Ofnbakaður kjúklingur og meðlæti að hætti Húsó

Marta María Arnarsdóttir, skólameistari Hússtjórnarskólans sviptir hér hulunni af ofnbökuðum …
Marta María Arnarsdóttir, skólameistari Hússtjórnarskólans sviptir hér hulunni af ofnbökuðum kjúkling með meðlæti, bestu kokteilsósunni sem kemur úr smiðju Hússtjórnarskólans. Sem sagt Húsó-uppskrift. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eins og fram kom á matarvefnum í síðustu viku munu lesendur vefsins á næstu vikum og mánuðum fá að njóta Húsó-uppskrifta á hverjum laugardegi sem koma úr hinu leyndardómsfulla eldhúsi í Hússtjórnarskólanum. Skólameistarinn Marta María Arnarsdóttir sviptir hér hulunni af rétti hefur fylgt Hússtjórnarskólanum gegnum tíðina og glatt mörg matarhjörtu sem á eftir að slá í gegn.

Hér er á ferðinni ofnbakaður kjúklingur og kartöflur, kokteilsósa, salat með ristuðum fræjum og salatosti eins og ömmur okkar gerðu. Heill ofnbakaður kjúklingur er veislumatur og gegnum árin verið vinsæll helgarmatur hjá fjölskyldum. Þessa uppskrift ráða allir við og kjúklingurinn mun bráðna í munni. Kokteilsósan er af betri gerðinni og passar svo vel með kjúklingnum.

Ljúffengt, einfalt og gott á gamla mátann. Kjúklingur og meðlæti …
Ljúffengt, einfalt og gott á gamla mátann. Kjúklingur og meðlæti eins og ömmur okkar gerðu hann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ofnbakaður kjúklingur og kartöflur, kokteilsósa, salat með ristuðum fræjum og salatosti

Kjúklingur í ofni

 • 1 heill kjúklingur

Kryddblanda

 • 3 msk. olía
 • 2 msk. sítrónusafi
 • 1 tsk. paprika
 • 1 tsk. sítrónupipar
 • 1 tsk. kjúklingakrydd
 • 1 tsk. hvítlauksduft 

Aðferð:

 1. Byrjið á því að hita ofninn í 180-200°C hita.
 2. Þvoið kjúklinginn vel úr köldu vatni.
 3. Búið til kryddblönduna og penslið kjúklinginn vel með henni.
 4. Látið kjúklinginn í eldfast mót eða ofnskúffu og bakið í ofni við 180-200°C í um það bil klukkutíma.
 5. Gegnsteikið. 

Ofnsteiktir kartöflubátar

 • 10 bökunarkartöflur
 • 4 msk. olía
 • kartöflukrydd
 • 1 hvítlauksrif
 • ½ tsk. rósmarín 

Aðferð:

 1. Þvoið kartöflurnar og skerið í báta.
 2. Setjið kartöflubátana á bökunarpappír í ofnskúffu.
 3. Kryddið vel með kartöflukryddi, hvítlauksrifi og rósmarín.
 4. Hellið olíunni yfir kartöflurnar og jafnið vel saman kryddi og olíu.
 5. Bakið við 180°C í 30 mínútur.  

Kokteilsósa

 • 200 g sýrður rjómi (1 dós)
 • 100 g majónes (1 dl)
 • 100 g súrmjólk
 • 1 tsk. sinnep
 • 4-5 msk. tómatsósa

Aðferð:

 1. Öllu blandað saman í skál og kryddað, til dæmis aromat, hlynsíróp og sítrónupipar. 

Salat með ristuðum fræjum

 • salat eftir smekk
 • salatostur að eigin vali
 • ristuð sólblómafræ

Ristuð fræ fyrir salatið

 • 1 dl sólblómafræ
 • 1 msk. tamari sósa
 • 1 tsk. sjávarsalt 

Aðferð:

 1. Hitið pönnuna vel.
 2. Hellið 1 dl af sólblómafræjum á þurra pönnuna. Ristið.
 3. Takið pönnuna af hitanum og kælið.
 4. Blandið saman við 1 msk. tamari sósu og 1 tsk. sjávarsalti.
 5. Berið fram ásamt salati og salatosti.
mbl.is