Sveinn Ólafsson - viðbót Elskulegur tengdafaðir minn í 30 ár, Sveinn Ólafsson, hefur kvatt þennan heim, saddur lífdaga. Hugur minn hverfur til baka, til þess tíma er ég bæjarstúlkan, kom fyrst inná heimili tengdaforeldra minna, sem var mjög frábrugðið því sem ég átti að venjast, en á þeim tíma var gott bú á Snælandi, svín, kindur, hænsni, kýr, o.fl. Var ég hálfsmeyk við allar skepnurnar.

Á Snælandsjörðinni bjó öll fjölskyldan saman og komum við daglega í eldhúsið hjá tengdamömmu til skrafs og ráðagerða. Í þessu góða skjóli urðu börnin okkar þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp í nábýli við dýrin og elsku afa og ömmu. Sveinn var sívinnandi en hafði þó alltaf tíma fyrir okkur öll með sína léttu lund, gamanvísur og spaug, hjá honum þekktist ekki kynslóðabil. Aldrei styggðaryrði þó að hamagangurinn og hávaðinn keyrði stundum úr hófi. Ég tel það mína mestu lífsgæfu að hafa átt Guðnýju og Svein sem voru mér sem móðir og faðir og félagar.

Mjög gestkvæmt var á Snælandi og veitt af mikilli rausn og oftar en ekki dvaldi frændfólk frá Borgarfirði Eystri langdvölum hjá þeim hjónum. Alltaf gaf Sveinn sér tíma fyrir það, vann þá bara fram eftir nóttu við þau störf sem þurfti að sinna. Fyrir 20 árum þegar Vestmannaeyjagosið varð, seldu þau Guðný og Sveinn jörðina, m.a. fyrir viðlagasjóðshús. Síðar flytjast þau svo frá Snælandi og í íbúðir fyrir aldraða í Vogatungu og voru það þung spor, sem þau báru með reisn.

Elsku Guðný, Guð gefi þér styrk. Ég kveð tengdaföður minn með virðingu og þökk.

Sigríður Vilborg

Guðmundsdóttir.