Pistlar:

7. maí 2021 kl. 4:46

Lára Guðrún Sigurðardóttir (laragsigurdardottir.blog.is)

Haltu þér á tánum!

Þótt árin færast yfir er hugurinn ekkert endilega að fylgja tímatalinu. Þess vegna kemur alltaf jafn mikið á óvart þegar líkamleg einkenni öldrunar gera vart við sig. Fyrir nokkrum árum bankaði eitt slíkt upp á hjá okkur hjónum og sýndi ekkert fararsnið.

Við vorum samstíga með tábergssig okkar og á tímabili við það að ganga af göflunum. Tábergssig er afskaplega hvimleiður kvilli, tala nú ekki um ef maður er mikið á ferðinni um fjöll og firnindi. Við hvert fótmál var eins og verið að senda rafstraum fram í tærnar. Sjálf hafði ég ósjaldan greint tábergssig á læknastofu en hafði ekki hugmynd um hve verkurinn var slæmur. Talandi um að geta ekki sett sig í spor annarra! 

Héldum við hjónin því í rómantíska ferð til stoðtækjafræðings, sem staðfesti gruninn og sendi okkur heim með innlegg og tóma buddu. En mér fannst þetta innlegg aldrei gera nógu mikið fyrir mig og fann alltaf hve veikburða fóturinn var - hann var alltaf að minna á sig. Allt benti til þess að við þyrftum að nota innlegg til æviloka, herða okkur upp og hætta vælinu. Það var samt eitthvað sem hvíslaði að mér að þetta þurfti ekki að vera svona. 

 

Af hverju fær maður tábergssig?

Algeng orsök tábergssigs er mikið álag á fætur. Ég hafði verið að hlaupa löng náttúruhlaup þegar það mætti á svæðið. Skekkja á fótum eða skór sem passa illa geta einnig ýtt undir eða flýtt fyrir komu þess. 

Fætur eru hálfgerð dvergasmíði. Hvor fótur samanstendur af 26 beinum, 33 liðamótum og meira en 100 vöðvum, sinum og liðböndum. Þessi samsetning vinnur að því að bera vigtina okkar, veita stuðning, jafnvægi og hreyfanleika. Lengst af í þróunarsögunni þurftu fæturnir að bera okkur á ójöfnu undirlagi, jafnvel á harðahlaupum undan hættu. Þá mátti virkja alla þessa vöðva til að halda okkur á tánum. Hlutfallslega er afar stutt síðan við fórum að ganga í sóluðum skóm - eða síðustu 100 eða 200 ár af þeim 300.000 árum frá því að hinn viti borni maður kom fram á sjónarsviðið. 

Það segir sig sjálft að fætur eru ekki hannaðir til að ganga í flötum skóm og á flötu undirlagi þar sem þorri vöðvanna liggur í dvala áratug eftir áratug. 

 

Engin lækning

Á læknastofunni voru gefnar hálf gagnslausar ráðleggingar, komst ég fljótlega að. Ég lagðist samt í smá rannsóknarvinnu í veikri von um að finna lækningu en einungis til að komast að því að það var engin alvöru lækning. Kæla með ís, vera í góðum skóm og nota innlegg. Og halda áfram að beita alls ekki fótunum eins og skaparinn hafði ætlað. 

Ég trúi því að líkaminn bili sjaldnast upp úr þurru. Það er oftast einhver orsök fyrir veiki þó vissulega vitum við ekki alltaf hver hún er. Oft er það eitthvað í hegðun okkar sem á í hlut.

Aftur að okkur hjónum. Tíminn leið. Allavega margir mánuðir. Kannski nokkur ár. Örugglega fimmtán innleggjum síðar. 

 

Óvænt lækning

Haust eitt vorum við hjónin stödd í klifurleiðangri í Montserrat fjallgarðinum á Spáni. Eins og stundum þegar við ferðumst saman, villtumst við af leið. Við enduðum á að þvælast upp og niður skógi vaxnar fjallshlíðar. Ég var í flip-flops sandölum (hér vantar íslenskt orð) og þurfti að virkja alla vöðvana í fótunum til að missa ekki sandalana af mér eða renna á lausum laufblöðum niður hlíðina. 

Mér til undrunar var verkurinn horfinn seinna þennan dag. Í fyrsta sinn í langan tíma voru fæturnir ekki að angra mig. Líklega er það ímyndun að hluta en mér fannst strax meira hold í fótunum, svolítið eins og maður upplifir að vöðvar þrútna eftir að maður tekur vel á því. Fótaaðgerðarfræðingurinn minn staðfesti svo tilfinningu mína. Hún sá greinilega mun á holdinu. 

Merkilegast var að verkurinn hvarf og kom ekki aftur fyrr en ég fór aftur að ganga í lokuðum skóm. En hann lagaðist um leið og ég fór í sandalana og kreppti iljar meðvitað, t.d. þegar ég var að stússast í eldhúsinu. Nú eru liðin mörg ár og á meðan ég held mig á tánum eða í flip-flops sandölum þá eru fæturnir eins og hugur minn. 

Vöðvar sem við notum ekki rýrna. Öll þyngd líkamans hvílir á fótunum og því ekki að undra að við förum að finna til þegar holdið minnkar og hættir að veita stuðning við bein og taugar.  Ég held því að okkur sé hollt að vera stundum á tánum á ójöfnu yfirborði, til dæmis með því að ganga um berfætt í náttúrunni eins og forfeður okkar. Prófaðu að horfa á fótinn þegar þú gengur í opnum flip-flops söndulum og sjáðu hvernig vöðvar fótanna byrja að vinna. 

 

Eins og api

Mig langar að deila með ykkur ráði sem fótaaðgerðarfræðingurinn Ásdís Sveinbjörnsdóttir gaf mér og ég nota óspart. Ef þú missir hlut á gólfið notaðu tærnar til að taka hann upp, ef þú getur. Ég hef reyndar gert þetta frá því ég var krakki af því að ég nennti ekki að beygja mig en hafði hætt því þar sem maðurinn minn var alltaf að gera grín að mér og líkja mér við apa. Kannski þurfum við einmitt að haga okkur stundum eins og apar. Hann er allavega steinhættur að gera grín að mér núna. 

Með þessu er ég samt ekki að segja að ég telji að allir geti læknað sig af tábergssigi á sama hátt og við hjónin en það sakar ekki að reyna.

Lifið heil og haldið ykkur reglulega á tánum! 

 

Lára G. Sigurðardóttir

21. janúar 2021 kl. 16:08

Að kalka á réttum stöðum

Eftir langan vetur má búast við því að farið sé að ganga á birgðirnar af sólskinsvítamíni. D-vítamín er eitt af fituleysanlegu vítamínunum sem er hormón og líkaminn getur geymt fyrir dimma daga í fitufrumum. Þrátt fyrir birgðahaldið er D-vítamínskortur algengur. Rannsókn sem birtist fyrir tæpu ári í Læknablaðinu sýndi að meirihluti íslenskra barna voru með gildi undir viðmiðunarmörkum. Þá man ég meira
11. nóvember 2020 kl. 17:42

Silkimjúkar hendur

Mikið hefur mætt á höndunum þínum sem af er ári. Sápa, þurrka, spritta. Versla í matinn. Sápa, þurrka, spritta. Bora í nef (já 91% viðurkenna að bora í nef). Sápa, þurrka, spritta. Opna hurð. Sápa, þurrka... Eftir þjösnaganginn er hætt við að einhverjir fingur séu farnir að taka á sig mynd Dauðadalseyðimerkurinnar, tala ekki um ef þú hefur viðkvæma húð. Handþvottur hreinsar hendurnar af meira
18. maí 2020 kl. 18:10

Er sólarvörn hættuleg?

