Bílar Toyota á toppnum Rætt við Boga Pálsson framkvæmdastjóra P. Samúelssonar um yfirgnæfandi markaðshlutdeild fyrirtækisins á bílamarkaði og endalausa skattheimtu ríkisins Á LIÐNU ári var P.

Bílar Toyota á toppnum Rætt við Boga Pálsson framkvæmdastjóra P. Samúelssonar um yfirgnæfandi markaðshlutdeild fyrirtækisins á bílamarkaði og endalausa skattheimtu ríkisins

Á LIÐNU ári var P. Samúelsson með 21,3% af heildarsölu bifreiða og velta fyrirtækisins var um 3 milljarðar króna. Lengi vel hefur ekkert annað bílaumboð verið með jafn yfirgnæfandi markaðshlutdeild. Bogi Pálsson framkvæmdastjóri þakkar árangurinn fyrst og fremst áherslu fyrirtækisins á langtímastefnumörkun, þar sem áhersla er öðru fremur lögð á stöðugleika og góða þjónustu til að skapa nánari tengsl við viðskiptavini. Þrátt fyrir þetta er Bogi ekki ánægður með framkvæmd mála á bílamarkaði. Hann hefur ákveðnar hugmyndir um skattheimtu ríkisins og tolla á bílum, sem hann telur allt of háa. Bogi leggur til breytingar á skattheimtunni sem allir eigi að geta hagnast á, hvort sem það eru neytendur eða ríkið.

Síðastliðin 5 ár hafa japanskir bílar, Toyota og Mitsubishi, verið með mesta markaðshlutdeild hér á landi. Bogi segir þetta mjög óvenjulegt miðað við önnur Evrópulönd þar sem japanskir bílarframleiðendur eru u.þ.b. með 12% samanlagt. Hér á landi hefur það hins vegar verið um 70% undanfarin ár.

Aðspurður um hvort EES kæmi til með að styrkja evrópska bíla á markaðnum hér sagðist Bogi ekki búast við að svo yrði. Verð á bílum ætti ekki að breytast hlutfallslega en hins vegar hefðu stjórnvöld ákveðið að setja ytri tolla á bílavarahluti sem koma utan Evrópu. Verðbreytingarnar munu verða mismiklar en t.d. munu hjólbarðar frá löndum EES lækka um 3,2% en hækka um 5,2% frá löndum utan EES, stærsti flokkurinn "varahlutir ýmsir" lækka um 1,9% frá löndum EES en hækka um 5,4% frá löndum utan EES.

Ekki selt á of lágu verði

Bogi segir núverandi markaðshlutdeild fyrirtækisins hafi náðst fyrst og fremst vegna langtímastefnumörkunar. "Undir slagorði fyrirtækisins Tákn um gæði hefur verið lögð áhersla á að byggja upp innviði fyrirtækisins til að geta tekist á við aukna sölu áður en farið var á markaðinn með áhlaupi. Við höfum aldrei reynt að selja bílana of lágt verðlagða en með því að byggja upp tengsl við viðskiptavinina, byggja upp þjónustuna og haga vöruvalinu í samræmi við þarfir kaupendanna þá hefur markaðshlutdeildinn aukist jafnt og þétt.

Í lok síðastliðins árs sömdu Flugleiðir við Heklu um kaup á 100 bílum sem koma til afgreiðslu á árinu en áður hafði Toyota verið með þann samning. M.a. vegna þessa var Bogi spurður að því hvort hann teldi að markaðshlutdeild P. Samúelssonar kæmi til með að haldast á þessu ári. Bogi sagðist búast við að svo yrði nærri lægi. "Þrátt fyrir að Hekla hafi nú gert samning við Flugleiðir um sölu á 100 bílum þá tel ég að skiptingin á markaðnum komi ekki til með að breytast verulega."

Aukinn hagnaður

Reglulega hefur sá orðrómur gengið að staða fyrirtækisins P. Samúelssonar sé ekki jafn sterk og menn vilji vera láta. Toyota-bílarnir séu dýrir í innkaupum og því hafi fyrirtækið ekki haft mikla möguleika á álagningu til að þeir seldust. Erfitt sé því að láta enda ná saman. Bogi hafnar alfarið þessum orðrómi og segir að fyrirtækið standi mjög vel. "Vissulega hefur fyrirtækið farið í gegn um ýmis skeið. Það hafa verið góð ár og slæm ár, en undanfarin ár hafa verið mjög góð. Á árinu 1992 voru t.d. ekki seldir neinir bílar á lágu verði og hagnaður jókst töluvert frá árinu 1991, þó að þá hafi einnig verið auking á hagnaði frá fyrra ári. Helstu kennitölur okkar reikninga eru vel yfir meðaltali fyrirtækja í landinu.

