Taka þátt í pítsukeppni í Las Vegas

Sigmar Vilhjálmsson, liðstjóri ferðarinnar til Las Vegas, og Vilhelm Einarsson.
Sigmar Vilhjálmsson, liðstjóri ferðarinnar til Las Vegas, og Vilhelm Einarsson. Ljósmynd/Aðsend

Vilhelm Einarsson, betur þekktur sem Villi Wilson, mun taka þátt í pítsukeppninni, International Pizza Challenge, í Las Vegas í Bandaríkjunum sem hefst á þriðjudag. 

Vilhelm, sem er einn eigenda 12 Tommunnar í Minigarðinum, mun keppa í flokknum óhefðbundnar pítsur en alls er keppt í fjórum flokkum; hefðbundnar pítsur, óhefðbundnar pítsur, pönnupítsur og napólískar pítsur.

„Við höfum tekið þátt í þessari keppni áður, en árið 2016 höfnuðum við í 4. sæti sem var gríðarlega góður árangur. Í ár er stefnan sett á efstu þrjú, en samkeppnin er eðlilega gríðarlega hörð. Það má segja að allt yfir 20 sætinu sé frábær árangur“, er haft eftir Vilhelm í tilkynningu. 

Pítsan fæst á 12 Tommunum í Minigarðinum
Pítsan fæst á 12 Tommunum í Minigarðinum Ljósmynd/Aðsend

Dómarar keppninnar dæma pítsurnar útfrá ákveðnum mælikvörðum í bragði og framsetningu.

Áleggin á pítsunni sem Vilhelm mun færa fram í keppninni eru tómatsulta með beikonbitum, pepperoni, jalapeno, ostablanda, nachos og chipotle alioli sósa. 

mbl.is