Ármann Kr. Ólafsson aðstoðarmaður fjármálaráðherra segir að það sé mat ráðuneytisins að það sé ekki tímabært að hreyfa við bensíngjaldinu að svo stöddu. Hann benti einnig á að bensíngjaldið hafi ekki hækkað síðan 2003. „Ef tekið er mið af verðlagsvísitölu þá hefur bensíngjaldið í raun lækkað um 12% á þessu tímabili,„ sagði Ármann.

Hann vildi einnig taka það fram að þegar talað er um að ríkið auki tekjur sínar vegna virðisaukaskatts á bensíni þá komi í raun í sama stað niður fyrir ríkissjóð af hvaða neysluvöru þær tekjur skapast. „Fólkið í landinu hefur ákveðinn kaupmátt og almennt séð má segja að ef fólk eyðir peningunum ekki í bensín þá eyðir það þeim í annan varning sem ber virðisaukaskatt. Það skiptir í raun ekki máli hvaðan virðisaukaskattsgreiðslan kemur, og því má segja að ríkissjóður hagnist óverulega, ef nokkuð„ sagði Ármann.

Ármann sagði að lokum að hann persónulega telji að bensínhækkanir hafi ekki eingöngu neikvæðar hliðar, því út frá umhverfissjónarmiði megi segja að ef neyslan á bensíni minnkar þá minnkar um leið útblástur og mengun, slit á vegum og svo framvegis.

Til baka á upphafssíðu