Umhverfisráðherra skenkir ókeypis súpu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Valli

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindarráðherra, mun standa vaktina í súputjaldi Nettó á Menningarnótt. Yfir hundrað kíló af grænmeti og þurrmat fara í súpuna.

Alls verða notuð rúmlega hundrað kíló af grænmeti og öðru hráefni sem alla jafna þykir ekki uppfylla útlitsstaðla eða er komið nálægt síðasta söludegi, í hina geysivinsælu Diskósúpu Nettó sem boðin verður gestum og gangandi á Menningarnótt.

Súpan, sem gestum býðst að kostnaðarlausu, hefur fest sig í sessi meðal gesta Menningarnætur enda verið hluti af hátíðinni um árabil. Tilgangur súpugjafarinnar er að vekja athygli fólks á matarsóun og skapa umræðu um það mikilvæga málefni sem mörgum er hugleikið þessa dagana.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, er meðal þeirra sem vilja vekja máls á meininu og mun því taka sér stöðu meðal súpuskenkjara í Nettótjaldinu.

„Við erum ánægð með að fá umhverfis- og auðlindaráðherra með okkur í lið. Matarsóun er stórt vandamál, en talið er að einn af hverjum þremur innkaupapokum endi í ruslinu. Það þarf alls ekki að vera svoleiðis og súpan okkar er góð áminning um það,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

Nettó hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á að hafa jákvæð áhrif á umhverfið og verið leiðandi í umhverfismálum matvöruverslana hér á landi. Síðastliðna 12 mánuði hefur Nettó til að mynda veitt 200 milljónir króna í afslætti til viðskiptavina, með því einu að merkja þær vörur, sem ólíklegt er að nái að selja fyrir síðasta söludag, sérstaklega „Minni sóun“ og selja á allt að 70% afslætti.

Til samanburðar má nefna að í fyrra nam afslátturinn hundrað og fimm milljónum yfir sama tímabil. „Þetta hefur fallið gríðarlega vel í kramið meðal okkar viðskiptavina en Minni sóunar-merktu vörurnar staldra yfirleitt stutt við. Fólk er orðið meðvitaðra um að það er bæði hagkvæmt fyrir heimilið og jákvætt fyrir umhverfið að nýta sér möguleikann á að kaupa í dag og borða í dag. Við erum ákaflega stolt af því að geta tvinnað þetta saman með þessum hætti,“ segir Gunnar.

Súpan verður í boði frá klukkan 18.00 og meðan birgðir endast.

mbl.is