Húsráð sem geta bjargað fríinu

Það kannast flestir við að dvelja í sumarbústað eða airbnb-íbúð þar sem virðist gjörsamlega allt vanta í eldhúsið. Hérna höfum við tekið saman nokkur skotheld ráð til að bjarga sér með þegar allir skápar virðast tómir og engin tæki eða tól nærtæk til að redda sér með.

Enginn pískur

Það er alveg glatað að ætla að henda í eina góða eggjahræru á sunnudagsmorgni en engan písk er að finna. Þá má redda sér með því að nota gaffal, verkið er kannski aðeins hægar unnið, en það er betra en ekkert.

Bitlausir hnífar

Ef enginn hnífur með þokkalegu biti finnst, og ekkert brýni sjáanlegt, má grípa kaffibolla, snúa honum á hvolf og nota grófa hringinn á botninum á bollanum til þess að brýna hnífinn.

Enginn dósaopnari

Þá má hæglega nota gangstéttina, ef þið eruð ekki úti í sveit það er að segja. Nuddið dósinni við steypuna í gangstéttinni og þá ætti hún opnast nægilega vel til að hægt sé að komast í innihaldið.

Það vantar kökukefli

Ef ekkert kökukefli er á staðnum má alltaf bjarga sér með vínflösku. Því beinni sem flaskan er, því betra.

Enginn tappatogari

Ef enginn tappatogari er á staðnum má redda sér með því að nota skóinn. Best er að nota flatbotna skó með góðum botni. Setjið vínflöskuna í opið á skónum þar sem þið mynduð vanalegast renna tánum inn, og látið flöskuna sitja með botninn niður. Berjið botninum á skónum varlega í vegginn, þá ætti tappinn að losna nægilega vel til að hægt sé að grípa í hann og draga úr flöskuopinu með fingrunum.

Hvergi er sítrónupressu að finna

Ef engin sítrónupressa finnst má vel nota gaffal. Skerið sítrónuna eða appelsínuna í tvennt, stingið gaffli inn í aldinið og grautið fram og tilbaka í ávextinum, yfir skál eða glasi, þar til safinn er að mestu runninn úr.

Engin kaffikanna

Hvaða bústaður er eiginlega án kaffikönnu!? Það er auðvitað algjör hneisa, en það má jú alltaf bjarga sér með potti. Hellið vatni í pott og stráið möluðu kaffi út í pottinn. Náið upp suðu og takið þá pottinn af hellunni. Kaffikorgurinn sekkur til botns og þá má ausa kaffinu ofan af með ausu eða súpuskeið.

Vissir þú að það má brýna hníf með kaffibolla?
Vissir þú að það má brýna hníf með kaffibolla? mbl.is/pinterest
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert