Pistlar:

21. janúar 2021 kl. 16:08

Lára Guðrún Sigurðardóttir (laragsigurdardottir.blog.is)

Að kalka á réttum stöðum

Eftir langan vetur má búast við því að farið sé að ganga á birgðirnar af sólskinsvítamíni. D-vítamín er eitt af fituleysanlegu vítamínunum sem er hormón og líkaminn getur geymt fyrir dimma daga í fitufrumum. Þrátt fyrir birgðahaldið er D-vítamínskortur algengur. Rannsókn sem birtist fyrir tæpu ári í Læknablaðinu sýndi að meirihluti íslenskra barna voru með gildi undir viðmiðunarmörkum. Þá man ég ófá tilfelli af verulega lækkuðum D-vítamín gildum hjá fullorðnum frá því ég vann á heilsugæslu, en D-vítamínskortur er algengari eftir því sem aldurinn færist yfir. 

 

Dökk eða ljós á 66 gráðum

Á 66. breiddargráðu getur sólin í fyrsta lagi byrjað að hjálpa húðinni að framleiða D-vítamín í maí. Það stendur svo fram í september, svo lengi sem sólin er nógu hátt á lofti. 

 

Ef húð þín er náttúrulega dökk þá er þér enn hættara við skorti. Í dökkri húð keppir litaefnið melanín við kólesteról (sem breytist í D-vítamín) um að grípa útfjólubláu geislana. Dökk húð framleiðir því allt að 90% minna af D-vítamíni en hvít húð. 

 

Til hvers þetta sólskinsvítamín? 

Þá spyr maður sig - af hverju þurfum við allt þetta D-vítamín og getum við ekki bara dælt því inn í líkamann í risaskömmtum ef við erum í skorti?

 

Því er nú verr og miður.

D-vítamín þarftu meðal annars fyrir sterk bein. Ef þig skortir D-vítamín þá losnar hormón sem segir beinunum þínum að losa kalk. Það getur valdið beinþynningu. Síðan eru vísbendingar um að D-vítamín verji okkur gegn fjölda annarra sjúkdóma.

Nú skulum við skoða ástæðuna fyrir því af hverju þú vilt ekki taka inn stóran skammt af D-vítamíni.

 

Herra K2 opnar fyrir Kalk

D-vítamín sér til þess að hleypa kalki og fosfór inn í kroppinn gegnum þarmana. En nú vandast málið. Kalk fer ekki í beinin nema þú hafir K2-vítamín, sem er einskonar dyravörður fyrir kalk inn í beinin. Ef þú átt ekki nóg af K2-vítamíni þá er hætt við að kalkið komist ekki til beinanna heldur hlammi sér í mjúkvefina þína og jafnvel æðaveggi. Að merjast auðveldlega getur verið vísbending um skort en þarf ekki að vera. Kólesteról-lækkandi lyf geta einnig minnkað upptöku K-vítamíns án þess að vitað sé nákvæmlega með hvaða hætti. 

Þetta er ekki búið.

 

Sá sem startar D-vítamíninu

D-vítamín sem þú ert nú búinn að taka inn samviskusamlega er gagnslaust í því formi sem þú tekur það inn. Til að það geti byrjað vinnuna sína þarf magnesíum fyrst að ræsa það í gang. 

Margt getur lækkað magnesíum í kroppnum. Jarðvegurinn er orðinn snauður af magnesíum þannig að við fáum minna af því með plöntufæði en fyrir fimmtíu árum. Síðan geta ýmis lyf eins og magalyf minnkað magnesíum í kroppnum. Þegar sýrustig magans hækkar losnar magnesíum ekki greiðlega frá próteinum og partur af því endar í bauknum. 

 

Síðast en ekki síst

Það gefur auga leið að þú þarft einnig að fá kalk með matnum til að hafa eitthvað til að vinna með og þörfin fyrir A-vítamín eykst sömuleiðis. Sardínur, lax, lambakjöt, sesamsmjör (tahini), tófú, grænt laufgrænmeti og mjókurvörur innihalda kalk en lifur er afar A-vítamín rík. Ef þú telur þig ekki fá nóg af kalki má alltaf taka inn 1000 mg calcium á dag með magnesíum. Tökum þetta saman

Til að kalkið sem D-vítamín hleypti inn í kroppinn endi ekki í mjúkvefjum þarftu K-vítamín, og magnesíum þarftu til að gera D-vítamín starfhæft. Hafðu samt hugfast að sum lyf geta flækt málið. Þá er spurning hvernig við getum tryggt nóg af næringarefnum? 

  1. Ertu að fá nóg af magnesíum? Áður en þú byrjar að taka inn D-vítamín viltu vera viss um að fá nóg magnesíum, eins og með dökku laufgrænmeti, eggjum, baunum, hnetum sem hafa verið lagðar í bleyti, spíruð fræ og tófú. Þar sem nýrun stjórna vel magnesíum í blóðinu (að því gefnu að þú sért ekki með nýrnabilun) þá er venjulega óhætt að taka inn 300-400 mg á dag. Magnesíum glycinate hjálpar oft til við svefn en magnesium citrate hentar betur fyrir þá sem eru með hægðatregðu. Það er líka hægt að fá blöndu af þessu.  
  2. Þú færð D-vítamín með feitum fisk, helst villtum. Eitt egg inniheldur einungis um 10% af ráðlögðum dagskammti. Þar sem flestir fá hvorki nóg með fæðunni né sólinni á okkar slóðum er ráðlagt að taka inn 400-800 einingar (IU) á dag, eftir aldri og ástandi. 
  3. Hvernig er K-vítamín hjá þér? Þarmaflóran þín sér um að framleiða um helming af K-vítamíni en hinn helminginn þarftu að fá með fæðunni. Þú færð K-vítamín með rósakáli, grænu laufgrænmeti, spergilkáli en einnig gerjuðum mat eins og osti. Soðnar gerjaðar sojabaunir í hefðbundnum japönskum rétt sem kallast natto gefur þér góðan skammt. Avókadó inniheldur smá K-vítamín en gefur þér fituna sem hjálpar til við að flytja fituleysanlegu vítamínin (A, D, E og K) inn í líkamann.
  4. Ráðfærðu þig við lækninn þinn áður en þú tekur fæðubótarefni, allavega ef þú tekur lyf eða ert með undirliggjandi sjúkdóm. Sem dæmi þá getur K-vítamín minnkað virkni lyfsins Kóvar, sem er blóðþynningarlyf. 

Á dimmum dögum getur gert gæfumuninn að nærast vel, en gæfan felst líka í að gera það skynsamlega. Eins og að taka inn hæfilega mikið af D-vítamíni til að kalka á réttum stöðum.

Lára G. Sigurðardóttir

11. nóvember 2020 kl. 17:42

Silkimjúkar hendur

Mikið hefur mætt á höndunum þínum sem af er ári. Sápa, þurrka, spritta. Versla í matinn. Sápa, þurrka, spritta. Bora í nef (já 91% viðurkenna að bora í nef). Sápa, þurrka, spritta. Opna hurð. Sápa, þurrka... Eftir þjösnaganginn er hætt við að einhverjir fingur séu farnir að taka á sig mynd Dauðadalseyðimerkurinnar, tala ekki um ef þú hefur viðkvæma húð. Handþvottur hreinsar hendurnar af meira
18. maí 2020 kl. 18:10

Er sólarvörn hættuleg?

Húðin á mörgum hér í Kaliforníu er eftirtektarverð, þá einkum miðaldra ljóst hörund sem fengið hefur að baða sig árum saman í Kaliforníusólinni. Húðin verður þurr, líflaus, leðurkennd, með mikið af línum og brúnum litaflekkjum. Sömu áhrif sjást eftir ljósabekki.  Að taka dúninn úr úlpu Á forsíðu fréttamiðils var nýlega fjallað um að fólk ætlaði að flykkjast um miðja nótt til að baða sig í meira
2. apríl 2020 kl. 5:38

Að ná slökun í streitu

  Hvert sem við lítum loga áminningar um hættuna sem við búum við um þessar mundir, ásamt skilaboðum um að koma sér í öruggt skjól. Það er skrítin tilfinning að geta ekki faðmað fólkið sitt. Að hafa sífellt á tilfinningunni að mögulega geti maður verið að smita aðra eða bera smit heim í kæruleysi. Glundroði, óvissa, einangrun, einmanaleiki og kvíði virðist vera daglegt brauð sem borið er á meira
4. mars 2020 kl. 17:14

Litlir lúmskir blettir

Bletturinn á vinstra læri dökknaði að því er virtist á einni nóttu. Uggur myndaðist innanbrjósts. Að vera af kvíðakyni sem gæti unnið heimsmeistaratitla væri keppt í áhyggjum var ekki að hjálpa mér. Um hugann flugu allar mögulegu verstu útkomurnar. Þangað til framheilinn á mér náði stjórn og sagði stelpunni að líklega yrði þetta allt í lagi.  Síðustu ár hef ég lært að þegar kvíði bankar upp á meira
16. janúar 2020 kl. 23:00

Tíu leiðir til að halda húðinni heilbrigðri

Það er stundum svo kalt inni hjá mér að ég er ekki viss um að fingurnir á lyklaborðinu séu mínir því ég hef næstum enga tilfinningu í þeim. Og sem verra er, húðin á handarbökunum skreppur saman eins og þurrkuð sveskja - ef sveskja getur verið náhvít á litinn. Allt þetta er tilkomið vegna þess að æðakerfið ákvað að halda hita á "mikilvægari" líffærum. Hvenær ákvað skaparinn meira
13. desember 2019 kl. 5:06

Það sem gerir þig að gulli

Hefurðu leitt hugann að því að leið þín um lífið er einstök. Enginn annar fetar í nákvæmlega sömu fótspor og því getur enginn sett sig fullkomlega í þín spor. Við göngum stundum í gegnum svipaða lífsreynslu en hvernig við upplifum hana er háð erfðum og umhverfi, sem mótar hvert og eitt okkar. Því erum við misvel í stakk búin til að takast á við áföll og lífsins verkefni sem verða á vegi okkar. Auk meira
mynd
30. október 2019 kl. 18:54

Halló vetur!

Við erum vön að setja vetrardekk undir bílinn þegar frysta tekur en fær húðin okkar næga athygli þegar kuldaboli byrjar að bíta í kinnar! Hvað gerist þegar kólnar í veðri - af hverju líta t.d. handarbökin út fyrir að vera tíu árum eldri? Og til hvers ættum við að verja húðina fyrir kulda? Þegar kólnar í veðri lækkar rakastig gjarnan í andrúmsloftinu sem þýðir að loftið verður þurrt og dregur til meira
mynd
30. ágúst 2019 kl. 4:02

Hin sanna fegurð

Hefurðu einhvern tíma fengið athugasemd um útlit þitt? Sjálf hef ég í gegnum tíðina fengið meira en ég kæri mig um. Nefið ku vera stórt, ennið hátt og handleggir stuttir eins og á mörgæs. Verandi með miðlungs sjálfstraust ferðaðist ég lengi með þá tilhugsun að láta minnka á mér nefið - aðeins erfiðara að eiga við handleggina og ennið! Ég prófaði þó að klippa á mig topp en hann varð svo grisjóttur meira
mynd
21. júní 2019 kl. 6:10

Sólbruni í skýjunum

Það er svo merkilegt að þó maður viti eitthvað upp á tíu þá fer maður ekki endilega eftir því. Það var alskýjað þennan dag þarna sem ég var stödd með fjölskyldunni í klifurferð hátt upp í fjöllum Ítalíu - svo hátt að við komumst í snertingu við skýin. Það var ekkert sérstaklega hlýtt. Líklega vegna veðuraðstæðna vorum við ekki innstillt á að vernda húðina og bera á okkur sólarvörn. Sem mér finnst meira
mynd
24. maí 2019 kl. 4:40

Allt nema hamingja og svefn. Nr.IV

Með kollageni fáum við 19 af þeim 20 aminósýrum sem líkami okkar notar til að byggja ýmiss prótein, ensím og fleira til að halda okkur gangandi. Sjálfur getur kroppurinn búið til tíu aminósýrur en hinar tíu þurfum við að fá með matnum okkar. Eina aminósýran sem við fáum ekki með kollagen fæðubótarefnum  er sú sem telst uppspretta gleði og svefns - tryptófan er nefnilega aðalhráefni serótóníns meira
7. maí 2019 kl. 3:56

Smiðir húðarinnar. Nr.III

Í húðinni þinni eru kröftugir smiðir að störfum allan sólarhringinn - eins og smiðirnir sem eru að gera borg og bæi fegurri. Nema smiðirnir í húðinni (kallast réttu nafni bandvefsfrumur) smíða aðallega kollagen og aðra góða muni. Í húðinni er mest smíðað á miðhæðinni (leðurhúð) en líka á öðrum hæðum og víðar í kroppnum.   Ómissandi verkfæri Eins og húsasmiður notar hamar til að smíða þá meira
23. apríl 2019 kl. 17:04

Æskubrunnur eða nýtt æði? Nr.II

Fiskihlaup á veisluborðum Hefur þú smakkað fiskihlaup - þetta sem var vinsælt á veisluborðum áttunda áratugsins? Þá varstu mögulega að borða kollagen óafvitandi því hlaupið sem heldur réttinum saman og kallast venjulega matarlím eða gelatín er unnið úr kollageni.  Orðið kollagen (e. collagen) er tekið úr grísku þar sem kolla þýðir lím og viðskeytið -gen þýðir afurð og vísar til þess að áður meira
11. apríl 2019 kl. 17:57

Æskubrunnur eða nýtt æði? Nr.I

Hrukkur minnka, húðin verður fallegri, hárið heilbrigðara og liðamótin mýkri ef við bætum kollageni á innkaupalistann - ef marka má auglýsingar. Vinsældir kollagens hafa aukist svo mikið að fyrir ári síðan var nær ómögulegt að finna það í búðum en núna er erfitt að sjá það ekki. Auk þess eru sífellt fleiri vörumerki að bætast í hillurnar.  Þó svo að það sé gott að eldast (já meira
4. mars 2019 kl. 18:20

Skulda­dag­arn­ir koma fram um fer­tugt

Okkar mikilvægasta klæði kemur í litrófi frá hvítu, svörtu og allt þar á milli. Stundum ber það keim af gulum lit og stundum út í rautt. Það heldur á okkur hita og kælir ef okkur verður heitt. Það endist okkur út lífið, ver okkur gegn innrás sýkla og reynir að forða okkur frá skaða - eins og einhverju beittu eða brennheitu. Það er nokkuð sjálfbært og endurnýjar sig á 28 dögum en byrjar að þynnast meira
Lára Guðrún Sigurðardóttir

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Læknir og doktor í lýðheilsuvísindum sem grúskar í fræðigreinum til að skilja betur mannshugann og -líkamann. Annar stofnenda og eigenda húðmeðferðarstöðvarinnar HÚÐIN skin clinic. Meira