c

Pistlar:

17. apríl 2023 kl. 20:27

Lára Guðrún Sigurðardóttir (laragsigurdardottir.blog.is)

Að vakna sem ný manneskja 

 

Í samfélagi sem er í gangi alla 24 tíma sólarhringsins er auðvelt að verða svefnvana. Vakna enn einn morguninn hugsandi: “ég fer fyrr í háttinn í kvöld” - þar til sami vítahringur endurtekur sig!

Mikið hefur verið fjallað um mikilvægi svefns og síðustu ár hafa sjónir beinst að tengslum svefns og húðar. Það er nefnilega þannig að þegar maður sefur illa, þá verður húðin líka þreytt! Sem dæmi, þá var rannsókn gerð á fólk sem fyrst fékk góðan nætursvefn en síðan einungis fimm tíma svefn. Teknar voru ljósmyndir eftir bæði skiptin. Í ljós kom að fólkið reyndist vera með slappari augnlok, dekkri bauga, fölara, með meira slútandi munnvik og fleiri andlitslínur eftir lítinn nætursvefn, í samanburði við sjálft sig þegar það fékk nægan svefn (1). Sem meira er, annað fólk sem fengið var til að skoða myndirnar kvaðst minna spennt fyrir að eiga í samskiptum við svefnvana útgáfuna, því það taldi þær minna aðlaðandi, daprari og þreytulegri (2). Fleiri rannsóknir hafa sýnt álíka niðurstöður, eins og á þá leið að góður nætursvefn tengist unglegri húð og meiri raka (3). Síðan er fólk almennt ánægðara með útlit sitt sofi það vel. En hvað er að gerast í húðinni á meðan við sofum? 

 

Svefn bætir húðina

Svefn stuðlar að heilbrigðri húð með nokkrum hætti (4). Segja má að húðfrumurnar fari á einskonar viðgerðarverkstæði á næturnar. Á meðan við sofum vinnur húðin hörðum höndum við að gera við sig og endurnýja. Hér að neðan eru taldar upp nokkrir ferlar sem bæta húðina á meðan við sofum: 

  1. Aukið blóðflæði: Blóðflæði til húðarinnar eykst á meðan við sofum og þar með flutningur súrefnis og næringarefna, sem nýtist til endurnýjunar á húðinni (5). Aukið blóðflæði gefur húðinni einnig heilbrigt ljómandi útlit, líkt og þegar við erum ástfangin. Hið öfuga sést í streitu. Þá flyst blóðflæði úr húðinni til vöðvanna - húðin er ekki að fara að bjarga þér úr lífshættu! Þess vegna er okkur gjarnan kalt þegar við erum stressuð. 
  2. Kollagenframleiðsla eykst: Vaxtarhormón ganga undir nafninu yngingarhormón því þau örva endurnýjun og viðgerð líkamans. Þar á meðal próteinið kollagen sem gefur húðinni styrk og dregur úr fínum línum og hrukkum (6). Við framleiðum mest af vaxtarhormónum í djúpsvefni fyrri hluta nætur. 
  3. Andoxunarhæfni eykst: Melatónín er ekki einungis svefnhormón, heldur öflugt andoxunarhormón (7). Það mælist meira af melatóníni í húð en blóði, sem bendir til mikilvægi þess fyrir húðina. Melatónín og önnur andoxunarefni verja húðina gegn sindurefnum (þar með bólgu og öldrun) og er því einnig ágætis yngingarhormón. Húðfrumur nýta sér svo melatónín til að þroskast eðlilega, sem gefur húðinni styrk og raka. Við framleiðum einungis melatónín um nætur og í myrkri. 
  4. Dregur úr streitu: Góður nætursvefn dregur úr streitu og losun streituhormónsins kortisóls (8), en kortisól örvar niðurbrot kollagens og þar með öldrun (9).
  5. Minni bólga: Svefntruflanir auka líkur á ýmsum bólgusjúkómum (10). Með því að passa upp á að fá góðan svefn getum við hægt á bólgumyndun í líkamanum, þar á meðal í húðinni, en bólga getur ýtt undir ýmiss húðvandamál, svo sem bólur og exem. 
  6. Bætt varnarlag húðarinnar: Varnarlag húðarinnar sér til þess að halda raka í húðinni og koma í veg fyrir að ertandi efni og ofnæmisvaldar komist inn fyrir skinnið. Í svefni framleiðir húðin seramíð sem hjálpa til við að styrkja varnarlag húðarinnar (3).

Ein og ein svefnlaus nótt er ekkert til að óttast, en með þetta í huga getum við sagt að þegar við sofum vel - þá vöknum við sem ný manneskja. Í orðsins fyllstu merkingu!

Sofðu rótt :)

 

Heimildir

1. Sundelin, T., Lekander, M., Kecklund, G., Van Someren, E. J., Olsson, A., & Axelsson, J. (2013). Cues of fatigue: effects of sleep deprivation on facial appearance. Sleep, 36(9), 1355–1360.

2. Sundelin, T., Lekander, M., Sorjonen, K., & Axelsson, J. (2017). Negative effects of restricted sleep on facial appearance and social appeal. Royal Society open science, 4(5), 160918.

3. Oyetakin-White, P., Suggs, A., Koo, B., Matsui, M. S., Yarosh, D., Cooper, K. D., & Baron, E. D. (2015). Does poor sleep quality affect skin ageing? Clinical and experimental dermatology, 40(1), 17–22.

4. Lyons, A. B., Moy, L., Moy, R., & Tung, R. (2019). Circadian Rhythm and the Skin: A Review of the Literature. The Journal of clinical and aesthetic dermatology, 12(9), 42–45. 

5. Nol, G.l, Elam, M., Kunimoto, M., Karlsson, T. & Wallin, B. G. (1994). Skin sympathetic nerve activity and effector function during sleep in humans. Acta Physiol Scand, Jul;151(3):319-29. 

6. Kann, P., Piepkorn, B. , Schehler, B. , Lotz, J. , Prellwitz, W. , & Beyer, J. (1996). Growth hormone substitution in growth hormone-deficient adults: effects on collagen type I synthesis and skin thickness. Exp Clin Endocrinol Diabetes, 104(4):327-33.

7. Kleszczynski, K., & Fischer, T. W. (2012). Melatonin and human skin aging. Dermato-endocrinology, 4(3), 245–252.

8. Hirotsu, C., Tufik, S., & Andersen, M. L. (2015). Interactions between sleep, stress, and metabolism: From physiological to pathological conditions. Sleep science (Sao Paulo, Brazil), 8(3), 143–152.

9. Chae, M., Bae, I. H., Lim, S. H., Jung, K., Roh, J., & Kim, W. (2021). AP Collagen Peptides Prevent Cortisol-Induced Decrease of Collagen Type I in Human Dermal Fibroblasts. International journal of molecular sciences, 22(9), 4788.

10. Dzierzewski, J. M., Donovan, E. K., Kay, D. B., Sannes, T. S., & Bradbrook, K. E. (2020). Sleep Inconsistency and Markers of Inflammation. Frontiers in neurology, 11, 1042.

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Læknir og doktor í lýðheilsuvísindum sem grúskar í fræðigreinum til að skilja betur mannshugann og -líkamann. Meðhöfundur Húðbókarinnar (2022) og meðeigandi húðmeðferðarstöðvarinnar HÚÐIN skin clinic.

Meira