Tilbúnar tillögur um stofnun heildarsamtaka iðnaðarins Rekstrarkostnaður félaganna lækki um 30% við sameiningu TILLÖGUR liggja nú fyrir um sameiningu samtaka atvinnurekenda í iðnaði í ein heildarsamtök sem kæmu í stað núverandi félaga og samtaka.

Tilbúnar tillögur um stofnun heildarsamtaka iðnaðarins Rekstrarkostnaður félaganna lækki um 30% við sameiningu

TILLÖGUR liggja nú fyrir um sameiningu samtaka atvinnurekenda í iðnaði í ein heildarsamtök sem kæmu í stað núverandi félaga og samtaka. Verða þær kynntar í félögunum á næstu vikum. Er stefnt að því að tillögurnar verði síðan lagðar fyrir aðalfundi félaganna til afgreiðslu í mars til maí og að stofnfundur nýrra heildarsamtaka iðnaðarins verði haldinn í september þannig að þau geti hafið starfsemi um næstu áramót. Markmið sameiningarinnar er að búa til einn málsvara fyrir iðnaðinn í landinu, efla þjónustu við félagsmenn og að draga úr kostnaði. Tillögurnar gera ráð fyrir að félagsgjöld verði 0,15% af veltu og er það markmið sett með sameiningunni að rekstrarkostnaður aðildarfélaga lækki um 30%, skv upplýsingum Sveins Hannessonar, framkvæmdastjóra Félags íslenskra iðnrekenda.

Árlegur rekstrarkostnaður þeirra samtaka sem hafa átt í undirbúningsviðræðunum nemur um 150 milljónum króna.

Framkvæmdastjórar Félags íslenskra iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna, Verktakasambands Íslands og Félags íslenskra prentiðnaðarins hafa að undanförnu unnið að gerð tillagnanna. Gert er ráð fyrir að samtökin verði opin fyrir aðild fyrirtækja og sjálfstæðra atvinnurekenda í framleiðslu og þjónustu sem tengjast iðnaði. Verða iðngreina- og meistarafélög væntanlega aðilar að samtökunum ef þau kjósa það fremur en einstakir rekstraraðilar og fara félögin þá með atkvæðisréttinn innan samtakanna fyrir hönd félagsmanna sinna. Er gert ráð fyrir að samtökin verði aðili að VSÍ.

Fleiri samtök skoða aðild

Í gær komu forystumenn Meistara- og verktakasambands byggingarmanna og Sambands málm- og skipasmiðja á fund undirbúningsaðilanna til að skoða hugsanlega aðild þeira að samtökunum.

Gerð hefur verið rekstraráætlun fyrir samtökin og samin drög að lögum fyrir þau auk áætlunar um aðdraganda og stofnun samtakanna.

Gert er ráð fyrir að stjórn samtakanna verði skipuð sjö mönnum. Formaður verði kosinn árlega en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára í senn

Tillögurnar verða kynntar fyrir stjórnum samtakanna á næstunni en Landssamband iðnaðarmanna hefur þegar hafið kynningu á þeim meðal sinna félagsmanna.

Morgunblaðið/Kristinn

Unnið að stofnun heildarsamtaka iðnaðarins

FORYSTUMENN félaga og samtaka í iðnaði hittust í gær í húsnæði Landssambands iðnverkafólks til að leggja lokahönd á þau drög sem nú liggja fyrir um stofnun heildarsamtaka iðnaðarins sem kæmu í stað núverandi félaga. Verða tillögur hópsins kynntar stjórnum og félagsmönnum á næstu vikum og er stefnt að því að þær verði samþykktar á aðalfundum í mars til maí.