Nú þegar bensín og díselolíuverð rýkur upp er ekki úr vegi að tileinka sér nokkur þjóðráð til að kreista nokkra kílómetra í viðbót út úr hinum dýrmætu eldsneytisdropum. Þessi þjóðráð er að finna á bílavefsíðunni edmunds.com

1 Gott viðhald
Bíll sem fær reglulegt og gott viðhald er ekki einungis öruggur með betri aksturseiginleika, hann er einnig sparneytnari. Stífluð loftsía er nóg til að bíllinn eyði meira en nauðsynlegt er.

2 Réttur loftþrýstingur í hjólbörðum
Ef bíllinn er með of lítinn loftþrýsting í dekkjunum eykst mótstaðan og því er ákaflega mikilvægt að hafa réttan loftþrýsting í dekkjunum það tryggir einnig styttri hemlunarvegalengd. Rannsóknir sýna að hægt er að spara 3,3% af eldsneytiseyðslunni með réttum loftþrýstingi.

3 Léttið bílinn
Óþarfa farangur eða þyngd eykur eldsneytisnotkun. Því er gott að tæma farangursrýmið af óþarfa dóti. 50 kíló geta aukið eldsneytiseyðsluna um 1 til 2 %. Það er líka góð hugmynd að fjarlægja hluti eins og aukafarangursgeymslu á toppnum og toppgrindur sem ekki eru notaðar því slíkt eykur loftmótstöðu.

4 Hugulsamur akstur
Það hjálpar ekki eyðslunni ef aksturslagið er ágengt. Keyrið rólega þannig að ekki sé gefið skyndilega í til að snar bremsa síðan niður, slíkt eyðir orku. Ef ekið er á löglegum hraða milli ljósa eru meiri líkur á að hitta á grænu ljósin og koma þannig í veg fyrir að stöðva og taka af stað að óþörfu. Fyrir hverja 8 km/klst sem ekið er fyrir ofan 100 km hraða eykst eldsneytiseyðslan um 7 %.

5 Keyrið í hæsta mögulega gír
Því minna sem vélin þarf að reyna á sig þeim mun minni eldsneyti eyðir hún, því er mikilvægt að aka í eins háum gír og mögulegt er, sérstaklega á langferðum.

6 Notið hraðastillinguna
Það er notalegt að geta notað hraðastillinguna (cruise control) sérstaklega á flatlendi, annars fer hraðastillingin að gefa inn meira eldsneyti þegar farið er upp brekkur, hugsanlega meira en bílstjórinn sjálfur myndi gefa inn.

7 Þvoið og bónið bílinn
Bíllinn smýgur betur í gegnum loftið ef hann er rennisléttur og gljáandi, skítugur bíll getur eytt allt að 7 % meira.

8 Látið bílinn ekki ganga í lausagangi
Það er freistandi að láta bílinn vera í gangi ef maður þarf rétt að skjótast inn í verslun eða fara með börnin í pössun en bensíndroparnir sparast ef maður drepur á honum.

9 Skrúfið rúðurnar upp
Það getur verið gott að láta hlýja goluna kæla sig á heitum dögum en opinn bílgluggi á þjóðvegi getur aukið vindmótstöðu töluvert, því er frekar mælt með að hafa kveikt á loftkælingu eða kaldri miðstöð.

10 Safnið sendiferðunum saman
Það er hægt að spara marga bensíndropa ef maður skipuleggur snattið og safnar smáerindunum saman í eina ferð. Köld bílvél eyðir helmingi meira eldsneyti og því er töluverður sparnaður fólginn í að nota ferðina á meðan bíllinn er heitur.

Til baka á upphafssíðu