Jón Oddgeir Jónsson - viðbót Þá er Væringinn Jón Oddgeir Jónsson "farinn heim" eins og gjarnan er tekið til orða þegar skáti fellur frá. Líklega hafa fáir Íslendingar lagt eins mikið til samfélagsins og Jón Oddgeir Jónsson. Hann gerðist skáti 1921 og var þá 16 ára. Það má með sanni segja að "Eitt sinn skáti ávallt skáti" hafi átt við Jón Oddgeir. Hann starfaði ávallt í anda skátahugsjónarinnar og ævistarf hans var í raun byggt á þeirri grein skátalaganna sem segir: Skáti er hjálpsamur. Fyrir utan ómetanleg störf fyrir skátahreyfinguna, ferðaðist hann um landið þvert og endilangt og kenndi mönnum skyndihjálp og fræddi um slysavarnir. Hann skrifaði fjölda bóka og greina um þessi mál og ef nefna skal einhverja einstaklinga sem mestan þátt eiga í forvarnarstarfi í slysavörnum til lands og sjávar, þá hlýtur nafn Jóns Oddgeirs Jónssonar að vera nefnt. Hann var erindreki Slysavarnafélagsins og Rauða krossins, starfsmaður Krabbameinsfélagsins og starfaði einnig hjá Umferðarnefnd. Bækur hans Hjálp í viðlögum voru nær eina kennsluefnið í skyndihjálp í fjölda ára. Þá gaf hann út í mörg ár drengjablaðið "Úti" sem var einnig skátablað, þar sem áhersla var lögð á útiveru og fræðandi greinar um margvísleg málefni.

Skátafélagið Hraunbúar í Hafnarfirði mun ætíð minnast hans með virðingu og þökk. Það var Jón Oddgeir sem hafði forgöngu um stofnun Skátafélags Hafnarfjarðar árið 1925. Hann var þá foringi í Væringjum og lagði á sig ómælt erfiði og kom um langan tíma vikulega til Hafnarfjarðar og hætti ekki fyrr en félagið var formlega stofnað 22. febrúar 1925.

Félagið starfaði vel í nokkur ár, en síðan kom mikil lægð og starfið féll í dvala. En Jón Oddgeir kom aftur til skjalana 1938 og átti mikinn þátt í endurreisn félagsins. Það má því með sanni segja að Hraunbúar eigi honum mest tilveru sína að þakka. Hann fylgdist ávallt vel með félaginu og gladdist yfir velgengni þess.

Jón Oddgeir hefur örugglega verið hvíldinni feginn eftir áralangan heilsubrest. Það er erfitt til þess að hugsa að þessi mikli útivistarmaður og hreystimenni var nær rúmfastur í mörg ár. En orðstír hans mun lifa meðal okkar og Hraunbúar munu ávallt minnast hans sem frumkvöðuls skátastarfs í Hafnarfirði og eins síns besta sonar.

Innilegar samúðarkveðjur eru sendar eftirlifandi eiginkonu hans, Fanneyju Jónsdóttur, sem hefur staðið eins og klettur við hlið hans í erfiðum veikindum í fjölda ára.

Skátafélagið Hraunbúar.