Minning Auður Helga Samúelsdóttir Fædd 20. desember 1941 Dáin 15. janúar 1993 Í dag, 28. janúar 1993, verður jarðsungin og borin til grafar frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði, kær vinur og trúsystir, sem flestum er minnisstæð sitjandi í hjólastólnum sínum í mormónakirkjunni. Auður skírðist sem meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu 26. ágúst 1987 ásamt manni sínum Sverri Lúthers.

Það hafði sterk áhrif á mig að sjá lamaða konu ganga hægt upp þrepin og ofan í skírnarlaugina studda af tveim trúboðum sem stóðu með henni í vatninu. Í þessi sex ár sem hún hefur verið meðlimur hrakaði heilsu hennar jafnt og stöðugt, lömunin ágerðist, og stigarnir urðu erfiðir yfirferðar í kirkjubyggingunni á Skólavörðustíg 46 svo að bera þurfti allan stólinn með henni í, upp og niður stiga. Hún leit fram til þess dags er kirkjan fengi nýja kapellu á jarðhæð og hún gæti keyrt beint inn í kirkjusalinn. Manni fannst eins og þegar hjólastóllinn var viðstaddur þá fyrst væri kirkjan verulega fyllt.

Systir Auður átti við erfiða lífsbaráttu að stríða í ofanálag við lömunina sem dró hana til dauða. Hjartað gaf sig að lokum. Þó var hún blíðlynd og kaus að tala um gleði og fegurð, trú og von. Hún var tónhneigð og ljóðelsk og naut þess að hlusta á fallegan söng og á þeirri bylgjulengd sameinuðumst við sem vinir ásamt manni hennar og fjölskyldu. Það er sárt að vita til þess að lömuð ung kona í hjólastól hafði haft unun af dansi og lært ballett. Lífsreynsla hennar hafði einnig kennt henni að sætta sig við að þrjú af sjö börnum hennar voru þroskaheft. Eitt barna hennar dó í æsku. Hún bað mig að syngja yfir sér, þegar hún væri öll, einmitt lagið "Söknuður".

Mér finnst ég varla heill né hálfur maður

og heldur ósjálfbjarga, því er ver.

Ef værir þú hjá mér, ég vildi glaður

verða betri en ég er.

Eitt sinn verða allir menn að deyja.

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það, en samt ég verð að segja,

að sumarið það líður allt of fljótt.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Auður var fjórða af fimm börnum foreldra sinna, þeirra Margrétar Hannesdóttur og Samúels Kristinssonar við Langholtsveg í Reykjavík. Ólst hún upp í foreldahúsum ásamt systkinum sínum, Hönnu, Jóni Val, Elsu og Margréti. Auður og Sverrir Lúthers hófu búskap sinn í Reykjavík en fluttust til Hafnarfjarðar og bjuggu þar á fjórum stöðum, síðast á Hellisgötu 16.

Hún lætur eftir sig sex börn og fimm barnabörn, það sjötta er enn ófætt. Börn hennar eru: Garðar, María, Guðmundur Bragi sem er kvæntur og býr í Færeyjum, Grétar, faðir eins barnabarnanna, Reynir og Sigurður Rúnar.

Það var mér sérstakt gleðiefni að fá, ásamt eiginmanni hennar, leyfi til að smyrja höfuð hennar vígðri olíu og veita henni blessun Drottins, eins og gert var á dögum Nýja testamentisins (Jakobsbréf 5:14), rétt áður en hún var flutt inn á sjúkrahús þar sem hún dó nokkrum stundum síðar.

Blessuð sé minning hinnar látnu systur. Hvíldin er huggun eftir langa sjúkdómsreynslu en söknuðurinn er alltaf viðkvæmur. Sjálfur færi ég vinum mínum á Hellisgötu 16, Sverri og fjölskyldu, mínar innilegustu samúðarkveðjur með þessum sálmaversum:

Ó, þegar ég með öðrum augum sé

aftur þau spor, sem hér á jörðu sté,

skil það, sem ekki skiljanlegt þá var,

skil, að mig trúr og góður hirðir bar.

Ó, þegar fæ ég heyrt hans hlýju raust,

hjá honum dvelja má ég endalaust.

Ó, þegar sjálfur segir Jesús mér,

sorgir hvers vegna oft mig beygðu hér.

Ó, þegar ég við æðri og fegri sól

allt fæ að sjá, er húm og skuggi fól.

Ljóst mér þá verður, leitt að hafði sá,

leiðina vel er þekkti byrjun frá.

(Elínborg Guðmundsdóttir)

Ólafur Ólafsson

öldungasveitarforseti Kirkju Jesú Krists.