c

Pistlar:

12. mars 2019 kl. 14:36

Gunna Stella (einfaldaralif.blog.is)

Minni farangur en mörg börn

Við fjölskyldan höfum ferðast mjög mikið í gegnum árin og oftar en ekki með allt of mikinn farangur. Síðastliðin ár höfum við hinsvegar gert tilraunir til þess að ferðast á einfaldari hátt.

Mér finnst mun einfaldara að ferðast með lítinn farangur þegar ég er ein á ferð en þegar kemur að því að ferðast með fjögur börn þá er það aðeins meira mál. Ég hef oft sagt við manninn minn að mér finnist mun einfaldara að ferðast til heitra landa með börnin en í sumarbústað á Íslandi. Ástæðan er sú  að þegar ferðast er á Íslandi þá þarf að taka með sér allar gerðir af útifötum og þá fyllist taskan fljótt. En þegar ferðast er til heitra landa þar bæði minna af fatnaði og fatnað sem tekur minna pláss.

 

Nú er komið að því að við fjölskyldan erum að leggja í langferð hinum megin á hnöttinn. Við tókum þá ákvörðun þegar við pöntuðum flugmiðana að við myndum ferðast með lítinn farangur. Við höfum yfirleitt ferðast með barnabílstóla með okkur en þar sem það er bæði ódýrt og einfalt að leigja barnabílstóla í Ástralíu þá tókum við þá ákvörðun að skilja okkar eftir heima. Bara það eitt og sér sparar mikið pláss. Við ákváðum líka að skilja barnakerru eftir heima þar sem við höfum komist vel upp með það að vera án hennar í rúmt ár. Þegar við fórum til vestur Afríku í fyrra þá skildum við barnakerruna eftir heima og höguðum okkur "næstum" því eins og heimamenn og notuðum Ergo burðarpokann okkar sem getur borið rúmlega 20kg barn. Hann er einn af mínum uppáhalds og hefur þjónað okkur vel í mörg ár. Hann fær því að koma með okkur í þessa langferð. Ég hef líka heyrt að það sé ekki þægilegt að vera með barnakerru á Bali svo við ætlum að láta reyna á þetta.

Okkur langar ekki að ferðast með mikinn farangur og höfum því sett okkur þau skilyrði að hver og einn fær að ferðast með einn bakpoka sem passar á bakið á viðkomandi . Það þýðir ekki að við þurfum að fylla töskurnar en það þýðir að við höfum sett okkur ákveðin mörk. Við hjónin og dóttir okkar sem er 15 ára ætlum að vera með svokallaða heimsreisubakpoka sem eru frábærir í svona ferðalög. Drengirnir þrír verða allir með minni bakpoka í mismunandi litum fyrir hvern og einn þeirra.

Við erum að pakka ofan í töskurnar þessa dagana. Ég er búin að að skrifa niður í skjal hvað við ætlum að taka með.

Eftirfarandi hlutir eru meðal annars komnir á listann.

  • Stuttbuxur
  • Skyrtur
  • Sundföt
  • Kútur
  • Bolir
  • Pilates ferðadýnu
  • Snyrtivörur
  • Sólavörn
  • Aloe vera
  • Vítamín
  • Sandala
  • Kindle
  • Tölvu
  • Vegabréf
  • Bólusetningarskírteini
  • Ferðagögn
  • Stílabók
  • Skólabækur
  • Afþreyingarefni

 

Það er svo mikið frelsi að ferðast með minni farangur. Ferðalagið verður einfaldara og þægilegra. Minni biðtími á flugvöllum, minni tími í að pakka niður þegar ferðast er á milli staða og allt þægilegra.

 

Ég hlakka mikið til þegar við erum búin að pakka niður og getum hafið ferðina. Ferðalagið verður langt en markmið okkar er að njóta augnabliksins. Njóta ferðalagsins og njóta vegferðarinnar.

 

Þú getur fylgst með því hvað við setjum í töskurnar okkar og hvernig ferðalagið verður með því að fylgjast með Instagram og á Facebook.

 

Njótum augnabliksins,

Kærleikskveðja,

Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella

Gunna Stella starfar sem Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari. Hún er fjögurra barna móðir og eiginkona sem er búsett á Selfossi.  Gunna Stella sérhæfir sig í því að hjálpa einstaklingum  að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til þess að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hennar helstu áhugamál eru ferðalög, lestur, gæðastundir með vinum og fjölskyldu og góður nærandi matur. Nánari upplýsingar má finna á www.einfaldaralif.is og á Instagram:gunnastella

 

Meira