29. desember 1992 | Innlendar fréttir | 269 orð

Ingvar Vilhjálmsson útgerðarm. látinn

Ingvar Vilhjálmsson útgerðarm. látinn INGVAR Vilhjálmsson útgerðarmaður lést á aðfangadag jóla, 24. desember, á 91. aldursári. Hann var einn af kunnustu athafnamönnum landsins og brautryðjandi í sjávarútvegi. Ingvar fæddist 26. október 1899 í Dísukoti í...

Ingvar Vilhjálmsson útgerðarm. látinn

INGVAR Vilhjálmsson útgerðarmaður lést á aðfangadag jóla, 24. desember, á 91. aldursári. Hann var einn af kunnustu athafnamönnum landsins og brautryðjandi í sjávarútvegi.

Ingvar fæddist 26. október 1899 í Dísukoti í Djúpárhreppi Í Rangárvallarsýslu, sonur hjónanna Vilhjálms Hildibrandssonar bónda og járnsmiðs og Ingibjargar Ólafsdóttur húsfreyju. Hann hóf sjómennsku á opnum skipum á 17. aldursári, lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1926 og starfaði sem stýrimaður og skipstjóri til 1935 en hóf þá útgerð, fiskkaup og fiskverkun í Reykjavík og víðar um landið, þar á meðal síldarsöltun á Norðurlandi. Árið 1944 stofnaði Ingvar Ísbjörninn hf. og var aðaleigandi og forstjóri hans. Hann stofnaði Sunnuver hf. á Seyðisfirði 1962 og var stjórnarformaður þess fyrirtækis til 1977 þegar það sameinaðist Ísbirninum ásamt Síldarverksmiðjunni Hafsíld hf. sem Ingvar stofnaði 1965.

Um tíma var Ingvar varafulltrúi í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann átti sæti í stjórnum ýmissa af stærstu fyrirtækjum landsins, svo sem Eimskipafélags Íslands 1967-1984 og var varaformaður þess frá 1976, Olíuverslunar Íslands frá 1949-1982, Sjóvár 1958-1985, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna 1954-74 og Coldwater Seafood Corporation dótturfyrirtækis SH 1964-70. Auk þess sat hann í stjórnum ýmissa samtaka og starfaði í fjölmörgum nefndum og ráðum í tengslum við útgerð og fiskiðnað. Þar má nefna setu í Sjóog verslunardómi Reykjavíkur, í sjávarútvegsnefnd, í útgerðarráði Reykjavíkur, í stjórn Landsambands íslenskra útvegsmanna, og í stjórn Vinnuveitendasambands Íslands, þar af sem varaformaður í nokkur ár.

Ingvar var sæmdur stjörnu stórriddara 1979. Hann var kjörinn heiðursfélagi VSÍ 1982.

Ingvar kvæntist Áslaugu Jónsdóttur árið 1935 en hún lést 24. desember 1968. Eftirlifandi börn þeirra eru Jón stjórnarformaður SH og Sigríður fulltrúi Sotheby's á Íslandi.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.