c

Pistlar:

31. desember 2015 kl. 5:34

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Árið er að kveðja

Einhvern veginn fylgir það óhjákvæmilega þessum síðasta degi ársins að líta um öxl til að meta, “...hvort gengið hafi verið til góðs götuna fram eftir veg...”. Var þetta ár eitthvað í líkingu við það sem við væntum að það yrði? Náðum við árangri í þeim markmiðum sem við settum okkur í upphafi þess? Hvað fór vel og hvað hefði getað farið betur? Hvaða lærdóm getum við dregið af því og hvernig má gera hlutina öðruvísi á næsta ári?

Eitt er víst að þegar árið rennur sitt skeið, tekur annað við og við hefjum gönguna í gegnum næstu 366 daga, því árið 2016 er hlaupaár. Við fáum því einn aukadag á næsta ári til að takst á við áskoranir hversdagsins og halda áfram að læra og þroskast. Eitthvað sem við höldum áfram að gera svo lengi sem við lifum.

Í maí á þessu ári var ég fararstjóri fyrir hóp Norðmanna sem voru á ferð um Ísland. Þetta var andlega þenkjandi hópur og við heimsóttu orkustaði og ræddum ýmis dulræn mál. Einhvern tímann í ferðinnni varð mér á orði að þetta væri ár mikilla breytingar hjá okkur flestum og við myndum öll vera stödd á öðrum stað í lífinu í lok árs, en við ættum von á. Hvað mig varðar hef ég svo sannarlega reynst sannspá, því ótal margir atburðir hafa leitt til óvæntra breytinga hjá mér síðustu mánuði. Ég er því mjög spennt að vita hvaða áskoranir komandi ár felur í sér. Það er svo lengi hægt að koma manni á óvart.

Þar sem þetta er síðasti pistill ársins óska ég þér og þínum, heilla og hamingju á komandi ári og þakka fyrir samfylgdina í gegnum þessi pistlaskrif á árinu 2015.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira