Fiskveiðar Dönsk fiskvinnsla fær verkefni í Óman Í OLÍURÍKINU Óman við Persaflóa er nú ráðgert að leggja mikla peninga í að færa útgerð og fiskvinnslu í nútímalegt horf.

Fiskveiðar Dönsk fiskvinnsla fær verkefni í Óman

Í OLÍURÍKINU Óman við Persaflóa er nú ráðgert að leggja mikla peninga í að færa útgerð og fiskvinnslu í nútímalegt horf.

Áætlanir stjórnvalda í Óman ganga út á að byggja þrjár stórar og sex minni hafnir fyrir fiskveiðiskip meðfram ströndinni, sem er um 1.700 km löng. Við hafnirnar á síðan að reisa frystihús, ísverksmiðjur og annan vinnslubúnað. Auk þessa má gera ráð fyrir að fiskvinnslufyrirtæki í einkaeign þurfi á stærri veiðiskipum að halda og fullkomnari búnaði. Að lokum fela áætlanir einnig í sér áform um menntun og starfsþjálfun flestra þeirra sem að sjávarútvegi koma í Óman.

Fyrirtæki í danskri fiskvinnslu og iðnaði hafa tekið höndum saman um þátttöku í áætluninni. Þegar hefur verið skipulögð dönsk-ómönsk fiskiráðstefna þar sem dönsk fyrirtæki munu kynna framleiðslu sína og sérþekkingu. Í kjölfar hennar gera forsvarsmenn dönsku fyrirtækjanna sér vonir um að ná í drjúgan skerf af heildarfjárfestingu upp á ríflega 30 milljarða ÍSK.

Í dag starfa um 16.000 manns í Óman við veiðar og er gert út með um 8.800 skipum og bátum. Árið 1990 var heildarafli sem kom á land 119.000 tonn en talið er að aflinn geti farið upp fyrir 400.000 tonn á ári. á árinu 1990 voru 33.000 tonn flutt út, aðallega túnfiskur og humar, en verðið var lágt þar sem aðallega var um óunna vöru að ræða.