Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir fjallar um utanríkisstefnu Íslands: "Ráðherrarnir hafa hins vegar í ákafa sínum gleymt einu grundvallaratriði, sem stjórnvöld í Washington og London gleymdu ekki: Að fá stuðning löggjafans við ákvörðun sinni og gjörðum."

HALLDÓRI Ásgrímssyni og Davíð Oddssyni ætlar seint að skiljast að einhliða ákvörðun þeirra um að styðja innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak þann 20. mars 2003 mun fylgja þeim eins og skugginn það sem eftir lifir af stjórnmálaferli þessara tveggja manna. Stuðningurinn er hvorki geymdur né gleymdur eins og kom skýrt fram í nýlegri könnun Gallup en hún sýndi að 84% Íslendinga vilja ekki tilheyra stuðningsliði innrásarinnar í Írak.

Nýjasta útspilið

Nýjasta útspil forsætisráðherrans í þessu máli er yfirlýsing gefin í kjölfar ummæla Guðna Ágústssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, um að Halldór og Davíð þyrftu að verja þessa ákvörðun, ekki hann, enda hefði hann ekki tekið hana. Í yfirlýsingunni segir Halldór Ásgrímsson að Íraksmálið hafi verið á dagskrá ríkisstjórnarfundar 18. mars 2003 og í kjölfar hans hefðu hann og Davíð Oddsson ákveðið að styðja innrásina. Nánari upplýsingar um umræður ráðherranna á þessum ríkistjórnarfundi er ekki að hafa.

Gott og vel. Málið var reifað í ríkisstjórn en enn er óljóst með hvaða hætti og eftir stendur að engin formleg samþykkt var gerð á umræddum ríkisstjórnarfundi. Hvernig sem þessir menn reyna að bera í bætifláka fyrir þau stórpólitísku mistök að styðja innrásina í Írak þá er niðurstaða máls alltaf hin sama: Ákvörðun ráðherranna tveggja um að styðja innrásina var aldrei borin undir Alþingi, aldrei borin undir utanríkismálanefnd (þrátt fyrir lög þar um), og þar að auki tekin í óþökk þorra landsmanna.

Sannleikurinn um utanríkismálanefnd

Halldóri Ásgrímssyni hefur orðið tíðrætt um að Íraksmálið hafi verið margrætt þennan örlagaríka vetur á Alþingi. Staðreyndin er sú að málefni Íraks voru rædd tvisvar á fundi utanríkismálanefndar fyrir innrásina. Fyrst 19. febrúar 2003 sem dagskrárliður um stöðu málsins í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og skýrslu Hans Blix um framgang vopnaeftirlits í Írak. Og svo 12. mars þegar þingsályktunartillaga Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs var afgreidd í nefndinni. Tillaga um að styðja innrásina í Írak var aldrei borin upp á fundi utanríkismálanefndar. Það var svo þegar Íslendingar höfðu frétt það frá útlöndum að þeir væru á "lista hinna viljugu og vígfúsu" að stjórnarandstaðan bað um fund í nefndinni og fékk, 21. mars 2003.

Vendipunkturinn?

Í fréttaviðtali 17. mars 2003, daginn fyrir nefndan ríkisstjórnarfund, sagði þáverandi utanríkisráðherra: "Ég hef verið þeirrar skoðunar að það ætti að gefa vopnaeftirlitsmönnunum meiri tíma til þess að vinna sín verk. Það er hins vegar augljóst að Bretar og Bandaríkjamenn eru þeirrar skoðunar að þessi tími sé útrunninn...". Var þetta vendipunkturinn? Að Bandaríkjamenn og Bretar teldu tímann út runninn? Er íslensk utanríkisstefna ekki veigameiri en svo að þegar vinaþjóðir og stórveldi komast að einhverri niðurstöðu þá hljótum við að komast að henni líka. Ráðherrarnir hafa hins vegar í stuðningsákafa sínum gleymt einu grundvallaratriði, sem stjórnvöld í Washington og London gleymdu ekki: Að fá stuðning löggjafans við ákvörðun sinni og gjörðum. Þannig virðist gangvirki lýðræðisins hafa, þrátt fyrir allt, virkað hjá Bush og Blair en uppi á Íslandi þurftu ráðherrarnir tveir engan að spyrja um þá ákvörðun að styðja innrásina í Írak.

Þórunn Sveinbjarnardóttir fjallar um utanríkisstefnu Íslands

Höfundur situr í utanríkismálanefnd Alþingis.