Missti 51 kíló án þess að fara í ræktina

Guðrún Kristín segir líðan sína vera allt aðra eftir að …
Guðrún Kristín segir líðan sína vera allt aðra eftir að hún kom reglu á mataræðið og byrjaði að hreyfa sig. mbl.is/Ofeigur Lydsson

Guðrún Krist­ín Huldu­dótt­ir er 22 ára nemi sem ákvað fyr­ir einu og hálfu ári að taka sig í gegn. Hún er nú búin að missa 51 kíló.

Þegar Guðrún Krist­ín var að verða sex­tán ára fór bæði lík­am­leg og and­leg heilsa niður á við eft­ir að hún lenti í bíl­slysi. Jeppi á 80 kíló­metra hraða keyrði á hana þar sem hún var á skell­inöðru með þeim af­leiðing­um að hún lenti úti í hrauni. „Ég er bara hepp­in að vera ekki lömuð og yfir höfuð að vera á lífi, það er eig­in­lega ótrú­legt hvað ég slasaðist lítið. En þetta tók mikið á and­legu hliðina, ég mátti ekki gera neitt í lang­an tíma. Þetta er búið að vera mjög erfitt í mörg ár,“ seg­ir Guðrún Krist­ín.

Vildi ná að verða gömul

Guðrún Krist­ín var í sjúkraþjálf­un vegna slyss­ins í fimm ár en um það leyti sem Guðrún Krist­ín var að klára sjúkraþjálf­un­ina í fyrra lést amma henn­ar skyndi­lega langt fyr­ir ald­ur fram. „Þá hugsaði ég bara, heyrðu mig lang­ar að (ná að) verða göm­ul og ég verð ekki göm­ul með þessu áfram­haldi. Ég var orðin mjög þung og heilsan versnaði bara með hverju árinu,“ seg­ir Guðrún Krist­ín og ákvað að gera eitt­hvað í sín­um málum.

„Ég hef oft farið af stað en það hef­ur ekki skilað nein­um ár­angri því ég var að gera það á mjög öfga­full­an hátt. Ég kannski byrjaði á því að missa fullt af kíló­um en enda síðan á verri stað en ég byrjaði,“ seg­ir Guðrún Krist­ín og byrjaði mjög ró­lega í þetta skiptið. Í raun­inni svo ró­lega að það fyrsta sem hún gerði var bara að byrja að drekka meira vatn.

Guðrún Krist­ín seg­ist hvergi hafa leitað ráða en not­ar bara heil­brigða skyn­semi auk þess sem hún fékk mik­inn stuðning frá móður sinni. Móðir henn­ar ráðlagði henni líka að fara ró­lega og breyta bara ein­hverj­um ein­um vana í einu. „Ég var alltaf í strætó á þess­um tíma og ég byrjaði að fara út einni stoppi­stöð áður en ég þurfti til þess að ganga aðeins lengra heim. Svo tveim­ur svo þrem­ur, tók bara pínu­lít­il skref.“

Fékk fjallabakteríuna

Rúm­um mánuði eft­ir að Guðrún Krist­ín byrjaði á þessu hringdi móðir henn­ar í hana og bauð henni með í göngu­túr. Hún samþykkti það sem kom móður henn­ar tölu­vert á óvart þar sem hún hafði oft boðið Guðrúnu Krist­ínu að koma með sér í göngu­túr en hafði aldrei fengið já­kvætt svar frá henni. Guðrún Krist­ín hafði ein­mitt einnig sett sér það mark­mið að segja oft­ar já hvort sem það væri að fara í göngu­túr eða bara hitta vini sína. Þess­ir göngu­túr­ar urðu að ákveðinni reglu.

Í júní í fyrra bauð móðir henn­ar Guðrúnu Krist­ínu með sér á Úlfars­fell og í já­kvæðni sinni stökk hún til. „Ég ætla ekk­ert að ljúga þetta var bara mjög erfitt fyr­ir mig þá, ég var bara heil­lengi á leiðinni upp og frek­ar lengi á leiðinni niður líka.“ Guðrún Krist­ín komst upp og niður og fann því að þetta var ekki eitt­hvað sem var óyf­ir­stíg­an­legt. Hún fékk síðan bullandi áhuga á fjall­göng­um eft­ir að hún fór á Mos­fell stuttu síðar. Henn­ar eina lík­ams­rækt hef­ur því verið göng­ur en hún hef­ur ekki stigið fæti inni í lík­ams­rækt­ar­stöð á þessu einu og hálfa ári sem hún hef­ur misst þessi 51 kíló.