Húðin á mörgum hér í Kaliforníu er eftirtektarverð, þá einkum miðaldra ljóst hörund sem fengið hefur að baða sig árum saman í Kaliforníusólinni. Húðin verður þurr, líflaus, leðurkennd, með mikið af línum og brúnum litaflekkjum. Sömu áhrif sjást eftir ljósabekki.  Að taka dúninn úr úlpu Á forsíðu fréttamiðils var nýlega fjallað um að fólk ætlaði að flykkjast um miðja nótt til að baða sig í meira
2. apríl 2020 kl. 5:38

Að ná slökun í streitu

  Hvert sem við lítum loga áminningar um hættuna sem við búum við um þessar mundir, ásamt skilaboðum um að koma sér í öruggt skjól. Það er skrítin tilfinning að geta ekki faðmað fólkið sitt. Að hafa sífellt á tilfinningunni að mögulega geti maður verið að smita aðra eða bera smit heim í kæruleysi. Glundroði, óvissa, einangrun, einmanaleiki og kvíði virðist vera daglegt brauð sem borið er á meira
4. mars 2020 kl. 17:14

Litlir lúmskir blettir

Bletturinn á vinstra læri dökknaði að því er virtist á einni nóttu. Uggur myndaðist innanbrjósts. Að vera af kvíðakyni sem gæti unnið heimsmeistaratitla væri keppt í áhyggjum var ekki að hjálpa mér. Um hugann flugu allar mögulegu verstu útkomurnar. Þangað til framheilinn á mér náði stjórn og sagði stelpunni að líklega yrði þetta allt í lagi.  Síðustu ár hef ég lært að þegar kvíði bankar upp á meira
16. janúar 2020 kl. 23:00

Tíu leiðir til að halda húðinni heilbrigðri

Það er stundum svo kalt inni hjá mér að ég er ekki viss um að fingurnir á lyklaborðinu séu mínir því ég hef næstum enga tilfinningu í þeim. Og sem verra er, húðin á handarbökunum skreppur saman eins og þurrkuð sveskja - ef sveskja getur verið náhvít á litinn. Allt þetta er tilkomið vegna þess að æðakerfið ákvað að halda hita á "mikilvægari" líffærum. Hvenær ákvað skaparinn meira
13. desember 2019 kl. 5:06

Það sem gerir þig að gulli

Hefurðu leitt hugann að því að leið þín um lífið er einstök. Enginn annar fetar í nákvæmlega sömu fótspor og því getur enginn sett sig fullkomlega í þín spor. Við göngum stundum í gegnum svipaða lífsreynslu en hvernig við upplifum hana er háð erfðum og umhverfi, sem mótar hvert og eitt okkar. Því erum við misvel í stakk búin til að takast á við áföll og lífsins verkefni sem verða á vegi okkar. Auk meira
mynd
30. október 2019 kl. 18:54

Halló vetur!

Við erum vön að setja vetrardekk undir bílinn þegar frysta tekur en fær húðin okkar næga athygli þegar kuldaboli byrjar að bíta í kinnar! Hvað gerist þegar kólnar í veðri - af hverju líta t.d. handarbökin út fyrir að vera tíu árum eldri? Og til hvers ættum við að verja húðina fyrir kulda? Þegar kólnar í veðri lækkar rakastig gjarnan í andrúmsloftinu sem þýðir að loftið verður þurrt og dregur til meira
mynd
30. ágúst 2019 kl. 4:02

Hin sanna fegurð

Hefurðu einhvern tíma fengið athugasemd um útlit þitt? Sjálf hef ég í gegnum tíðina fengið meira en ég kæri mig um. Nefið ku vera stórt, ennið hátt og handleggir stuttir eins og á mörgæs. Verandi með miðlungs sjálfstraust ferðaðist ég lengi með þá tilhugsun að láta minnka á mér nefið - aðeins erfiðara að eiga við handleggina og ennið! Ég prófaði þó að klippa á mig topp en hann varð svo grisjóttur meira
mynd
21. júní 2019 kl. 6:10

