c

Pistlar:

14. febrúar 2016 kl. 12:47

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Valentínusardagur í dag

Það er Valentínusardagur í dag og þótt breska ljóðskáldið Geoffrey Chaucer (1343-1400) sé talinn vera sá fyrsti sem sem sveipaði 14. febrúar dýrðarljóma elskenda, er það ekki fyrr en um miðja 19. öld að hin bandaríska Esther A. Howland fer að framleiða kort tengd Valentíusardegi. Kortin hennar, sem upphaflega voru send til þess sem fólk var ástfangið af, án þess að vera undirrituð, urðu kveikjan að almennri markaðssetningu Valentínusardags. Í dag segja kortaframleiðendur að um 25% allra þeirra korta sem seljast árlega, séu kort tengd Valentínusardegi.

Valentínusardagur hefur orðið að sannkölluðum degi elskenda og hjörtu einkenna allt tengt honum, hvort sem um er að ræða kort, konfekt, púða, bangsa, skartgripi eða eitthvað annað. Hér á landi er tiltölulega stutt síðan þessi siður var tekinn upp og eru ekki allir á eitt sáttir um ágæti hans. Mér finnst hins vegar allt sem tengist tjáningu ástar, hvort sem er til elskhuga, maka, barna, barnabarna eða vina mikilvægt. Við segjum hvort öðru aldrei of oft þessi einstöku orð: “Ég elska þig.”

DREIFUM KÆRLEIKANUM Á FLEIRI DAGA
Það er ekki þar með sagt að við þurfum bara að segja hvort öðru þessi einstöku orð á Valentínusardegi. Þau eru eins og öll önnur orð. Þau verða öflugri og laða til sín meiri orku eftir þvi sem við segjum þau oftar. Hvort sem það eru lítil börn, stálpuð börn, unglingar, fullorðið fólk eða eldra fólk, þá finnst öllum gott að heyra að þeir séu elskaðir.

Við getum líka komið kærleiksorku okkar til skila með því að hrósa fólki sem á vegi okkar verður í hinu daglega lífi. Við getum hrósað fólki fyrir flotta hárgreiðslu, fyrir fötin sem það klæðist, fyrir umhyggju sem það sýnir öðrum eða nánast hvað annað sem okkur finnst vera flott. Ég hef í mörg ár tamið mér að gera þetta og mér finnst æðislegt að fá orkuna síðan aftur til baka í hrósi frá einhverjum öðrum. Leyfum því kærleiksorkunni að vera oftar við völd en bara á Valentínusardag. Ég óska þess að Valentínusardagur verði þér sem þetta lest yndislegur og að kærleiksorkan umvefji þig í dag.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira