Hlutabréf Vaxandi áhugi á Marel VIKUNA 20-26. janúar voru skráð hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands og Opna tilboðsmarkaðnum fyrir rúmlega 3,5 milljónir króna. Mest seldist af hlutabréfum í Marel hf. eða fyrir rúmlega 1 milljón króna á genginu 2,6 en sú...

Hlutabréf Vaxandi áhugi á Marel

VIKUNA 20-26. janúar voru skráð hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands og Opna tilboðsmarkaðnum fyrir rúmlega 3,5 milljónir króna. Mest seldist af hlutabréfum í Marel hf. eða fyrir rúmlega 1 milljón króna á genginu 2,6 en sú sala fór í gegn um Landsbréf.

Davíð Björnsson hjá Landsbréfum segir að áhugi á hutabréfum í Marel hafi aukist mjög mikið eftir að fréttir bárust af því að tæki frá fyrirtækinu hafi vakið mikla athygli á sýningu fyrir kjúkingaiðnað í Bandaríkjunum í síðustu viku.

Hann segir að mikið hafi verið um fyrirspurnir um á hvaða verði sé hægt að fá hlutabréf í fyrirtækinu. "Verð á bréfunum í Marel er mjög svipað og það var um áramótin, um 2,60-2,62, á meðan hlutabréf í fyrirtækjum almennt hafa lækkað um u.þ.b. 5%," segir Davíð.

Hátt í milljón seld í Olíufélaginu

Hlutabréf seldust í 9 öðrum fyrirtækjum. Í Eimskipi seldust bréf fyrir 100 þúsund á genginu 4,1, Olíufélaginu fyrir 924 þúsund á 4,7-5,0, Íslenska útvarpsfélaginu fyrir 254 þúsund á 1,95, Tryggingamiðstöðinni fyrir 120 þúsund á genginu 4,8, Útgerðarfélagi Akureyringa fyrir 131 þúsund á 3,5, Granda fyrir 302 þúsund á 2,25, Olís fyrir 410 þúsund á 1,80-1,95, Hlutabréfasjóðnum fyrir 273 á 1,3 og í Sæplasti fyrir 28 þúsund á genginu 2,80, sem en 0,4 lægra en við síðustu sölu.