Þeir sem nú reyna með sprengjutilræðum að hræða Íraka frá því að kjósa eru ekki að berjast gegn Bush og Bandaríkjamönnum þótt þeir fullyrði það. Þeir eru að berjast við landa sína.

George W. Bush heillar engan með ræðusnilld eða bókviti og virkar stundum á mann eins og hann vildi gera flest annað en tjá sig um stjórnmál. Stundum getur verið óbærilega þreytandi að hlusta á hann tönglast á gömlum frösum um gildi frelsisins en hitt er enn verra þegar stjórnmálamenn og fræðimenn gerast svo gáfaðir að þeir hunsa slíkar grundvallarspurningar. Fyrir neðan þeirra virðingu, skyldi maður halda af svipnum.

Á að stuðla að frelsi og lýðræði í löndum araba eða segja að þeir hafi engan áhuga á slíkum uppfinningum, læri þetta aldrei? Það er ekki merki um innsæi og snilld að líta svo á að arabar verði um alla framtíð að búa við harðstjórn og vanþróun, það er miklu frekar merki um fordóma. Oft vildum við helst geta sleppt því að skipta okkur af flóknum samfélögum araba en við eigum ekki þann kost. Við deilum heimi með þeim. Algert afskiptaleysi lýðræðisríkja myndi einfaldlega gera hlutina enn verri og ofstækismenn færa samfélög araba aftur á miðaldir með hrikalegum afleiðingum, stanslausum átökum, fólksflótta og neyð. Bandaríkjamenn, jafnt Bush sem keppinautur hans í fyrra, John Kerry, og flestir málsmetandi stjórnmálamenn vestra, vilja snúa við blaðinu, um það eru þeir sammála. Þeir eru hættir að líta svo á að áratuga stuðningur Vesturveldanna við einræði og afturhald í arabalöndum í nafni stöðugleikans sé lausnin. Gamla liðið, vestrænir diplómatar og sérfræðingar sem báru ábyrgð á þeirri gjaldþrota stefnu, reis auðvitað upp og fann því allt til foráttu að nú skyldi reynt að efla lýðræði í Mið-Austurlöndum. Þeim fannst þetta ævintýramennska.

Stuðningsmenn Bush segja að hann hafi sýnt þor til að taka á erfiðum málum og aðrir forsetar hafi ekki heldur þurft að takast á við atburði á borð við árásirnar 2001. Hann hefði auðveldlega getað reynt að sigla lygnan sjó og látið eftirmanni sínum eftir að fást við vanda sem hefði haldið áfram að vaxa. En athyglisvert er að sjá yfirlýsingar sumra ráðamanna í stjórn Clintons sem segja að ef demókratinn Al Gore hefði unnið haustið 2000 myndu Bandaríkjamenn hafa ráðist á Írak. Bara svolítið seinna. Bush bjó ekki til vandann en það kom í hans hlut að reyna að leysa hann.

En Bush hefur gert mörg skelfileg mistök í sambandi við Íraksmálin og þau verstu voru sennilega að láta gersamlega óhæfa menn á borð við Rumsfeld hafa yfirumsjón með jafn flóknu og hættulegu verki og innrásinni og eftirmálum hennar. Dæmin um klunnaháttinn og hrokann eru mýmörg. Svo getur farið að dómur sögunnar um Bush verði harður, hann verði sakaður um að hafa seinkað lýðræðisframförum en ekki flýtt þeim. Sprengjumennirnir í Írak og stuðningsmenn þeirra gætu sigrað í bili og þórðargleði andstæðinga Bandaríkjamanna yrði þá ómæld.

En Bush á sér málsbætur. Hann tók þá hraustlegu ákvörðun að binda enda á ástand sem ekki var hægt að búa við lengur. Fanturinn Saddam var búinn að drepa hundruð þúsunda saklausra manna, var grunaður um að framleiða gereyðingarvopn og hann var stöðug ógn við lífæð efnahagskerfisins í heiminum, olíuna, vegna valdafíknar sinnar, styrjalda og undirróðurs. Þeir sem segja að stríðið hafi snúist um olíu hafa rétt fyrir sér en það er bjálfaleg einföldun í anda marxista að halda því fram að græðgi olíufélaga hafi ein ráðið för. Ástæður innrásarinnar voru fleiri en ein og fleiri en tvær. Vafalaust fannst sumum ráðamönnum að olían væri aðalatriðið, öðrum að stöðva yrði illvirkin, enn aðrir sögðu að meint gereyðingarvopn væru svo mikil ógn að steypa yrði þessum manni.

Hverjir myndu þola mestar þjáningar ef efnahagskerfi heimsins færi um koll vegna valdafíknar manns eins og Saddams sem kæmist til dæmis upp með að stöðva olíuflutninga frá Mið-Austurlöndum með hótunum og stríði til að ná kverkataki á heimsbyggðinni? Auðkýfingar í Bandaríkjunum, Bush, Cheney og olíugengið? Svo sannarlega ekki, þeir myndu hafa sitt að mestu á þurru þótt þeir yrðu fyrir dálitlum skelli. Fórnarlömbin yrðu fyrst og fremst venjulegt launafólk og fátækasta fólkið í löndum sem treysta á aðstoð ríkra þjóða. Aðstoðin yrði vafalaust það fyrsta sem auðug ríki myndu spara við sig ef um raunverulega heimskreppu yrði að ræða.

Þeir sem nú reyna með sprengjutilræðum að hræða Íraka frá því að kjósa eru ekki að berjast gegn Bush og Bandaríkjamönnum þótt þeir fullyrði það. Þeir eru að berjast við landa sína. Markmiðið er að koma í veg fyrir að beitt sé einfaldri aðferð við að velja leiðtoga, lýðræðislegum kosningum. Hvers vegna ættu þeir sem misstu völdin þegar Saddam var steypt að vilja kosningar? Þeir eru nær allir úr röðum fimmtungs írösku þjóðarinnar, súnní-araba, sem hafa frá stofnun ríkisins fyrir um 80 árum ráðið þar lögum og lofum og hunsað réttindi sjía-araba og Kúrda. Lýðræði í Írak væri sögulegur endapunktur við þessa kúgun minnihlutans á meirihlutanum, eins og bandaríski fréttaskýrandinn Thomas L. Friedman benti nýlega á í The New York Times. Kosningarnar sem stefnt er að í lok mánaðarins verða ófullkomnar vegna hryðjuverkahættunnar en samt skref í rétta átt. Þeir sem gera lítið úr þeim og sjá ekkert nema gallana ættu að útskýra hvað þeir vilji í staðinn. Vilja þeir Saddam aftur til valda, fleiri fjöldagrafir í nafni stöðugleikans?

Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is