„Útlitið er vægast sagt svart"

Veitingamenn um allt land eru uggandi yfir ástandinu sem hefur skapast undanfarnar vikur. Dæmi eru um að sala hafi dregist saman um tugi prósenta og margir sjá ekki fyrir sér að komast í gegnum næstu mánaðamót nema eitthvað verði gert af hálfu hins opinbera til að hjálpa til.

„Það segir sig sjálft þegar þú ert með atvinnugrein sem er mjög viðkvæm þá má hún ekki við katastrófu á borð við þá sem er í gangi,“ sagði einn viðmælenda matarvefjarins sem vildi ekki koma fram undir nafni.

Þá sé verið að hugsa í lausnum en fyrirtæki séu misvel í stakk búin til að takast á við aðstæður sem þessar. Annar viðmælandi matarvefjarins segir að verið sé að taka einn dag í einu og meta stöðuna. „Útlitið er vægast sagt svart. Það er ljóst að salan hefur strax dregist umtalsvert saman og ekkert útlit fyrir að lát verði á þeirri minnkun. Auðvitað reynum við að markaðssetja take-away og heimsendingu eftir fremsta megni. Það er alveg ljóst að fyrirtæki þola svona misvel.“

Allt útlit sé fyrir erfið mánaðamót og líkur á að segja þurfi upp fólki vegna samdráttar. „Það gæti endað illa, fólk misst vinnuna og eigendur endað í gjaldþroti. En við höldum í jákvæðnina og treystum á að fólk vilji áfram lifa lífinu. Vonandi varir þessi snarpa niðursveifla stutt og fólk sér að það þarf að halda áfram að versla og nýta sér þjónustu ef það vill að hún sé fyrir hendi. Við getum svo gert ráðstafanir í samræmi við það, breytt afgreiðslutíma og minnkað starfsgildi fólks ef þörf verður á,“ segir veitingamaður í miðborginni sem segir að planið sé að snúa vörn í sókn og hugsa í lausnum.

Enn annar viðmælandi sagðist binda miklar vonir við aðkomu ríkisins. „Þetta er mikið högg og er það í raun launakostnaðurinn sem situr eftir hjá veitingastöðunum. 50%-leiðin sem mér skilst að ríkisstjórnin sé að íhuga mun milda höggið en þetta er fordæmalaus staða og ómögulegt að sjá hvar hún endar.“

Undir þau orð tekur Ólafur Örn Ólafsson sem meðal annars rekur Vínstúkuna Tíu sopa á Laugaveginum. „Það er auðvitað þannig að veitingabransinn er mjög viðkvæmur bransi. Það er yfirleitt mjög lágt hagnaðarhlutfall. Launakostnaður er mjög hár, húsaleiga í miðbænum líka, svo það má ekki mikið út af bregða til að illa fari því það þarf ennþá að borga leigu og annað. Það er lítið um ferðamenn í miðbænum og fólki ráðlagt að halda sig heima svo kúnnahópurinn er farinn, horfinn á einu augabragði,“ segir Ólafur Örn.

Ólafur Örn Ólafsson vínþjónn og félagar sjást hér undirbúa opnun …
Ólafur Örn Ólafsson vínþjónn og félagar sjást hér undirbúa opnun Vínstúkunnar Tíu Sopa. Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert