Torgið Músin snýr leiknum sér í hag Í The Economist var nýlega fjallað um mál málanna í flugheiminum þessa dagana, - erjurnar á milli British Airways (BA) og Virgin Atlantic-flugfélagsins sem er í eigu auðmannsins Richards Branson.

Torgið Músin snýr leiknum sér í hag Í The Economist var nýlega fjallað um mál málanna í flugheiminum þessa dagana, - erjurnar á milli British Airways (BA) og Virgin Atlantic-flugfélagsins sem er í eigu auðmannsins Richards Branson. Málið, sem hefur vakið mikla athygli víða um heim, gengur í stuttu máli út á það að stjórnendur BA voru uppvísir að því að hafa beitt vægast sagt óeðlilegum aðferðum við að laða til sín viðskiptavini Virgin. Þeir brutu sér leið inn á tölvukerfi Virgin til að afla sér upplýsinga um viðskiptavini og réðu fólk til að bera út óhróður um félagið. M.a. létu þeir að því liggja að ákveðnum flugferðum Virgin hefði verið aflýst og hvöttu fólk til að panta í staðinn hjá BA. Þá svertu þeir nafn Virgin-flugfélagsins á ýmsan máta og komu af stað sögusögnum um að það stæði fjárhagslega á brauðfótum.

Að því kom að Richard Branson fékk nóg og kærði BA til yfirvalda í Bretlandi. Niðurstöður urðu þær að stjórnendur BA þurftu að biðja Branson opinberlega afsökunar og greiða um 60 milljónir íslenskra króna í skaðabætur. Enn er ekki komið í ljós hvort Branson lætur þar við sitja eða fer lengra með málið. Hann hefur t.d. hótað því að leggja það fyrir sérstakan dómstól Evrópubandalagsins þar sem hart er tekið á óréttmætum viðskiptaháttum, eða jafnvel kæra BA fyrir yfirvöldum í Bandaríkjunum þar sem bæði félögin eru með viðskipti. Þar er einnig tekið hart á málum sem varða myndun og starfsemi auðhringja og einokunarsamtaka og myndi umrætt mál án efa falla undir þá skilgreiningu. Fari svo að málið hafni fyrir dómstólum í Bandaríkjunum má vænta þess að draumar BA um eignarhlut í USAir verði úr sögunni.

Í hnotskurn snýst málið þannig um leikreglur samkeppninnar í viðskiptum, þ.e. um viðskiptasiðferði sem er mjög á dagskrá víða um heim. Hér á landi vöknuðu slíkar spurningar um viðskiptasiðferði þegar danska skipafélagið Royal Artic sleit samstarfi við Samskip og samdi í þess stað við Eimskip á dögunum. Í umræddri grein í The Economist er því velt upp hvenær yfirvöld skuli grípa inn í átök samkeppnisaðila. Í grófum dráttum er því svarað til að þau skuli látin óátalin á meðan neytendur hagnist, t.d. í ljósi lægra verðs eða betri þjónustu, þó svo að annað fyrirtækið skaðist svo að rekstrinum sé stefnt í hættu. Tekið er dæmi af því að Microsoft-hugbúnaðarframleiðandinn sé nú undir smásjá yfirvalda í Bandaríkjunum vegna þess að fyrirtækið hefur fangað marga tölvuframleiðendur í net sín með því að bjóða þeim afslátt langt umfram það sem minni hugbúnaðarframleiðendur geta boðið. Enn sem komið er sjá menn ekkert athugavert við þessa viðskiptahætti þar sem neytendur hagnist á lægra verði. Ef hins vegar Microsoft-tækist að koma keppinautunum fyrir kattarnef og hækkaði verðið eftir að vera komið í einokunarstöðu horfði málið öðruvísi við. Stjórnvöld eiga samkvæmt þessu að gera skýran greinarmun á því að vernda hagsmuni neytenda og hagsmuni smærri fyrirtækja sem telja sér ógnað.

Málið snýr sem sagt öðruvísi þegar harka samkeppninnar er farin að skaða neytendur og þá er talið að kominn sé tími fyrir yfirvöld að grípa inn í. Þessi stefna krefst þess að stjórnendur fyrirtækja hafi þá framsýni til að bera að sjá hvert stefni í aðgerðum þeirra til að lokka til sín viðskiptavini samkeppnisaðila. Þessa framsýni skortir stjórnendur BA með afleiðingum sem ekki enn eru að fullu ljósar. Það er hins vegar ljóst að fjölmargir viðskiptavinir töldu sér freklega misboðið vegna aðgangsharðrar sölumennsku flugfélagsins.

Innan Evrópubandalagsins eru skýr ákvæði um hvernig bregðast skuli við óréttmætum viðskiptaháttum og hvenær yfirvöld eiga að grípa inn í. Oft eru slík mál talin brot við lögum um myndun og starfsemi auðhringja og einokunarsamtaka. Hér landi munu mál af þessu tagi heyra undir ný lög um samkeppnismál sem bíða samþykktar á Alþingi. Að sögn Georgs Ólafssonar, verðlagsstjóra, mun samkvæmt nýju reglunum verða tekið á málum sem varða óréttmæta samkeppnishætti með svipuðum hætti og í löndum innan Evrópubandalagsins.

Það er tímabært að þessi lög nái fram að ganga. Sökum smæðar íslensks þjóðfélags er brýnt að hafa hér fastar reglur sem allir þurfa að lúta, burtséð frá stærð, samkeppnistöðu og hagsmunatengslum viðkomandi. Hér á landi hafa í gegnum tíðina of oft komið upp álitamál af þessu tagi - þar sem kötturinn og músin takast á, og oftast á þeim nótum að kötturinn hefur fengið frið til að leika sér að músinni. Með aðstoð yfirvalda sneri músin hins vegar á köttinn í Bretlandi við almenna ánægju almennings.

HKF