Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) telur að ríkisstjórnin ætti að grípa til aðgerða til að taka þennan skell af íslenskum heimilum. „Hluti af þeim miklu hækkunum hér er heimsmarkaðsþróunin og gengisfall íslensku krónunnar þannig að íslenskir neytendur eru að fá þessa hækkun af töluvert meiri hörku heldur en neytendur í nágrannalöndunum. Eldsneyti á ökutæki er háskattavara, hátt í 60% af bensínverði eru skattar í ríkissjóð og það er ekkert sem segir að það sé sjálfgefið lögmál að það sé þannig,„ sagði Runólfur. Hann segir að þegar tankurinn á meðal fjölskyldubíl er fylltur af bensíni þá renna af því um 3,500 krónur sem skattar í ríkissjóð. Hann segir að eldsneyti sé 5,3% af vísitölu neysluverðs og hefur því að hans mati veruleg áhrif á vísitölugrunninn og þar með allar skuldbindingar heimilanna.

„Svo það er eðlilegt og við höfum fordæmi fyrir því, meðal annars í tíð þessarar ríkisstjórnar sem nú situr, að gripið hefur verið tímabundið til þess ráðs að lækka álagningu hins opinbera til að vega upp á móti hækkunum sem skapast af utanaðkomandi aðstæðum sem teljast óeðlilegar eins og sú staða sem hefur skapast nú í Mið-Austurlöndum og Nígeríu,„ sagði Runólfur.

Hann segir jafnframt að það sé ekkert sem segir að það sé sjálfgefið að þessir atburðir eigi að bitna á íslenskum neytendum og telur hann að þeir eigi ekki að virka sem tekjuauki fyrir ríkissjóð. „Reyndar hefur það áunnist að stærsti hluti eldsneytisgjalda eru fastar krónutölur, en það verður ekki litið hjá því að það er á ábyrgð þeirra sem fara með hagstjórnina að reyna að hafa áhrif á kostnað almennings. Það hefur verið talað um það sem er jákvætt við gengisfall krónunnar að það komi sér vel fyrir útflutningsatvinnuvegina og ferðamannaiðnaðinn en einn mesti vaxtabroddur í þeim geira undanfarin ár hafa verið ferðalög íslendinga innanlands og það hlýtur að vera áhyggjuefni hversu miklu dýrara það er orðið að ferðast á eigin bíl um landið heldur en það var bara fyrir ári síðan,„ sagði Runólfur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Runólfur segir ennfremur að FÍB hafi sent ríkisstjórninni og fjármálaráðherra erindi varðandi þetta mál fyrir skömmu. „Reyndar gerðum við það einnig á haustmánuðum og þá var lagt þingmannafrumvarp um tímabundna lækkun gjalda á eldsneyti fyrir þingið en það virðist hafa dagað uppi í nefnd. Síðast þegar gripið var til slíkra aðgerða í kringum svo nefnd rauð strik þá virtist það ekki taka langan tíma að undirbúa og keyra í gegnum þingið til að koma í veg fyrir þá vísitöluþróun sem var fyrirsjáanleg á þeim tíma og hefði haft áhrif á kjarasamninga ef ekki hefði verið gripið inn í.„

Til baka á upphafssíðu