Minning María Gísladóttir Fædd 8. maí 1898 Dáin 15. janúar 1993 Í dag kveð ég langömmu hinsta sinni. Margs er að minnast. Langamma var mikil kona, sterk, ákveðin og jafnvel eilítið stjórnsöm. Hún var sem drottning í ríki sínu meðan hún bjó á Laugaveginum, sérstaklega á jólunum. Jólin voru tími langömmu, það fannst mér alltaf. Þá safnaðist öll fjölskyldan saman á Laugaveginum og mikið var um dýrðir. Langamma var svo gestrisin, alltaf var til nóg af kökum og öðru góðgæti á heimili hennar. Ég man ekki eftir að hafa komið til hennar án þess að fá kökur og mjólk. Og langamma bakaði af hjartans list þar til hún var komin á 91. aldursár.

Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum var talið að langamma færi að kveðja. En hún ein vissi, að svo var ekki. Hún var einfaldlega ekki reiðubúin að kveðja þennan heim. Hún átti meira eftir. Þá vissi ég að langamma færi ekki fyrr en hún sjálf væri tilbúin. Þannig var langamma, sterk og baráttuglöð. Og þannig mun ég minnast hennar.

En í dag er langamma tilbúin, hún kveður í sátt og knýr dyra í hinu eilífa ríki Guðs.

Lækkar lífdaga sól.

Löng er orðin mín ferð.

Fauk í faranda skjól,

fegin hvíldinni verð.

Guð minn, gefðu þinn frið,

gleddu' og blessaðu þá,

sem að lögðu mér lið.

Ljósið kveiktu mér hjá.

(H. Andrésd.)

Ég bið þig, Guð, að láta þitt eilífa ljós vaka yfir langömmu. Megi minning hennar lifa að eilífu.

Hrafnhildur S. Mooney.