Fundur um fjárfestingar í sjávarútvegi?
MEÐ ÞEIM efnahagslegu breytingum og frelsi í viðskiptum sem fyrirsjáanlegar eru á næstunni mun spurningin um fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegi án efa verða meira áberandi í þjóðfélagsumræðum, segir í fréttatilkynningu frá FUJ. Félag ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og Alþýðuflokksfélagið í Reykjavík heldur fund um málið á Kornhlöðuloftinu í Bankastræti í dag, fimmtudaginn 28. janúar, kl. 17.30 til 21.
Frummælendur verða Einar Oddur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hjálms á Flateyri, Logi Þormóðsson, framkvæmdastjóri Tross hf. í Keflavík, Pétur Bjarnason, framkvæmdastjóri Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda og Pétur Reimarsson, framkvæmdastjóri Árness hf. í Þorlákshöfn.
Fundarstjóri verður Össur Skarphéðinsson, þingmaður og formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis.
Á fundartíma verður gert stutt súpuhlé og borið fram kaffi á eftir. Fundurinn er öllum opinn.