Sólbruni í skýjunum

Það er svo merkilegt að þó maður viti eitthvað upp á tíu þá fer maður ekki endilega eftir því. Það var alskýjað þennan dag þarna sem ég var stödd með fjölskyldunni í klifurferð hátt upp í fjöllum Ítalíu - svo hátt að við komumst í snertingu við skýin. Það var ekkert sérstaklega hlýtt. Líklega vegna veðuraðstæðna vorum við ekki innstillt á að vernda húðina og bera á okkur sólarvörn. Sem mér finnst meira
mynd
24. maí 2019 kl. 4:40

Allt nema hamingja og svefn. Nr.IV

Með kollageni fáum við 19 af þeim 20 aminósýrum sem líkami okkar notar til að byggja ýmiss prótein, ensím og fleira til að halda okkur gangandi. Sjálfur getur kroppurinn búið til tíu aminósýrur en hinar tíu þurfum við að fá með matnum okkar. Eina aminósýran sem við fáum ekki með kollagen fæðubótarefnum  er sú sem telst uppspretta gleði og svefns - tryptófan er nefnilega aðalhráefni serótóníns meira
7. maí 2019 kl. 3:56

Smiðir húðarinnar. Nr.III

Í húðinni þinni eru kröftugir smiðir að störfum allan sólarhringinn - eins og smiðirnir sem eru að gera borg og bæi fegurri. Nema smiðirnir í húðinni (kallast réttu nafni bandvefsfrumur) smíða aðallega kollagen og aðra góða muni. Í húðinni er mest smíðað á miðhæðinni (leðurhúð) en líka á öðrum hæðum og víðar í kroppnum.   Ómissandi verkfæri Eins og húsasmiður notar hamar til að smíða þá meira
23. apríl 2019 kl. 17:04

Æskubrunnur eða nýtt æði? Nr.II

Fiskihlaup á veisluborðum Hefur þú smakkað fiskihlaup - þetta sem var vinsælt á veisluborðum áttunda áratugsins? Þá varstu mögulega að borða kollagen óafvitandi því hlaupið sem heldur réttinum saman og kallast venjulega matarlím eða gelatín er unnið úr kollageni.  Orðið kollagen (e. collagen) er tekið úr grísku þar sem kolla þýðir lím og viðskeytið -gen þýðir afurð og vísar til þess að áður meira
11. apríl 2019 kl. 17:57

Æskubrunnur eða nýtt æði? Nr.I

Hrukkur minnka, húðin verður fallegri, hárið heilbrigðara og liðamótin mýkri ef við bætum kollageni á innkaupalistann - ef marka má auglýsingar. Vinsældir kollagens hafa aukist svo mikið að fyrir ári síðan var nær ómögulegt að finna það í búðum en núna er erfitt að sjá það ekki. Auk þess eru sífellt fleiri vörumerki að bætast í hillurnar.  Þó svo að það sé gott að eldast (já meira
4. mars 2019 kl. 18:20

Skulda­dag­arn­ir koma fram um fer­tugt

Okkar mikilvægasta klæði kemur í litrófi frá hvítu, svörtu og allt þar á milli. Stundum ber það keim af gulum lit og stundum út í rautt. Það heldur á okkur hita og kælir ef okkur verður heitt. Það endist okkur út lífið, ver okkur gegn innrás sýkla og reynir að forða okkur frá skaða - eins og einhverju beittu eða brennheitu. Það er nokkuð sjálfbært og endurnýjar sig á 28 dögum en byrjar að þynnast meira
Lára Guðrún Sigurðardóttir

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Læknir og doktor í lýðheilsuvísindum sem grúskar í fræðigreinum til að skilja betur mannshugann og -líkamann. Annar stofnenda og eigenda húðmeðferðarstöðvarinnar HÚÐIN skin clinic. Meira