Saurbær: Stjarnan 70 ára Hvoli. UNGMENNAFÉLAGIÐ Stjarnan í Saurbæ minntist 70 ára starfsafmælis síns með glæsilegri afmælishátíð í félagsheimilinu Tjarnar lundi nokkru fyrir jólin, en félagið var stofnað 1. desember 1917.

Saurbær: Stjarnan 70 ára Hvoli.

UNGMENNAFÉLAGIÐ Stjarnan í Saurbæ minntist 70 ára starfsafmælis síns með glæsilegri afmælishátíð í félagsheimilinu Tjarnar lundi nokkru fyrir jólin, en félagið var stofnað 1. desember 1917. Voru stofnfélagar 24 en fyrsti formaður félagsins var Markús Torfason frá Ólafsdal.

Í lögum félagsins segir m.a. um tilgang þess að reynt skuli af alefli að vekja löngun hjá æskulýðnum til þess að starfa fyrir sig, land sitt og þjóð, að reyna af fremsta megni að styðja allt það sem þjóðlegt er og horfir hinni íslensku þjóð til gagns og sóma, og leggja stund áað fegra og hreinsa móðurmálið. Þarna endurspeglast m.a. vel sú þjóðernisvakning, sem átti sér stað meðal landsmanna á þessum tímaog ungmennafélögin í landinu áttu svo stóran þátt í að efla. Og ekki vantaði áhugann á því að vinna að framgangi ýmissa mála hjá félagsmönnum Stjörnunnar og á fyrsta ári var til að mynda hafin útgáfa á blaði á vegum félagsins, er nefndist "Leiftur". Voru gefin út nokkur blöð á ári og þau lesin á fundum félagsins. Í árslok var svo fenginn maður til að ritdæma blöðin og völdust til þess ekki ómerkari menn en skáldin Stefán frá Hvítadal og Jóhannes úr Kötlum, en þeir voru báðir búsettir í sveitinni á þessum árum og einnig Steinn Steinarr, sem ólst upp í Saurbænum.

En saga félagsins verður ekki frekar rakin hér, en hún er merk og margbreytileg og félagið hefur stuðlað að margvíslegum framfaraog menningarmálum í sveit og héraði og verið lyftistöng í félagslegri starfsemi allri svo og íþrótta- og tómstundastarfi á meðal unga fólksins og hefur sá þáttur starfseminnar verið fyrirferðarmestur mörg hin síðari ár. En annars hefur félagið látið sig varða hin margvíslegustu mál í gegnum tíðina, húsnæðismálin voru ofarlega á baugi og félagsheimilið Tjarnar lundur er í eigu ungmennafélagsins ásamt kvenfélagi sveitarinnar og hreppsfélagsins og hefur farið stækkandi með árunum. Í dag standa yfir breytingar og stækkun á félagsheimilinu, sem verða til mikilla hagsbóta fyrir alla félagsstarfsemi.

Þá hefur félagið komið sér upp góðum íþróttavelli og skógrækt hefur verið ofarlega á verkefnalist anum og er skógarreitur félagsins í Þverfellshlíð gott dæmi um þýðingu slíks framtaks og þar hafa raunar verið höggvin jólatré síðustu árin vegna grisjunar skógarins.

Leikstarfsemi var mikil á vegum félagsins og sjónleikir settir á svið nær því árlega um langt árabil, heimilisiðnaður var eitt af verkefnum félagsins og var m.a. keyptur vefstóll í samvinnu við kvenfélagið til að sinna því starfi, skóla- og fræðslumál voru einnig hugleikin félagsmönnum - og þannig mætti lengi áfram telja.

Afmælisfagnaður félagsins fór hið bezta fram og var til mikils sóma þeim aðilum, sem að stóðu. Gestir sátu veizlu og skemmtiatriði fóru fram í umsjá nokkurra ungmennafélaga og var í tali og tónum rakin saga félagsins og brugðið á gamanmálum og varð þetta í heild hin ágætasta skemmtun og var stiginn dans að lokum.

Margar góðar gjafir bárust félaginu í tilefni afmælisins, m.a. frá Saurbæjarhreppi, Kaupfélagi Saurbæinga, Ungmennasambandi Dalamanna og Norður-Breiðfirð inga, UMF Ólafi Pá og UMF Dögun, leikfélaginu "Lítið eitt" og fleiri aðilum og margir stigu í ræðustól og árnuðu félaginu heilla og færðu góðar gjafir. Núverandi formaður félagsins, Þórólfur Sigurðsson, stjórnaði samkomunni.

- IJH

Morgunblaðið/Ingiberg J. Hannesson

Þær sáu um veitingarnar: Svanhvít Gísladóttir, Bryndís Karlsdóttir, Hugrún Reynisdóttir, Elsa Birna Björnsdóttir, Margrét Kristjánsdóttir og Helga Kristjánsdóttir.

Þessir ungmennafélagar báru hitann og þungann af skemmtiatriðum og dagskrá hátíðarinnar: Bragi J. Ingibergsson, Ingimar Sigurðsson, Skafti Steinólfsson, Karl Sigurðsson og Þórólfur Sigurðsson formaður félagsins.