Halldór Ásgrímsson
Halldór Ásgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af hverju eru ljósvakamiðlarnir að leggja Framsóknarflokkinn í einelti vegna Íraksstríðsins?

Af hverju eru ljósvakamiðlarnir að leggja Framsóknarflokkinn í einelti vegna Íraksstríðsins? Það er varla hægt að tala um annað en einelti í þessu sambandi, því að allar upplýsingar um það, hvernig íslenzk stjórnvöld tóku ákvörðun sína í málinu, eru komnar fram eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segir réttilega í samtali við Morgunblaðið í gær.

Það hefur ekki farið fram hjá framsóknarmönnum, að helztu eigendur 365-fjölmiðlasamsteypunnar hafa gert sér dælt við þá um skeið og gert þeim ýmislegt til hæfis. Þeim hefur líkað það vel.

Þeim mun meiri eru vonbrigði framsóknarmanna, þegar þeir eru nú lagðir í einelti af þessum sömu fjölmiðlum. Vafalaust á það eftir að hafa einhverjar afleiðingar. Hverjar þær verða er annað mál.

Ekki eru vonbrigði framsóknarmanna minni vegna háttsemi ríkisfjölmiðlanna. Þeir hafa tekið þátt í eineltinu á hendur framsóknarmönnum.

Þrátt fyrir, að það eru framsóknarmenn, sem hafa árum saman komið í veg fyrir, að sjálfstæðismenn hristu rækilega upp í RÚV.

Það er spurning, hvort framsóknarmennirnir verða jafn áhugasamir um að koma í veg fyrir umbætur hjá RÚV héðan í frá eins og hingað til.

Á síðustu árum hefur ný stétt stjórnmálatækna komið fram á sjónarsviðið á Vesturlöndum. Á tungu engilsaxa eru þeir kallaðir "spin doktorar". Framsóknarmenn hafa komið sér upp slíkum sérfræðingum. Framferði ljósvakamiðlanna síðustu daga er hins vegar til marks um að "spin doktorum" Framsóknarflokksins hefur mistekizt.

Þess vegna má gera ráð fyrir að framsóknarmenn hugsi sitt þessa dagana.