Geta misst laun vegna óveðurs STARFSFÓLK á almennt ekki rétt á launagreiðslu þegar vinna fellur niður vegna óveðurs eða annarra náttúruhamfara. Geta vinnuveitendur því fellt starfsfólk af launaskrá tímabundið vegna óviðráðanlegra ástæðna, s.s. óveðurs eða...

Geta misst laun vegna óveðurs

STARFSFÓLK á almennt ekki rétt á launagreiðslu þegar vinna fellur niður vegna óveðurs eða annarra náttúruhamfara. Geta vinnuveitendur því fellt starfsfólk af launaskrá tímabundið vegna óviðráðanlegra ástæðna, s.s. óveðurs eða tímabundins hættuástands, t.d. snjóflóðahættu, á grundvelli laga um uppsagnarfrest. Þetta kemur fram í nýútkomnu fréttablaði VSÍ, Af vettvangi.

Í blaðinu er bent á að í tilfellum sem þessum eigi starfsmenn almennt rétt á atvinnuleysisbótum á meðan þetta ástand varir en í nokkrum kjarasamningum hafi verið samið um breytingar á þessum reglum, þannig að til launagreiðslu geti komið þrátt fyrir ófærð eða óveður. Þetta gildi t.d. skv. samningum við Samband byggingarmanna, Félag starfsfólks í húsgagnaiðnaði og kjarasamningi um virkjunarframkvæmdir á vegum Landsvirkjunar.