c

Pistlar:

22. febrúar 2024 kl. 22:57

Lára Guðrún Sigurðardóttir (laragsigurdardottir.blog.is)

Svona verður húðin heilbrigðari án áfengis 

“Ég ætla að hætta að drekka á morgun” hljómar kunnuglega, en ekki einungis undir tónum slagarans Blindfullur eftir Valgeir Guðjónsson og Sigurð Bjólu. Segja má að við mennirnir höfum átt í stormasömu sambandi við áfengi í yfir 9.000 ár, en við byrjuðum að brugga áfengi löngu áður en við fórum að skrifa. Líkt og með önnur fíkniefni nær áfengi heljartökum á heilanum. Við notum allskonar afsakanir til að fá okkur í glas. Í huganum hljóma setningar eins og: “Fyrst Frakkar drekka daglega, þá hlýtur að vera í lagi að ég geri það” eða “Ég á skilið smá verðlaun í kvöld.” Svo er áfengi í aðalhlutverki í flestum samkomum. Togstreita magnast milli þess hluta heilans sem stjórnar hvötum og þess sem sér um að hafa vit fyrir okkur. Að dreyma um góðar stundir með vínglas um hönd togast á við veruleikann að víninu fylgir fórnarkostnaður. Það getur því orðið þrautinni þyngra að stjórna sopanum. Stephen King sem er edrú í dag lýsti þessu sambandi vel: “Það að segja alkóhólista að hætta að drekka er eins og að segja manni með ræpu að halda í sér.” 

Að skoða sambandið við áfengi  gagnast ekki bara þeim sem veikjast af áfengissýki. Vínandi - í hvaða umbúðum sem hann kemur: bjór, léttvíni eða sterku - er nefnilega þekkt eitur sem hefur víðtæk áhrif. Etanól er smágert fitu-og vatnsleysanlegt efnasamband sem smeygir sér óhindrað inn í allar frumur líkamans og hefur með því áhrif á starfsemi húðarinnar. Með því að halda sig frá áfengi (eða nota það í miklu hófi) stuðlum við því að heilbrigðari húð með ýmsum hætti: 

  1. Ferskara útlit því áfengi er bólguvaldandi og losar histamín sem getur gert húðina rauðþrútna ásamt því að valda þrota kringum augu. Þessi einkenni eru mest áberandi hjá fólki með ljósa húð. 
  2. Fylltari og aukinn ljómi í húð, því áfengi getur valdið húðþurrki með því að hindra losun vasopressin, en það er hormón sem eykur vökvalosun og sér til þess að við séum ekki sípissandi á næturna. Þurr húð gerir andlitslínur meira áberandi auk þess sem húðin verður líflaus á að líta.
  3. Nærðari húð því áfengi getur valdið næringarskorti á nokkra vegu, t.d. með því að draga úr upptöku næringarefna um meltingarveginn. Skortur á næringarefnum getur valdið ýmsum húðvandamálum, en helstu næringarefni sem tapast eru amínósýrur, vítamín A, B, C, D, E og K ásamt steinefnunum járni, magnesíum, sink og selen sem öll gegna mikilvægum störfum í húðinni.
  4. Hraustlegri húð því áfengi getur kallað fram, rósroða, psóríasis og fleiri bólgusjúkdóma í húð. Þekkt er að áfengi ýtir undir bólgu með tvennum hætti. Annars vegar með því að skaða frumur beint og hins vegar með því að örva losun svokallaðra fitufjölsykra úr þarmaflórunni. Þessar fitufjölsykrur virðast spila lykilhlutverk í bólgu, en áfengi örvar einnig flutning þeirra gegnum þarmavegginn inn í blóðrásina. Við niðurbrot áfengis í lifrinni myndast auk þess hvarfgjarnar súrefnissameindir sem ýta enn frekar undir bólgu. 
  5. Færri bólur því áfengi er þekkt fyrir að valda hormónaójafnvægi, auka framleiðslu húðfeitis, bæla ónæmiskerfið (sem heldur bólubakteríu í skefjum) og ýta undir bólgu. Við áfengisneyslu tapast einnig steinefnið sink, sem hjálpar til við að draga úr bólum. 
  6. Eðlilegur gróandi og minni líkur á sýkingu því ónæmisbæling er einn fylgifiskur áfengisneyslu, en fólki sem neytir mikils áfengis er hættara við sýkingum auk þess sem sár eru lengur að gróa. Þá geta sveppasýkingar, t.d. fótsveppir, naglsveppir og húðsveppasýking náð sér á strik vegna ónæmisbælandi áhrifa. 
  7. Unglegri húð og jafnari áferð því áfengi hægir á frumuendurnýjun og nýmyndun kollagens ásamt því að eyða andoxunarefnum úr húðinni og fjölga svokölluðum AGE-sameindum. Allt þetta er þekkt fyrir að ýta undir öldrun húðarinnar og auka líkur á litabreytingum. Eitrunar- og æðavíkkandi áhrif áfengis geta einnig valdið háræðaslitum og rauðum litlum blettum víða á húðinni. 

Hversu mikil áhrif áfengi hefur á húðina er vissulega einstaklingsbundið og ræðst m.a. af áfengismagni, erfðum og lengd neyslu. Einhver getur verið smeykur að taka skrefið í átt að vínlausum eða vínlitlum lífsstíl, en þeir sem hafa fetað þann veg vita að hinum megin bíður skýr hugur og skapandi hjarta, líkt og heimspekingurinn Gunnar Hersveinn fjallar um í nýútkominni  bók sinni, Vending. Mig langar hér að bæta við ljómandi húð - því það sést sannarlega oft fyrst á húðinni hver drekka áfengi.

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Læknir og doktor í lýðheilsuvísindum sem grúskar í fræðigreinum til að skilja betur mannshugann og -líkamann. Meðhöfundur Húðbókarinnar (2022) og meðeigandi húðmeðferðarstöðvarinnar HÚÐIN skin clinic.

Meira