Bjarni Th. Guðmundsson - viðbót Þegar svo stórt skarð hefur verið höggvið í fjölskylduna sem missir afa er, rifjast upp gamlar minningar um hann og Þuríði Guðnadóttur ömmu okkar sem lést fyrir rúmum fimm árum.

Afi og amma fluttust til Reykjavíkur 1965 í Sólheimana þar sem við eigum okkar fyrstu minningar um þau. Það var gott að koma til þeirra. Amma lumaði alltaf á einhverju góðu handa "blessuðum börnunum" og afi lagaði leikföngin okkar eða smíðaði ný því hann var mjög laginn í höndum. Ófáar stundirnar sátum við börnin við eldhúsgluggann á 11. hæðinni, horfðum niður á iðandi borgarlífið, sem virtist ævintýralega smátt, og ræddum við afa og ömmu um lífið og tilveruna.

Þegar við urðum eldri kenndi afi okkur að tefla og spila vist og var spilað hvenær sem tækifæri gafst.

Afi og amma höfðu yndi af að ferðast. Á góðviðrisdögum var oft lagt upp með nesti í tveggja bíla samfloti í styttri og lengri ferðir, svo sem til Þingvalla eða upp í Rauðanes. Þegar afi og amma voru komin fast að áttræðu óku þau á bíl sínum með okkur á æskustöðvar sínar á Skagaströnd og Vestfjörðum. Var þá sem þau yrðu ung í annað sinn. Í þessum ferðum var alltaf vinsælast að vera í afabíl, en þar varð allt ennþá meira spennandi. Þessar ferðir skilja eftir dýrmætar minningar.

Árið 1975 fluttust afi og amma upp í Breiðholt svo að auðveldara væri fyrir okkur að viðhalda tíðum heimsóknum og í ársbyrjun 1987 voru þau svo heppin að fá íbúð í Seljahlíð sem er í næsta nágrenni okkar. Amma lést eftir tæplega ársdvöl þar og naut þá afi mikils styrks frá starfsfólki og nágrönnum. Hann bjó þar í tvö ár til viðbótar, en síðustu þrjú ár ævinnar dvaldist hann á Borgarspítalanum þar sem hann naut mjög góðrar aðhlynningar sem starfsfólk á B-5 á þakkir skilið fyrir.

Í mörg ár hrakaði heilsu afa smám saman, hann varð máttfarinn og gat vart lengur tjáð sig né lesið. En hugsunin var skýr, alltaf ljómaði hann þegar við komum í heimsókn og hann hélt furðuvel færni sinni í að spila vist þótt hann gæti ekki lengur haldið á spilum. Vegna þessa heilsubrests einangraðist hann frá umheiminum, en hann sýndi mikla þrautseigju og undi sér löngum við útvarp og hljóðbækur frá Blindrabókasafninu.

Við kveðjum ástkæran afa með þakklæti fyrir allar samverustundirnar. Það var okkur ómetanlegt að eiga svo góðan afa og ömmu, þau kenndu okkur margt sem við munum alltaf búa að. Blessuð sé minning þeirra.

Kristín, Heiðrún, Bjarni

og Þuríður Anna.