Kammer plús Tónlist Jón Ásgeirsson Ungir tónlistarmenn, sem kennimerkja sig með nafninu Kammer plús, héldu tónleika upp á loftinu yfir Café Sólon Íslandus, sl. þriðjudag og fluttu eingöngu tónverk eftir Francis Poulenc.

Kammer plús Tónlist Jón Ásgeirsson Ungir tónlistarmenn, sem kennimerkja sig með nafninu Kammer plús, héldu tónleika upp á loftinu yfir Café Sólon Íslandus, sl. þriðjudag og fluttu eingöngu tónverk eftir Francis Poulenc. Listamennirnir voru Hallfríður Ólafsdóttir, Þórunn Guðmundsdóttir, Ármann Helgason, Rúnar Vilbergsson og David Knowles.

Fyrsta verkið var dúó-sónata (1922) fyrir klarinett og fagott, skemmtilegt verk, sem Ármann og Rúnar léku ágæta vel. Flautusónatan fræga (1956) var næst á efnisskránni og þar léku Hallfríður og David. Nokkuð skyggði á að flygillinn er ekki góður og vart nothæfur til tónleikahalds. Margt var fallega gert og sérstaklega leikur Hallfríðar í öðrum þætti verksins, »Cantilenunni", sem er yndisleg og vandleikin tónsmíð.

Þórunn Guðmundsdóttir söng lagaflokk (1940) við ljóð Apollonaires en þessi fimm lög söng Þórunn mjög vel og auðheyrt að henni lætur sérlega vel að syngja og túlka nútímasönglög. Lokaverkið var klarinettusónatan (1962) og var leikur Ármanns mjög góður, sérstaklega í mið þættinum, Rómönsunni. David Knowles lék með í öllum nema fyrsta verkinu og var leikur hans í heild góður, þó hann þyrfti að kljást við ómögulegt hljóðfæri.

Þetta er fyrsta sinn sem undirritaður kemur á tónleika á Sólon Íslandus-loftinu og þrátt fyrir að salurinn sé bæði fallegur og vel hljómandi, truflar enduróman umferðarinnar mjög mikið og einnig gestaniðurinn frá kaffihúsinu. Líklega verður erfitt að útiloka enduróman umferðarinnar með öllu en hins vegar mætti minnka gestaniðinn og umfram allt að fá betri flygil og þá mætti hugsanlega halda þarna ágætis kammertónleika.