Ólafur Ólafsson
Ólafur Ólafsson
FULLTRÚAR Félags eldri borgara munu funda með forætisráðherra og heilbrigðisráðherra í lok þessa mánaðar til að ræða kjör eldri borgara, sem formaður félagsins segir afleit.

FULLTRÚAR Félags eldri borgara munu funda með forætisráðherra og heilbrigðisráðherra í lok þessa mánaðar til að ræða kjör eldri borgara, sem formaður félagsins segir afleit. Á síðustu 15 árum hafi ellilífeyrisþegar setið eftir hvað varðar tekjuþróun miðað við ýmsar stéttir í þjóðfélaginu. Þannig sé dæmigerður eldri borgari nú með 110 þúsund krónur á mánuði sem engan veginn sé nægjanlegt til framfærslu. 30% allra eldri borgara búi við þessi kjör, þ.e. að þeir hafa fullan ellilífeyri og tekjutryggingu en ekki tekjutryggingarauka upp á rúmar 64 þúsund kr. auk greiðslna úr lífeyrissjóði upp á tæpar 46 þúsund kr. sem breytast eins og verðlag.

Sem dæmi um tekjuþróun eldri borgara nefnir Ólafur Ólafsson, formaður félagsins í Reykjavík, að frá árinu 1990 hafi launavísitala þeirra hækkað um 88 stig. Til viðmiðunar hafi launavísitala kennara hækkað um 232 stig, hjúkrunarfræðinga um 147 stig, ráðherra um 270 stig, þingfararkaup um 240 stig og lágmarkslaun með eingreiðslum um 158 stig.

Á fundi Félags eldri borgara á þriðjudag var samin ályktun þess efnis að kynna yfirvöldum þá neikvæðu kjaraþróun sem átt hefur sér stað hjá eldri borgurum.

"Það eru um 10 þúsund ellilífeyrisþega sem hafa ekkert annað fyrir sig að leggja en ellilífeyri og tekjutryggingu," segir Ólafur. "Þessi hópur hefur alls ekki fylgt almennum launahækkunum annarra þjóðfélagshópa. Þarna hefur átt sér stað gliðnun á milli ellilífeyrisþega og t.d. lágmarkslauna sem ekki var til staðar fram til ársins 1995."

Hækkandi verð á þjónustu veldur áhyggjum

En það eru ekki eingöngu tekjumál ellilífeyrisþega sem valda áhyggjum heldur hækkandi verð á þjónustu og ekki síst lyfjum á því tímabili sem um ræðir.

"Við athugun á ýmsum þjónustuliðum sem varða aldraða sérstaklega kemur í ljós að um umtalsverða hækkun er að ræða. Það eina sem ekki hefur hækkað að ráði er afnotagjöld að RÚV og komugjöld á heilsugæslu, sem ber að fagna. En lyf hafa hækkað gríðarlega sem og símakostnaður, strætisvagnagjöld og heimilishjálp. Með tilliti til þessa er það því mikið forgangsmál að leiðrétta kjör eldri borgara."