsa fótboltaleikjum, kannski fæ ég tækifæri til þess að gera það hjá saxneska útvarpinu. Ég lýsti leikjum hér áður fyrr um árabil, að vísu bara í 2. eða 3. deild, en það skiptir ekki öllu máli, mér finnst einfaldlega mjög skemmtilegt að lýsa leikjum."

Knut segir sér líka vel að komast aftur heim til Þýskalands. "Þessi sextán ár sem ég hef starfað erlendis voru stórfín og ómetanleg reynsla, ég hef kynnst öðrum þjóðum en núna þegar ég er orðinn sextugur finnst mér gott að komast heim."

Knut segist vera orðinn nátengdur Norðurlöndunum þar sem hann hafi dvalið í um ellefu ár á Norðurlöndunum og unnið fyrir Loftleiðir í sjö ár. Spurður um þær breytingar sem hann hafi upplifað á Íslandi segir hann þær vera geysimiklar.

Geysimiklar breytingar hafa orðið á Íslandi

"Mér verður hugsað til fyrstu ferðar minnar hingað, þá var enginn bjór eða knæpur og næstum erfitt að fá að borða, framboðið af matsölustöðum var ákaflega takmarkað, það voru Hótel Loftleiðir, Saga og Naustið og ekki mikið annað. En síðan varð hér gerbylting, einkum eftir að bjórinn var leyfður, ótal krár voru opnaðar og mjög margir afar góðir matsölustaðir. Maður myndi ekki trúa að óreyndu hversu margir afbragðs gæðaveitingastaðir eru hér miðað við það hversu fámenn þjóðin er. Ég held líka að íslenska þjóðin hafi sjálf breyst, ég hef á tilfinningunni að menn hafi verið heimakærari og nægjusamari. Núna er meiri hreyfing á öllu, tveir eða þrír bílar í hverri fjölskyldu o.s.frv. Það er annað Ísland en sem ég kynntist árið 1975. En ég hef haft gaman af því að fylgjast með þessum breytingum og raunar dáðst að því hvernig Íslendingar hafa reynt að halda í sjálfsmynd sína."

Aðspurður segir Knut að mjög vel hafi gengið að fá Íslendinga til að ferðast til Þýskalands, sérstaklega á níunda áratugnum en þá hafi flugleiðin Keflavík-Lúxemborg verið ráðandi og Arnarflug hafi flogið til Hamborgar en Hamborg hafi verið mjög vinsæll áfangastaður. Eftir að það flug hafi lagst af hafi Flugleiðir farið á fljúga til Frankfurt. Á þeim tíma hafi einnig framboð á ferðum til annarra staða verið minna en nú er. "En nú erum við að sækja aftur á með beinu flugi Icelandair til Berlínar sem hófst í fyrrasumar en þá var flogið þangað tvisvar sinnum í viku. Nú verður flogið þangað fjórum sinnum í viku næsta sumar. Berlín er spennandi borg, hún er á uppleið og hefur mikið aðdráttarafl, líka fyrir ungt fólk á Íslandi."

Knut segist hafa eignast fjölda vina á Íslandi á þessum langa tíma og hann muni ætíð verða tengdur landinu sterkum böndum.