Skeljungur
„Hvað heimsmarkaðinn varðar þá vonast maður kannski í einfeldni sinni að hann hækki ekki mikið meira,„ sagði Stefán Segatta framkvæmdastjóri innkaupasviðs hjá Skeljungi. Hann taldi ekki að það væri hætta á að sama staða komi upp og í olíukreppunni 1973 þegar langar biðraðir mynduðust við bensíndælur. „Nei, ég sé bara fyrir mér að menn dragi saman seglin og að það dragi úr sölu tímabundið eða jafnvel til lengri tíma. Við sjáum það gerast á stærri mörkuðum eins og í Bandaríkjunum,„ sagði Stefán. Hann tók jafnframt fram að þessarar þróunar hafi gætt á markaðnum undanfarin tvö ár þó að ástandið í Íran og Nígeríu hafi kynnt undir verðhækkunum núna.

„Annað sem hefur áhrif á þessum markaði er að það hefur ekki verið fjárfest í endurnýjun á hreinsunarstöðvum mjög lengi og þeim hefur fækkað frekar en fjölgað og þær eru í rauninni töluverður flöskuháls í framleiðsluferlinu,„ sagði Stefán að lokum.

Olís

„Verðið er verulega hátt og hefur farið hækkandi undanfarið og ástæðan fyrir því eru miklar áhyggjur af skorti í sumar. Bensínneysla eykst mikið yfir sumartímann í Bandaríkjunum og staðreyndin er sú að umframafkastagetan á heimsmarkaði er mjög lítil og þannig hefur staðan verið í marga mánuði og birgðastaðan er ekkert allt of góð og svo bætist sú staðreynd við hér heima að krónan hefur veikst töluvert á móti bandaríkjadal og það magnar þessi áhrif hér á Íslandi," sagði Samúel Guðmundsson hjá Olíuverslun Íslands, Olís.

Eigum við svo litlar olíubirgðir hér á Íslandi að við verðum að fylgja heimsmarkaðsverði dag frá degi?

„Það er mjög skýr krafa um að lækkanir skili sér hratt hér heima og þá verður það sama að gilda um hækkanir þær þurfa einnig að skila sér hratt og því fylgjum við heimsmarkaði tiltölulega náið. Ég vil taka það fram að það er skýr stefna Olíuverslunar Íslands að bjóða viðskiptavinum sínum góða þjónustu og samkeppnishæft verð á hverjum tíma," sagði Samúel að lokum.

Atlantsolía

„Ég vil bara segja það, að ef Atlantsolíu nyti ekki við þá hefðu hækkanirnar komið mun fyrr og verið mun brattari en raunin er. Hér áður voru leiddar líkur að því að þegar hækkanir áttu sér stað erlendis frá þá notuðu olíufélögin tækifærið og hækkuðu sína álagningu en núna hefur þessu verið öfugt farið því það hefur enginn viljað vera fyrstur til að hækka og þegar hækkanirnar komu þá voru þær í neðri mörkum þess sem ella hefði orðið. Það eru allir að vona að verðið fari lækkandi daginn eftir. Við fullyrðum það að ef við værum ekki á markaðnum þá væri bensínlítrinn líklegast 4 til 6 krónum hærri en hann er í dag. Að auki þá hafa sektargreiðslur vegna verðsamráðs ekki skilað sér út í verðlagið né heldur kostnaður við lög um brennisteinsinnihald díselolíu frá 2005 né heldur ákvæði laga um díselolíugjaldið þegar olíufélögin voru skikkuð til að lita olíuna,„ sagði Hugi Hreiðarsson markaðs- og kynningarfulltrúi hjá Atlantsolíu. Hann setti hækkanirnar á heimsmarkaði í samhengi með dæmi um fyrsta bensínfarminn sem Atlantsolía keypti í desember 2003 en þá kostaði eitt tonn af 95 oktana bensíni 289 bandaríkjadali og gengi dollarsins var í 72 krónum. „Í gær kostaði sama tonnið á sama markaði 711 bandaríkjadali,„ sagði Hugi. Hann sagði jafnframt að þess væri farið að gæta á Bretlandsmarkaði að menn óttist að verðið nálgist nú þau mörk þar sem þetta háa verðlag fari að hafa veruleg áhrifa á hagkerfið vegna þess að fólk fari að líta á þetta sem munaðarvöru sem það sparar við sig.

Olíufélagið ehf

Magnús Ásgeirsson innkaupastjóri hjá Olíufélaginu ehf. er bjartsýnn á að olíuverðið hækki ekki ótæpilega héðan af og að ástandið á heimsmarkaðnum sé ekki viðvarandi. „Einhverstaðar stoppar nú olíuverðið, það er mín skoðun en aftur á móti tel ég að við komum ekki til með að sjá neina lækkun fyrr en eftir mitt sumar,„ sagði Magnús þó að hann teldi varhugavert að vera með mikla spádóma í þessum efnum. „Það sem er að hafa mest áhrif á bensínverðið núna er þróun gengisins enda hefur krónan veikst um ein 20% frá áramótum og það er eins og það komi fólki í opna skjöldu núna. Verðið fór að hækka upp úr páskum vegna Írans-málsins og ég tel að þeir komi til með að halda áfram í sinni kjarnorkuvæðingu hvað sem menn á vesturlöndum gera og þetta leysist ekki öðruvísi en með diplómatískum aðferðum og þá kemur þeim þrýstingi til með að létta.„ Magnús vildi einnig benda á að samanburður við olíukreppuna sem átti sér stað í kringum 1973 og 1974 eigi alveg rétt á sér. „Framreiknað var olíuverðið á þeim árum ekki nema 45 bandaríkjadalir en í kringum Íran-Írak stríðið 1979 og 1980 var verðið í kringum 80 bandaríkjadalir. Þá var ekki sami taugatitringurinn í gangi og eðli markaðarins breytt frá 1973.

Til baka á upphafssíðu