Ég tel að sögur um veika stöðu Toyota séu að mörgu leyti tilkomnar vegna þess að við fengum fjármögnunarfyrirtækið Glitni til að fjármagna fyrir okkur lager notaðra bíla í fyrra, sem var á annað hundrað milljóna króna. Svo virtist sem hann væri kominn til að vera, ekki bara hjá okkur heldur einnig hjá öðrum bílaumboðum. Því fengum við Glitni til að fjármagna lagerinn til að liggja ekki uppi með fjárskuldbindingar í notuðum bílum og á þennan máta gat Toyota orðið leiðandi í að lækka verð notaðra bíla. Þetta var í anda langtímastefnumótunar okkar og á eftir hafa notaðir bílar skilað okkur prýðilegri afkomu.

Mér skilst reyndar að Toyota sé nú ekki lengur eina bílaumboðið sem lætur fjármagna sinn lager á þennan máta, enda er þetta mjög hagkvæmur kostur.

Búist við enn frekari samdrætti í bílainnflutningi

Bogi segir að bílar virðist vera auðveld bráð fyrir hið opinbera til tekjuöflunar. Mikill samdráttur var í sölu bíla í fyrra og búist er við enn frekari samdrætti á þessu ári. Að sögn Boga er gert ráð fyrir að bílasalan fari niður í um 7.000 bíla sem er um 1.000 bílum færra en á liðnu ári.

Hann segir hina mikla aukningu í bílasölu á árinu 1986 hafa komið í kjölfar mikilla breytinga á tollum og bifreiðagjöldum. "Þetta var liður í því að ná saman kjarasamningum það árið. Nú er skattlagning hins vegar orðin mjög svipuð og hún var fyrir lækkunina þannig að sú kjarabót er að mestu horfin. Það sem er óeðlilegast í tengslum við þetta að hið opinbera stjórnar bílumkaupum og vali landsmanna með skipulegum hætti. Óeðlileg skattlagning hefur þau áhrif að raunverulegur verðmismunur fær ekki að ráð vali neytands þar sem mismunandi tollaflokkar breyta verðmuninum mjög mikið. Þannig er það ákveðið af hálfu stjórnvalda að Íslendingar kaupi t.d. frekar minni bíla en stærri þar sem þeir eru í hærri tollaflokki. Dæmi eru um tvær bíltegundir sem munar 400-500 þúsund á innkaupsverði að munurinn verði á þriðju milljón í útsöluverði einungis vegna mismunandi tolla og vörugjalda," segir Bogi.

Hann telur að með auknum álögum hafi ríkið tapað þar sem bílasala dregst meira saman en efni standi til. Fólk sé í auknum mæli farið að leggja bílnunum sínum og bílum í umferð hefur fækkað. Þá sé mikið um gamla bíla í umferðinni sem tími sé kominn til að endurnýja en mörgum sé það ógerlegt. "Ríkið hefur því þann möguleika í komandi kjarasamningum að endurtaka að hluta til leikinn frá árinu 1986. Þá urðu reyndar of miklar breytingar á skömmum tíma og gjaldeyriseyðslan varð of mikil. En með hógværari breytingum t.d. lægri bifreiðagjöldum og einfaldari flokkunum þeirra geta allir grætt. Endurnýjun bíla yrði eðilileg, skatttekjur myndu aukast hjá ríkinu, vísitölunni yrði haldið niðri og kaupmátturinn myndi hækka. Ég er hins vegar sannfærður um að þetta myndi ekki auka þenslu í þjóðfélaginu þar sem einungis þeir sem nauðsynlega þurfa að endurnýja bílana myndu gera það."

Ósáttur við reglur um virðisaukabíla

Ný lög og reglur um virðisaukaskattsbíla sem tóku gildi um áramótin segja að þeir skuli merktir sérstaklega og megi ekki nota þá utan atvinnustarfsemi. Þrátt fyrir að hinar nýju reglur geti leitt til aukinnar sölu á bílum þá telur Bogi þetta ekki heppilega lausn. "Eigandi lítils fyrirtækis með bíl fyrir rekstur fyrirtækisins á að skilja hann eftir á vinnustað á kvöldin og fara á sínum eigin bíl heim. Því þarf hann að kaupa sér bíl til eigin nota og það skapar mikið óhagræði og aukinn kostað sem á bæði bitnar á fyrirtækinu og hinum sjálfstæða atvinnurekanda."

Bogi segir að í staðinn fyrir þessar reglur eigi kerfið að vera líkt og í Þýskalandi. Þar borgar sá sem hefur not af bílnum hlunnindaskatt af notkuninni í staðinn fyrir þann kostnað sem losnar við ef hann hefði keypt bíl sjálfur. "Í heildina leiðir þetta til betri nýtingar fjármagns og minni gjaldeyriseyðslu þjóðarinnar," segir Bogi Pálsson framkvæmdastjóri P. Samúelssonar.

ÁHB

mbl/Sverrir

FRAMKVÆMDASTJÓRINN - Bogi Pálsson framkvæmdastjóri P. Samúelssonar. "Fyrir nokkrum árum var um 20-30% af kaupendum nýrra bíla sem vildu láta eldri bílana upp í en á sl. árum hefur þetta hlutfall farið upp í 60-80%."