Landsmót UMFÍ 2004

Landsmót UMFÍ 2004

Kaupa Í körfu

SKOTMENN hófu keppni á Landsmótinu í gær og það voru haglabyssumenn sem riðu á vaðið í leirdúfuskotfimi eða skeet eins og íþróttin nefnist jafnan, en þetta er í fyrsta sinn sem keppt er í greininni á Landsmóti. Keppt er á glæsilegu skotsvæði Ósmanna við Sauðárkrók. Keppendur eru 21 talsins og halda þeir áfram keppni í dag og þá ráðast úrslit, en þetta er einstaklingskeppni. Keppnin fer þannig fram að hver og einn keppandi þarf að skjóta á 125 dúfur í þremur umferðum í gær og tveimur í dag. Fyrir hverja dúfu sem hitt er fæst eitt stig en kapparnir skjóta af átta mismunandi pöllum og sjónarhornið á dúfurnar er því mismunandi eftir því á hvaða palli menn eru. Eftir tvær umferðir í dag ræðst hvaða sex keppendur komast í úrslit og þurfa þeir þá að skjóta 25 dúfur til viðbótar, einn hring. Til gamans má geta þess að Íslandsmetið er 121 af 125 mögulegum og með úrslitahringnum er metið 146 af 150 mögulegum. Það met á Ellert Aðalsteinsson sem er meðal keppenda, keppir fyrir Íþróttabandalag Hafnarfjarðar. MYNDATEXTI: Ævar Leó Sveinsson, skytta úr ÍBR einbeitir sér að einni leirdúfunni

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar