Sjávarafurðir Norðurfang í Hafnarfirði með samning við Pierre Cardin NORÐURFANG hf. í Hafnarfirði hefur náð samningi til fimm ára við franska stórfyrirtækið Pierre Cardin um heimild til að nýta sér vörumerkið Maxim's til markaðssetningar á fiskafurðum.

Sjávarafurðir Norðurfang í Hafnarfirði með samning við Pierre Cardin

NORÐURFANG hf. í Hafnarfirði hefur náð samningi til fimm ára við franska stórfyrirtækið Pierre Cardin um heimild til að nýta sér vörumerkið Maxim's til markaðssetningar á fiskafurðum. Pierre Cardin starfrækir verslanir, hótel og veitingastaði í mörgum löndum undir merkinu Maxim's þar sem afurðir frá Norðurfangi munu njóta forgangs en jafnframt gerir samningurinn ráð fyrir að hægt sé að selja vörurnar til annarra aðila undir þessu merki. Hann var undirritaður í París þann 13. janúar sl. Pierre Cardin er stórt fyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða og einkum þekkt fyrir tískuvörur af ýmsu tagi. Það veltir árlega um 800 miljörðum íslenskra króna.

Forráðamenn Norðurfangs komust í samband við fulltrúa Pierre Cardin á vörusýningu í Mílanó í október og að undangenginni athugun á gæðum afurða var gengið til samninga. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Norðurfangs, segist vona að pökkun afurða í umbúðir undir merki Maxim's geti hafist innan tveggja mánaða. Hins vegar fer fyrsta prufusendingin út í dag. "Það gæti tekið fimm ár að tryggja stöðu okkar á þessum markaði þó svo hér sé um gott vörumerki að ræða. Ef þetta á að takast þurfum við hins vegar að vinna heimavinnuna okkar mjög vel. Við erum núna að skoða það með okkar samstarfsaðilum hvaða möguleikar eru fyrir hendi því við erum alls ekki í stakk búnir til að annast framleiðsluna einir. Maxim's mun annast alla hönnun umbúða en í fyrstu verða sendar út prufur sem síðan verða grundvöllur pantana."

Samningurinn gerir ráð fyrir að hægt verði að pakka í umbúðir undir merki Maxim's humri, rækju, lúðu, ýsu, þorski, karfa, löngu, þorskhrognum, skötu, síld og sjávarréttasalötum. Einnig kemur til greina að selja reyktan og grafinn fisk og verið er að skoða hvort grundvöllur sé fyrir því að framleiða vörur úr fiskroði undir merki Pierre Cardin. Ólafur tók fram að vegna þess hve vinnsla á roði sé komin skammt á veg hér á landi þurfi að útvega unnið roð erlendis frá. "Við bindum vonir við að selja til Maxim's veitingastaðanna og verslana. Að stærstum hluta erum við milliliðir en berum alla ábyrgð á gæðum þeirrar framleiðslu sem frá okkur fer. Það ætti að fást tiltölulega gott verð fyrir vöruna því henni verður einkum beint til fólks í millistétt."

Ólafur er einnig framkvæmdastjóri fyrirtækisins Norðurfisks þar sem unnið hefur verið að þróun á búnaði til að nýta fiskafganga auk þess sem fyrirtækið hefur flutt út nokkuð af saltfiski. Meðeigandi hans í því fyrirtæki er Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga.