Fyrirtæki Bryndís sér um allt í hófið ALLT í hófið er nafn á nýju fyrirtæki sem Bryndís Valgeirsdóttir hefur nýverið sett á laggirnar með það fyrir augum að taka að sér veisluráðgjöf og þjónustu þar að lútandi.

Fyrirtæki Bryndís sér um allt í hófið

ALLT í hófið er nafn á nýju fyrirtæki sem Bryndís Valgeirsdóttir hefur nýverið sett á laggirnar með það fyrir augum að taka að sér veisluráðgjöf og þjónustu þar að lútandi. "Ég hef verið að velta þessari hugmynd fyrir mér í talsverðan tíma og nú er komið að því að hrinda henni í framkvæmd," sagði Bryndís í samtali við Morgunblaðið.

Bryndís er þessa dagana að vinna að því að ná samböndum við ákveðna aðila sem hjálpa til eftir eðli hvers verkefnis, s.s. blómaskreytingafólk, matreiðslu- og framleiðslufólk. "Ég stefni að því að vera með góða breidd þannig að veisluráðgjöfin henti sem flestum," sagði hún. Aðspurð sagðist Bryndís ekki telja að samsvarandi fyrirtæki væru til hér á landi. "Ég mun ráðleggja fólki varðandi framkvæmdina, skipuleggja veisluhöldin og halda utan um það sem gera þarf. Hins vegar sé ég ekki um að elda matinn eða þess háttar," sagði Bryndís, sem hefur ákveðna reynslu af því að skipuleggja veislur eftir að hafa rekið veitingahús í þrjú ár og séð um framkvæmd Elite fyrirsætukeppninnar í sex ár.

Allt í hófið mun leitast við að halda verði í lágmarki með því að ná eins góðum samningum og mögulegt er við þá verktaka sem kallaðir eru til hverju sinni. "Hér er um að ræða tímafreka vinnu, en að sama skapi er það tímasparandi fyrir viðskiptavini að nýta sér þjónustuna. Allt í hófið getur veitt aðstoð sína hvort sem um er að ræða lítið boð í heimahúsum eða fjölmenna veislu í stórum veislusölum þar sem hver sem er getur hringt inn og fengið tilboð í ákveðið verk."

Draumastaðan er sú að sögn Bryndísar, að eiga nokkra fasta viðskiptavini, m.a. fyrirtæki, sem gætu þá jafnvel fengið þjónustu með styttri fyrirvara en ella.

VEISLUHALD - Bryndís Valgeirsdóttir hefur stofnað fyrirtækið Allt í hófið þar sem áhersla verður lögð á veisluráðgjöf. "Svona þjónusta er mjög tímasparandi fyrir þá sem notfæra sér hana," segir Bryndís.