Guðrún Krist­ín tók skyndi­ákvörðun ein­um og hálf­um mánuði fyr­ir Reykja­vík­ur­m­araþonið í ár og ákvað að hlaupa tíu kíló­metra en hún hafði ekkert hlaupið síðan í grunn­skóla. „Þetta var svo­lít­il áskor­un fyr­ir mig. Svo var ég bara að vinna á fullu og ég komst ekki út að hlaupa nema fjór­um sinn­um. En ég kláraði samt tíu kíló­metr­ana,“ seg­ir Guðrún Krist­ín en hún lenti nokkr­um sinn­um í því að fólk hafði ekki trú á henni að hún kæm­ist alla leið. „Þetta kenndi mér að láta engan segja þér hvað þú get­ur gert, gerðu það bara,“ seg­ir Guðrún Krist­ín.

Kom reglu á mataræðið

Guðrún Krist­ín seg­ist í raun­inni ekki hafa borðað neitt sér­stak­lega óholl­an mat áður en borðaði bara mjög óreglu­lega. „Þetta ger­ir það að verk­um að maður leit­ar meira í einhvers konar snakk.“ Því var mik­il­vægt fyr­ir hana að koma reglu á mat­inn. Hún seg­ir að það sé algjört lyk­il­atriði að hafa nesti með sér í skóla og vinnu. „Ég held að það skipti mjög miklu máli af því að ef þú tek­ur ekki með þér nesti gríp­urðu bara með þér það sem er næst hvort sem það er baka­ríið eða eitt­hvað annað.“

Guðrún seg­ist al­veg leyfa sér pizzu og annað sem henni finnst gott. „Ef ég færi að taka allt út þá mundi ég aldrei halda það út. Mér fannst miklu gáfu­legra að bæta inn en ekki banna. Og ef þú kem­ur heim úr göngu þá sestu ekki niður og færð þér pizzu, það pass­ar ekki. Þú tek­ur ekki með þér kók í fjall­göngu. Þetta kem­ur svo­lítið af sjálfu sér.“

Talan á vigtinni skiptir ekki öllu máli

Guðrún finn­ur mjög mik­inn mun á sér nú og fyr­ir einu og hálfu ári. Hún er miklu orku­meiri og hress­ari. „Ég var oft­ar slöpp, ég held ég hafi verið einu sinni veik á síðasta ári en áður var ég mjög oft með kvef. Ég finn líka mun á því hversu mikið mig lang­ar að vera gera eitt­hvað. Ég hef meiri orku að vera með vin­um og ætt­ingj­um og sinna áhugamálum en ég hafði áður. Ég held það sé líka eft­ir­sókn­ar­verðara fyr­ir annað fólk að vera með mér en áður. Ég er miklu já­kvæðari en ég var. Mér finnst lífið bara upp á við núna.“

Töl­urn­ar á vigt­inni og út­litið skipta Guðrúnu Krist­ínu ekki öllu máli, það er í raun­inni bara bón­us. „Mig langaði ekk­ert endilega að vera grönn, mér fannst ég al­veg mjög fín þegar ég var feit. En mig langaði að verða heil­brigð og mig langaði að ná að verða göm­ul,“ en henni finnst miklu merki­legra en að vera búin að létt­ast að vera núna meira en helm­ingi fljót­ari upp og niður Úlfars­fell en þegar hún fór í fyrsta skiptið.

Hún þakk­ar ömmu sinni fyr­ir ár­ang­ur­inn en þær áttu mjög náið sam­band. Guðrún er full­viss um að amma henn­ar væri mjög stolt af henni núna og það hef­ur hjálpað henni þegar hún er við það að gef­ast upp. Hún seg­ir það líka mikla hjálp að taka ár­ang­urs­mynd­ir enda seg­ir vigt­in ekki alla sög­una. „Ég tók til dæm­is mynd af mér í janú­ar og síðan aft­ur í byrj­un júní og þá var ég jafnþung. En mun­ur­inn á mynd­un­um var svaka­leg­ur og það er eig­in­lega ótrú­legt að pæla í því að það mun­ar ekki einu ein­ast grammi á mynd­un­um.“

„Ráðin mín eru að banna þér ekkert og byrja frekar á því að bæta ein­hverju við. Byrjaðu á því að drekka vatn. Ég minnkaði um skó­stærð bara við það að drekka vatn,“ seg­ir Guðrún Krist­ín að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál