c

Pistlar:

11. janúar 2022 kl. 11:14

Lára Guðrún Sigurðardóttir (laragsigurdardottir.blog.is)

Af hverju roðnar maður? 

 

Þú segir eitthvað og áttar þig eftir á að orðin gætu verið móðgandi. Kinnarnar hitna og hjartslátturinn eykst. Líklegt er að lófarnir verði örlítið þvalir og bragðlaukarnir greini vott af kopar. Þú skammast þín svolítið fyrir það sem þú sagðir og já - roðnar! Og ef þú roðnar ekki getur þú mögulega roðnað við tilhugsunina um hve vandræðalegt það væri ef þú myndir roðna. Hvað þá ef einhver spurði: “Ertu að roðna?”

Það er ekki skemmtilegt að roðna á mannamóti. Fólk sem á auðvelt með að roðna er þó sagt hafa góða tilfinningagreind, en rótin er gjarnan félagslegur kvíði í sambland við hræðslu að valda öðrum vonbrigðum. Roði sem hleypur fyrirvaralaust í kinnar getur því verið tilkominn vegna félagslegrar streitu en einnig ef maður er feiminn, vandræðalegur, reiður eða með mikla ástríðu. 

Tilfinningaþroski til að halda sáttum

Breski sálfræðiprófessorinn Ray Crozier segir að það að roðna þróaðist sem ákveðið merki í félagslegum samskiptum. Með því að roðna sýnum við öðrum að við misstígum okkur og sjáum að okkur. Aðrir sem sjá okkur roðna skilja þá óþægilegu tilfinningu sem við upplifum og vita að með því að roðna erum við að biðjast afsökunar á mistökum okkar.  Ray vill meina að vandræðaleiki sýni tilfinningagreind (e. emotional intelligence) því til að upplifað sig vandræðalegan þarf maður að geta skynjað hvernig öðrum líður. Maður þarf að geta sett sig í spor annarra og hafa gáfur til að átta sig á þeim félagslegu aðstæðum sem maður finnur sig í. Það að roðna sé þannig háþróað viðbragð sem sýnir að við sjáum eftir móðgun eða óvirðingu sem við höfum sýnt öðrum. Viðbragðið auki þannig líkur á sáttum, en flest þekkjum við dæmi um hvernig óvirðing getur leitt til átaka. Með því að roðna erum við að sýna að við viljum halda öllu góðu, en sýnt hefur verið að fólk sem verður vandræðalegt vekur samkennd hjá öðrum. Þegar þú roðnar verður raunveruleg aukning á blóðflæði og þeir sem roðna oft hafa reynst næmir fyrir efnum sem víkka æðar, t.d. níasíni (B3 vítamín). 

Bleikar kinnar

Að roðna þekkist ekki hjá dýrum enda er talið að bleiku kinnarnar tengist sterklega samspili hugmyndar okkar um eigið sjálf og áhorfandann - sem veldur kvíða og ræsir þar með streitukerfið. Þegar streitukerfið fer í gang þá gusast adrenalín í blóðið sem víkkar æðar í andlitinu, sem er áberandi í ljósri húð. Það þarf þó meira til. Önnur taugaboðefni fara á kreik og því eru ákveðin svæði í heilanum væntanlega að verki (sem á eftir að kortleggja), því fólk með félagskvíða getur vel stjórnað þessu viðbragði, þó það sé sjálfsprottið. 

Tíðahvarfaroði 

Annarsskonar roði getur komið fram hjá konum á tíðahvörfum. Þá getur komið fram mikil hitatilfinning, sviti og andlitið verður eldrautt. Þessu getur fylgt skjálfti. Köstin standa venjulega yfir í þrjá til fimm mínútur og geta komið fram allt að tuttugu sinnum á dag. Ýmislegt getur hjálpað eins og að draga úr kaffidrykkju og borða sojavörur eða aðra fæðu sem inniheldur phytoestrogen. Í versta falli getur þurft að gefa tímabundið uppbótarmeðferð með estrógen, sem er þó aldrei án áhættu. 

Aðrar ástæður þess að roðna

Síðan er hægt að roðna eftir áfengisneyslu eða kynlíf, sérstaklega ef rósroði er undirliggjandi. Ýmiss lyf geta einnig valdið roða, eins og blóðþrýstingslyf, sýklalyfið metronidazole, nicotinic acid, þunglyndislyfið venlafaxine og fleiri lyf. 

Matur sem getur valið roða er sterkur matur, koffín, áfengi, ýmsir ávextir eins og sítrónur eða tómatar, histamín ríkir ostar, matur sem inniheldur sodium nitrate eins og salami. 

Til að roðna minna

Það getur tekið verulega á að roðna og skilið viðkomandi eftir úrvinda. Ef þér er annt um að ná tökum á roðanum er fyrst og fremst að átta sig á við hvaða aðstæður hann blossar upp  Hér eru nokkur atriði til að hafa í huga: 

  • Minna sig á að það er allt í lagi þó kinnarnar verði bleikar. Það líður hjá. 
  • Setja athyglina á hvað aðrir eru að segja. Það tekur athyglina af manni sjálfum og sínum líkamlegu viðbrögðum, því roði sprettur oft fram þegar maður verður ofurmeðvitaður um sjálfan sig. Flestir eru hvort eð er að spá í sjálfum sér og taka jafnvel ekkert eftir að þú roðnir. 
  • Æfa sig að horfa í augun á öðrum. Með því þjálfar þú þig í að tengjast fólki. 
  • Sumir roðna í þögn, en þögn er vanmetin. Það er tíðum notalegt að geta verið með öðrum í þögn. 
  • Hafa í huga að sýnt hefur verið að okkur líður vel í kringum fólk sem roðnar, því það er álitið meira traustvekjandi og heiðarlegt með tilfinningar sínar. Fólk kann líka að meta þá sem eru svolítið feimnir en leggja sig fram við að eiga góð samskipti. Líður manni ekki bara betur í kringum fólk sem er svolítið klunnalegt - kannski eins og maður sjálfur?
Lára Guðrún Sigurðardóttir

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Læknir og doktor í lýðheilsuvísindum sem grúskar í fræðigreinum til að skilja betur mannshugann og -líkamann. Annar stofnenda og eigenda húðmeðferðarstöðvarinnar HÚÐIN skin clinic. Meira