Jón Oddgeir Jónsson - viðbót Fyrir rúmum sex áratugum starfaði öflugur hópur ungra hugsjónamanna innan Skátafélagsins Væringja í Reykjavík. Þessi hópur vann merkilegt brautryðjendastarf á sviði björgunarmála. Leiðtogi þeirra var Jón Oddgeir Jónsson, sem nú er farinn heim.

Aðstæður voru þá allt aðrar en nú, löggæslan fámennari, samgöngukerfið ófullkomið, lítið um að almenningur ætti farartæki og búnaður til ferðalaga af skornum skammti svo eitthvað sé nefnt. Oft var leitað til þessa skátahóps ef aðstoðar var þörf, t.d. þegar einhver týndist. Þá var skjótt brugðist við og allt gert til hjálpar sem mögulegt var. Skátunum varð fljótlega ljóst að full þörf var fyrir hjálparþjónustu af þessu tagi. Það var síðan eftir Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930, þar sem þeir önnuðust mikilvægt hjálparstarf, að þeir ákváðu að koma á fót sérstakri sveit skáta sem væri ávallt viðbúin að bregðast við í neyðartilfellum. Þeir hófust þegar handa með undirbúning og tveimur árum síðar, árið 1932, varð fyrsta Hjálparsveit skáta til. Sveitin var síðar kennd við Reykjavík. Hugmyndin að sveitinni var alíslensk, enda hvergi annars staðar starfandi sérstakar hjálparsveitir skáta. Hjálparsveit skáta átti því 60 ára afmæli á síðasta ári.

Jón Oddgeir Jónsson var sjálfkjörinn sveitarforingi hjálparsveitarinnar í tvo áratugi. Hann var leiðtoginn, hugsuðurinn og hugsjónamaðurinn á bak við starfið. Fyrir það framlag Jóns eru margir þakklátir. Hjálparsveitin, sem upphaflega áttu engan búnað, er nú ein öflugasta björgunarsveit landsins. Hún á fullkomnasta björgunarbúnað sem völ er á og félagar hennar fá þjálfun sem hvergi gerist betri. Grundvöllinn að þessu starfi lagði Jón Oddgeir ásamt félögum sínum fyrir rúmum sex áratugum.

Jón Oddgeir Jónsson var áhugamaður um margt, en þó sérstaklega mannúðarmálefni. Fáir gera sér grein fyrir að trúlega var Jón sá Íslendingur sem með störfum sínum hefur bjargað hvað flestum mannslífum. Hann var ekki aðeins frumkvöðull að störfum íslenskra björgunarsveita, heldur hafði hann forgöngu um að fræða almenning um skyndihjálp, eða hjálp í viðlögum eins og Jón kaus að kalla fræðsluna. Jón var sérfræðingur á þessu sviði. Hann hóf útgáfu kennslubóka fyrir almenning og var bókin "Hjálp við viðlögum" endurútgefin margoft með nauðsynlegum breytingum og nýjungum. Jón Oddgeir kenndi hjálp í viðlögum um árabil, bæði í skólum, stofnunum og á vegum félagasamtaka. Af mikilli elju hóf hann að kenna Íslendingum lífgun úr dauðadái með blástursaðferðinni. Með sanni má segja ða þetta framtak hans hafi tekist afar vel, því fjölmörgum mannslífum hefur verið bjargað með þessari aðferð. Síðar hóf hann að kynna hjartahnoð.

Jón Oddgeir Jónsson var einstakur hugsjónamaður. Störf hans að félagsmálum og skyndihjálparfræðslu verða seint metin að fullu. Hann starfaði ekki aðeins fyrir skátahreyfinguna og hjálparsveitina, heldur einnig fyrir ýmis önnur félagasamtök. Má þar nefna Slysavarnafélagið, Krabbameinsfélagið og Rauða krossinn. Þess má geta að forseti Íslands sæmdi hann fálkaorðunni fyrir störf í þágu mannúðarmála.

Félagar Hjálparsveitar skáta í Reykjavík minnast nú frumherjans með sérstöku þakklæti. Við sendum eftirlifandi eiginkonu, syni, tengdadóttur og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur.

Hjálparsveit skáta í Reykjavík.