c

Pistlar:

5. júlí 2015 kl. 10:31

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Á að rústa landinu?

Ég velti fyrir mér hversu lengi yfirvöld ætla að bíða með að taka ákvörðun um að leyfa gjaldtöku inn í landið eða á ferðamannastaði. Er verið að bíða eftir því að landinu verði rústað? Það er alveg möguleiki á að ekki sé svo langt í að þeim áfanga verði náð – og þá standa væntanlega allir upp og fara að leita að sökudólgum, eins og við (þjóðin) erum svo dugleg við að gera, einkum og sér í lagi eftirá.

Ég hef verið í ferðaþjónustu í meira en tuttugu ár og ég sé alveg þróunina. Hef reyndar allan þennan tíma verið talsmaður þess að greitt sé fyrir aðgang að þjóðgörðum okkar og öðrum helstu ferðamannastöðum, svo hægt sé að koma upp viðeigandi þjónustu á hverjum stað eins og salernum, veitingasölu og sölu minjagripa, því meginmarkmiðið með ferðaþjónustu í flestum löndum er að skapa tekjur fyrir samfélagið. Það gerum við ekki nema bjóða upp á eitthvað og fá greitt fyrir það.

Auðvelt að rústa landinu
Það eru ótal erlendar ferðaskrifstofur sem senda hingað til landsins rútur fullar af vistum, erlenda bílstjóra og fararstjóra og keyra svo um landið með hópa allt sumarið. Margar þessara ferðaskrifstofa tjalda fyrir utan skipulögð tjaldsvæði (til að spara) og skilja eftir sig ýmsa minjagripi þar, eins og salernispappír og margt fleira. Sumir mæta jafnvel með hamar og meitil, því þeir eru að safna steinum og ganga í grjótið hvar sem er og höggva úr því. Flestir þessara ferðamanna skilja lítið eftir sig á landinu nema eyðileggjandi fótspor.

Aðrir ferðamenn leggja hjólhýsum og bílum á stæðum við útsýnisstaði og sofa þar, til að spara sér gjöld á skipulögðum tjaldsvæðum. Þetta á bæði við um íslendinga og erlenda ferðamenn, en þó held ég að það séu bara þeir erlendu sem sofa í bílunum sínum, enda eru nú bílaleigur sem leigja bíla sem hægt er að sofa í. Ég hef sjálf orðið vör við að gestir úr þessum farartækjum stinga sér svo inn á þjónustumiðstöðvar skipulagðra tjaldsvæða eða inn í vegasjoppur til að þrífa sig og nota salernisaðstöðuna – án þess að vilja greiða fyrir.

Eyjar eru viðkvæmari
Þegar ég var í námi í ferðamálfræði hjá H.Í. fyrir fimmtán árum síðan var meðal annars fjallað um skaðleg áhrif ferðaþjónustu. Dæmi voru tekin af því að víða á Kyrrahafseyjum hefðu stórar hótelkeðjur komið inn og byggt upp hótel og flutt ferðamenn inn á svæðið í svo miklu magni að eyjarnar létu fljótt á sjá. Eigendur og yfirmennir voru erlendir, íbúarnir fengu láglaunastörf og margir fóru að stunda vændi, til að afla sér tekna af ferðamönnunum. Þegar svæðið missti sjarma sinn lokuðu keðjurnar hótelunum og fluttu sig á næstu óspilltu eyju. Eftir sátu íbúar með eyðilagt umhverfi og ótal félagsleg vandamál.

Á Galapagos hefur verið tekin upp sérstök umhverfisstefna og fólk þarf nánast að bíða í röð eftir að geta ferðast þangað. Það dregur ekki úr áhuganum og margir eru búnir að undirbúa sig lengi áður en að ferð kemur. Lokaverkefnið mitt í ferðamálafræðinni á sínum tíma fjallaði einmitt um þann framtíðardraum minn að Ísland yrði Galapagos norðursins og að við myndum leggja áherslu á að taka á móti ferðamönnum sem virtu landið og myndu skilja eftir sig tekjur á svæðinu til að nýta til frekari uppbyggingar.

Meira gildi
Fólk leggur aldrei sama mat á það sem er ókeypis og það sem það þarf að borga fyrir. Það sem kostar eitthvað hefur alltaf meira gildi. Í mínum huga er Ísland dýrmætt og við verðum að selja aðgang að því, svo þeir sem hingað komi skilji hversu dýrmætt það er.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira