Jón Páll Sigmarsson - viðbót Mig langar að minnast Jóns Páls vinar míns með örfáum orðum. Ég kynntist Jóni Páli fyrst er hann kom á æfingastaðinn Jakaból í Laugardal. Þar fylgdist hann með okkur gömlu brýnunum fyrst um sinn og hreifst mjög af. Hóf hann sína fyrstu æfingu í framhaldi af því og var nokkuð sterkur strax í byrjun. Samt datt mér ekki í hug á þeim tíma að þetta yrði sterkasti maður heims. Ég sá strax að þarna var maður sem hafði alla burði, líkamlega og ekki síður andlega, til að verða afburða íþróttamaður.

Jón Páll var með geðbestu mönnum sem ég hef á lífsleiðinni kynnst, hvort heldur í blíðu eða stríðu, ég minnist þess t.d. ekki að hafa nokkurn tíma sé hann reiðan.

Ég ætla ekki að fara út í að tíunda afrek hans, þau eru öllum kunn. Ég verð samt að nefna það að hann var einn fyrstur íslenskra íþróttamanna á sviði kraftíþrótta er hafði raunverulegt erindi í keppnir við erlenda kraftíþróttamenn.

Ég minnist þess sérstaklega í hans persónuleika hversu einlægur hann var, er lýsti sér t.d. sérstaklega í framkomu hans gagnvart börnum. Á mótum, jafnt sem á aflraunasýningum, hampaði hann gjarnan börnum sérstaklega, hélt á þeim, gantaðist við þau og lét þau finna til sín. Börnin fengu það á tilfinninguna að hann væri jafnvel fyrst og fremst að taka á fyrir þau, hann var ekki eingöngu að höfða til athygli þeirra er eldri voru. Ég tel þennan eiginleika lýsa mjög vel persónuleika Jóns Páls, því hvar endurspeglast betri hinn innri maður en í því hvernig hver og einn kemur fram gagnvart barnssálinni?

Jón Páll var glæsilegur á velli og margs er að minnast frá keppnisferðum okkar. Minnisstæðust er þó ferð okkar til Kalkútta á Indlandi. Við vorum staddir í miðborginni er við urðum vitni af kröfugöngu tugþúsunda manna. Áður höfðum við verið varaðir við því að vera á ferli vegna fyrirhugaðrar mótmælagöngu, en forvitnin varð varkárninni yfirsterkari og fórum við því út. Skyndilega vorum við umkringdir aragrúa Indverja, fát kom á göngumenn, er augun börðu þennan ljósa risa. Fólkið flykktist kringum okkur og ég sá þann kost vænstan að troða mér þétt að hlið Jóns Páls. Jón Páll brást þannig við að hann brosti sínu heillandi brosi, tók nokkrar léttar vöðvasýningar og bræddi hjörtu múgsins. Það sem í fyrstu virtist ætla að verða skelfileg lífsreynsla, snerist upp í stórkostlegar fagnaðarundirtektir múgsins við hverja vöðvahnykkingu Jóns Páls.

Jón Páll var ósérhlífinn gagnvart félögum sínum á keppnisferðum. Í því sambandi minnist ég t.d. Evrópumóts í kraftlyftingum í Zürich, er hann í orðsins fyllstu merkingu bar einn félaganna, er meiðst hafði í kepninni, á höndum sér um alla Zürichborg. Það var skondið að sjá upplit borgarbúa er þeir mættu þarna einu stykki 125 kg víking með smækkaða útgáfu af víking, þ.e. 90 kg í fanginu.

Ég vil hér nota tækifærið og koma á framfæri kveðjum frá Sverri Hjaltasyni er nú býr í Bandaríkjunum og hefur ekki tækifæri á að koma og kveðja Jón Pál hinstu kveðju. Með þessum fáu orðum vil ég kveðja vin minn Jón Pál. Ég votta syni Jóns Páls, foreldrum og vinum mína dýpstu samúð.

Skúli Óskarsson.